Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ætlar að láta vernda hlaðinn steingarð sem fannst niðurgrafinn í möl við Reykjavíkurhöfn. Þetta er hluti af hafnarmannvirkjum síðan á fjórða áratug 20. aldar, ef ég skil þetta rétt, og garðurinn var raunar aldrei týndur, heldur hafði bara verið grafið yfir hann þegar þarfir manna við höfnina breyttust. Þetta er ósköp verklegur garður en engin listasmíð, hefur mér sýnst, bara venjulegur frekar grófur hafnargarður eins og finna má við flestallar hinar stærri hafnir landsins. Ég skal viðurkenna að þótt ég sé eindregið hlynntur varðveislu minja, bæði fornra og nýrra, þá er mér alveg sama um akkúrat þennan garð. Fari hann eða veri, mér og mínum að meinalausu.
Sigmundur Davíð hefur hins vegar greinilega nokkuð ákveðnar hugmyndir um varðveislugildi hluta. Frægt varð þegar hann upplýsti að til skamms tíma hefði hann ævinlega farið út á nýársdag og safnað rakettuprikum. Því miður upplýsti hann ekki hvað hann hefði svo gert við þessi prik, kannski eru þau einhvers staðar vandlega flokkuð eftir ártali og viðartegund, hvað veit ég. Þegar Sigmundur var fréttamaður á Ríkisútvarpinu vildi hann allt til vinna að varðveita gamlar ársskýrslur og annað pappírsdót sem átti að henda, og faldi slíka fjársjóði hér og þar í gólfi og veggjum útvarpshússins. Ýmsir þeirra munu víst vera ófundnir enn. Minjavörður var beðinn að leggja mat á það sem fundist hafði og úrskurðaði að fjársjóðir Sigmundar Davíðs væru því miður einskis virði og hefðu ekkert varðveislugildi.
Og svo þarf varla að rifja upp þegar Sigmundur Davíð vildi varðveita gamlar húsateikningar sem Guðjón Samúelsson dró upp á æskuárum með því að hefjast nú handa við að byggja húsin á teikningunum, hundrað árum eftir að Guðjón lagði þær á hilluna.
En því er ég að rifja þetta upp að þótt Sigmundur Davíð hafi slíka ástríðu til að varðveita rakettuprik, gamlar ársskýrslur og hafnargarð, og telji allt þetta til menningarverðmæta, þá hefur hann bersýnilega engan áhuga á að vernda Ríkisútvarpið. Hann er forsætisráðherra í ríkisstjórn sem aftur og aftur heggur með orðum og gjörðum að útvarpinu og leitast leynt og ljóst við að draga úr trúverðugleika þess. Hvar er áhugi forsætisráðherra á íslenskri menningu, varðveislu hennar og viðgangi, þegar blóðhundar Sjálfstæðisflokksins fara af stað eina ferðina enn til að glefsa í þá stofnun sem óumdeilanlega er ein stoðin undir þá menningu?
„Þótt Sigmundur Davíð hafi slíka ástríðu til að varðveita rakettuprik, gamlar ársskýrslur og hafnargarð, og telji allt þetta til menningarverðmæta, þá hefur hann bersýnilega engan áhuga á að vernda Ríkisútvarpið.“
Hvers vegna er Sjálfstæðisflokknum svo illa við Ríkisútvarpið? (Og Vigdísi Hauksdóttur en ég veit ekki hvort í raun má telja hana til Framsóknarflokksins. Ég hygg að hvorki Eysteinn Jónsson né Steingrímur Hermannsson hefðu kannast við hana sem hugsjónasystur sína.) Nú er ekki eins og stjórnendur Ríkisútvarpsins gegnum tíðina hafi verið blóðrauðir byltingarmenn, ónei, það er nú eitthvað annað. Allar götur síðan 1985 eða í 30 ár hafa útvarpsstjórarnir hver af öðrum verið skipaðir af menntamálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins og að auki hefur flokkurinn sem slíkur oft haft afskipti af öðrum málum innan dyra líka. En ástæðan er líklega sú að það er beinlínis hlutverk Ríkisútvarpsins að skoða og skilgreina samfélag, menningu og samtíma án þess að láta sig valdaklíkur og hagsmunahópa varða. Þeir útvarpsstjórar sem flokkurinn hefur sett yfir stofnunina hafa þrátt fyrir allt verið slíkir fagmenn að þeir hafa leyft metnaðarfullu starfsfólki að sinna því hlutverki, svartasta hluta Sjálfstæðisflokksins til eilífs ama. Fréttastofan hefur hingað til notið trausts og það finnst valdaklíku flokksins óþolandi.
„Sjálfstæðið“ er bara fyrir suma.
Vitanlega er Ríkisútvarpið ekki heilagt, og greinilega þarf að leysa úr fjárhagsvandræðum þess. En stærstum hluta þeirra vandræða á flokkurinn sjálfur sök á með ohf-væðingunni, vansællar minningar, svo það stendur upp á hann að leysa peningamálin, en leyfa starfsfólkinu (því sem eftir er) að sinna sínum góðu störfum og móta starfið á breyttum tímum. Við skulum hvorki láta Vigdísi Hauksdóttur né Hönnu Birnu það eftir.
En Sigmundur Davíð virðist hinn ánægðasti með yfirgang samstarfsflokksins í garð Ríkisútvarpsins, eins og hann sættir sig við allan yfirgang Sjálfstæðisflokksins svo hann fái áfram að leika sér í starfi sem hann hefur augljóslega vart dómgreind til að gegna. Nema ef hann reyndist nú hafa bein í nefinu til að standa gegn atlögunni að útvarpinu. Því miður sýnir hann engin merki þess ennþá. En ég kann reyndar ráð! Grafið útvarpshúsið undir heilu fjalli af möl og leyfið svo Sigmundi Davíð að finna það aftur. Hann gæti sjálfsagt þefað uppi eina af ársskýrslunum sem enn eru týndar. Þá verður örugglega ausið í Ríkisútvarpið fé!
Athugasemdir