Nú er ég listamannalaunalaus rithöfundur og sit hérna á nærbrókinni (slitinni), sársoltinn og sárt haldinn af klínískri desperasjón. Í þessu ástandi leita ég sífellt að nýjum verkefnum, að einhverju til að dreifa huganum. Sumir elda, aðrir skokka. Mig langar bara að fá að vera bloggari með sæta prófílmynd.
Til dæmis hef ég lengi ætlað mér að skrifa um framtíðina og sitjandi ríkisstjórn, að minnsta kosti frá því stjórnin tók við. Upphaflega fannst mér það svo mikið djók að Framsókn hefði komist til valda (og það með Sjálfstæðisflokknum), að þeim hefði tekist að plata fólk til lags við sig. Reyndar finnst mér það ekki alveg eins glettilegt lengur. Ætlunin var þá að skrifa einhverskonar grínsögu sem fjallaði um hvernig Ísland yrði eftir fjörutíu ár af Framsókn og Sjálfstæðisflokk.
„Ég ætlaði að draga upp mynd af landi þar sem var búið að einangra þjóðina frá umheiminum.“
Ég ætlaði að draga upp mynd af landi þar sem var búið að einangra þjóðina frá umheiminum og smætta þjóðfélagsþegna í einskonar vinnumaura. Aðalsögupersóna mín átti að lifa og hrærast í örsmáum klefa innan verksmiðjunnar þar sem hann vann, vakna á hverjum morgni og sjá sólina rísa plasmabjarta á tölvuskjá, en aldrei í raunveruleikanum, fá sín vítamín og daglegu fúkkalyf úr sjálfsala innan klefans, verja síðan bróðurparti dagsins við að steypa litla álkubba og svo að lokum fá seinni lyfjaskammtinn, þarmeðtalin svefnlyfin, og líða út af svo allt gæti hafist aftur næsta dag. Þannig átti líf hans að líða, í sífelldri forheimskaðri endurtekningu. Þessi aðalpersóna mín vissi nefnilega ekkert í raun, hann hafði aldrei séð sólina rísa með eigin augum, áttaði sig ekkert á því hvað vítamín eru eða til hvers hann þarf þau né heldur til hvers fúkkalyf eru. Sömuleiðis vissi hann ekkert til hvers litlu álkubbarnir voru sem hann steypti allan liðlangan daginn eða hvað ál er heldur. Hann var meira að segja ófær um að sofna af sjálfsdáðum og þurfti svefnlyfin úr sjálfsalanum til þess, en var svosem ekki meðvitaður um það frekar en nokkuð annað. Það eina sem hann gerði var að hlýða fyrirmælum og fylgja rútínunni sinni, án þess nokkru sinni að spyrja spurninga.
„Það eina sem hann gerði var að hlýða fyrirmælum og fylgja rútínunni sinni, án þess nokkru sinni að spyrja spurninga.“
Það er ansi augljóst hvað ég ætlaði mér að segja með þessum fyrirhugaða texta mínum, merkingin liggur í augum uppi, en ég ætlaði svosem alltaf að dressa þetta allt svolítið upp í fallegu máli og flottum orðasamböndum, kannski líka með dassi af heillandi lýsingum og persónubyggingu, eins langt og hún myndi ná.
Því miður hafa mér algerlega fallist hendur við að skrifa þessa litlu sögu, sem er leiðinlegt því hún hefði kannski bara orðið ágætis nóvella til dæmis. Ég var nefnilega búinn að ímynda mér röð atburða sem leiddi Ísland frá því samfélagi sem það var þá til samfélags þar sem svona grey eins og ofan er lýst gæti hírst í verksmiðjuklefa allt sitt líf.
Í fyrsta lagi hafði okkar ástsæla ríkisstjórn fengið inn meiri stóriðju til landsins, þá mestmegnis álbræðslu-apparöt sem fengu ekki að komast að annarsstaðar. Til að þjónusta þessi gríðarmikilvægu fyrirtæki þurfti auðvitað að virkja allt allstaðar, bæði lækjarsprænur og sprænandi þjóðfélagsþegna (aftur, þetta átti að vera nokkurskonar grínsaga). Fyrir vikið varð landið auðvitað smám saman svo mengað að fjallkonan sjálf leið út af og lést.
Svo var grínið að það hefði verið hægt að bjarga henni, ef heilbrigðiskerfið hefði ekki verið mölbrotið, kannski ef hjúkkurnar hefðu ekki verið í verkfalli. Ljótt grín, en samt gaman að skjóta því inn. Okkar ástsæla ríkisstjórn hafði nefnilega leyft heilbrigðiskerfinu að grotna niður þar til almenningur var orðinn nógu desperat til að sætta sig við það þegar kerfið var einkavætt í heild sinni. Smám saman varð niðurstaða þessarra fyrirtækja að það væri ekki nauðsynlegt að hafa nokkurskonar starfsfólk innan kerfisins (nema auðvitað í stjórnunarstöðunum, sem eru mikilvægastar allra). Í staðinn fyrir hjúkkur fengum við pillusjálfssala (ég sver ég fékk þessa hugmynd áður en alþingismaðurinn atarna fékk hana!) og þegar fólk þurfti á aðgerð eða stórtækri meðferð að halda var því bara fleygt út í kuldann. Það var hvort eð er ekki lengur nýtilegt sem starfskraftur í stóriðjunni, en þar enduðu allir landsmenn.
„Fyrir vikið varð landið auðvitað smám saman svo mengað að fjallkonan sjálf leið út af og lést.“
Þar sem allir fóru í álverin þá var auðvitað ekki lengur nein sérstök þörf á menntun, svo skólarnir voru meira eða minna lagðir niður. Enn var fólki reyndar kennt að elska land sitt og þjóð, enda erum við öll komin af vinnusömum víkingum sem hófu mannkynssöguna þegar þeir settust að hér á Íslandsströndum. Þá var augljós afleiðing af þessu að menntafólki var ofaukið, og í raun bara til trafala, svo það fékk að fjúka með þeim veiku.
Okkar ástsæla ríkisstjórn varð smám saman fámennari hópur þegar ríkisvaldinu var sífellt komið á færri hendur, þar til eftir sat einungis okkar ástsæli leiðtogi.
Þið sjáið væntanlega hvert þetta stefnir líka.
Einræðisríkið Ísland sem átti bara að vera til í gamansamri dystópíusögu virðist ætla að verða að raunveruleika, og það mun hraðar en ég bjóst við. Stundum líður mér eins og einhver stjórnarliðinn hafi komist í glósurnar mínar og ákveðið að hrinda þessu öllu í framkvæmd á fjórum árum í stað fjörutíu.
Augljóslega get ég ekki lengur skrifað þessa vísindaskáldsögu mína. Ég hef hreinlega ekkert í þessa ríkisstjórn, þau eru mun betri í að fokka upp ríkinu en ég, svo ég læt þessa sögu vera. Kannski ég reyni að kæra okkar ástsælu ríkisstjórn fyrir ritstuld, en þá kemst ég örugglega aldrei á listamannalaun svo ég læt það bara vera.
Höfundur er rithöfundur og drusla.
Athugasemdir