Í samfélaginu okkar eru margar staðalmyndir af fötluðu fólki. Margir halda að við getum ekki lært, unnið, eignast og hugsað um börn, átt eigið heimili, stundað kynlíf, eignast maka, ferðast, tekið þátt í stjórnmálum eða lifað hamingjusömu lífi.
Fólk heldur líka oft að við séum að svindla á bótakerfinu, biðja um of mikla aðstoð eða taka ákvarðanir sem eru óskynsamlegar. Sumir halda að allt fatlað fólk sé alveg eins og trúa ekki að fötlun geti verið breytileg eða ósýnileg. Enn aðrir ganga út frá því að fatlað fólk sé kynlaust, hafi ekki kyngervi, kynvitund og kynhneigð.
Fólk gleymir því gjarnan að fatlað fólk er líka stundum hluti af öðrum jaðarsettum hópum, t.d. fólki í hælisleit, flóttafólki, fólki af erlendum uppruna, fátæku fólki og feitu fólki.
Kerfislægt ofbeldi
Þessar staðalmyndir eru oft staðfestar í kvikmyndum, þáttaröðum, bókum, stjórnmálaumræðu og fréttaumfjöllunum sem sýna einsleita mynd af fötluðu fólki. Þessi veruleiki skapar fordóma gagnvart fötluðu fólki sem samfélagið viðheldur og festir í sessi.
„Fordómarnir búa líka til ofbeldi sem er erfitt að benda á eða gera einhvern einn ábyrgan fyrir.“
Fatlað fólk um allan heim hefur lagt mikið á sig við það að breyta þessum hugmyndum og benda á að fyrst og fremst erum við manneskjur og að fötlun er ekki slæm heldur hluti af fjölmenningu og margbreytileika. Það er þó flókið fyrir okkur að breyta þessum hugmyndum og eyða fordómum því að aðgengi okkar að samfélaginu er ekki gott og kemur í veg fyrir að við höfum tjáningarfrelsi og að við séum tekin alvarlega.
Þessir fordómar búa til ofbeldi. Ekki bara ofbeldi sem við þekkjum best og tölum mest um, t.d. líkamlegt ofbeldi og kynferðisofbeldi. Fordómarnir búa líka til ofbeldi sem er erfitt að benda á eða gera einhvern einn ábyrgan fyrir. Norski friðarfræðingurinn, Johan Galtung (2007), hefur skilgreint slíkt sem kerfislægt ofbeldi. Ofbeldið, í tilviki fatlaðs fólks, birtist þá í því að við höfum ekki möguleika á að mennta okkur eins og ófatlað fólk vegna skorts á aðstoð eða aðgengi og fáum ekki vinnu vegna þess að yfirmenn fyrirtækja og stofnana eru með fordóma eða bjóða eingöngu upp á fullt starfshlutfall sem hentar sumum illa. Einnig getur það birst í því að okkur er meinað eða gert erfitt fyrir að eignast börn því áætlað er að vitsmunir okkar og líkamsverund sé ógn við öryggi barna.
Kerfislægt ofbeldi getur einnig verið þegar fatlað fólk fær ekki að velja hvar og með hverjum það býr, fær ekki aðstoð eða örorkulífeyri vegna þess að það passar ekki inn í matskerfið sem kerfið notar og þegar fólk ákveður að manneskja geti ekki tjáð sig af því hún notar ekki orð til þess og sé þar með ófær um að taka ákvarðanir eða halda sjálfræði sínu.
Menningarbundið ofbeldi
Það sem er sérstaklega hættulegt við kerfislægt ofbeldi, sem erfitt er að benda á og gera fólk ábyrgt fyrir, er að það verður „venjulegt“ og öllum finnst það réttlátt. Ofbeldið getur líka verið mjög dulið og pakkað inn í „jákvæðan“ búning og falist í svokallaðri öráreitni (Sue, 2010). Það er t.d. þegar fólk notar fötlunarhugtök til þess að lýsa ónýtum hlut eða manneskju sem er talin gera eitthvað heimskulegt, þegar fatlað fólk er spurt nærgöngula spurninga um persónuleg mál, t.d. klósettferðir og kynfæri sín, og þegar það er talað við okkur eins og börn, fólk vorkennir okkur, starir á okkur eða hrósar okkur fyrir að kaupa túrtappa í búðinni (Embla Guðrúnar Ágústsdóttir, 2016).
„Það erfiðasta við fordóma er að þeir eru svo miklir að ég hætti að taka eftir þeim“
Fatlað fólk gerir sér jafnvel ekki grein fyrir því að það sem er að gerast er ofbeldi eða getur orðið ofbeldi. Það er m.a. vegna þess að við lifum við fordóma á hverjum degi, og þó það sé mjög sárt, förum við stundum að venjast því eða trúa því að við eigum það skilið. Í niðurstöðum meistararannsóknar minnar um sálrænar afleiðingar af margþættri mismunun fyrir fatlaðar konur tók ein fötluð kona svo til orða; „Það erfiðasta við fordóma er að þeir eru svo miklir að ég hætti að taka eftir þeim“ (Freyja Haraldsdóttir, 2017).
Galtung hefur kallað það ferli menningarbundið ofbeldi (Galtung, 2007). Þá gera fordómar og hefðir ofbeldið "venjulegt", erfitt er að mótmæla því og það breytist oft í beint ofbeldi, t.d. heimilisofbeldi, stofnannaofbeldi, líkamlegt ofbeldi og kynferðisofbeldi. Sem dæmi, ef fötluð manneskja fær ekki viðeigandi aðstoð, enga vinnu og lágan örorkulífeyri, þarf hún líklega að reiða sig á aðstandendur (ef þeir eru fyrir hendi). Það setur hana í slæma valdastöðu og meiri líkur eru á að hún sé beitt ofbeldi heima fyrir eða þurfi að fara á stofnun og búa við mjög skert frelsi (Freyja Haraldsdóttir, 2017). Jafnframt getur niðrandi umræða stjórnmálamanna um fatlað fólk sem bótasvikara stuðlað að meiri hatursglæpum, t.d. í formi líkamsárása, og hækkað sjálfsvígstíðni örorkulífeyrisþega (Steindór J. Erlingsson, 2017). Þá geta hugmyndir um fatlað fólk sem kynlaust og eilíf börn ýtt undir kynferðisofbeldi, t.d. nauðganir og kynferðislega áreitni (Freyja Haraldsdóttir, 2017).
Við berum öll ábyrgð
Þó svo að ofbeldi sé margslungið á köflum, erfitt sé að setja fingurinn á það og finna beina gerendur, þýðir það ekki að það sé ekki til eða að við séum öll stikkfrí. Þvert á móti. Það er lykilatriði að við tökum öll ábyrgð á því að vera vakandi fyrir fordómum okkar og annarra. Við þurfum stöðugt að vera á tánum og leiðrétta eigin hugsanavillur, þora að benda öðru fólki á fordómafulla orðræðu og hegðun og þola það þegar fatlað fólk og aðrir benda okkur á þegar hugsanir okkar, orð og gjörðir eru hlaðnar fordómum. Auk þess skiptir höfuðmáli að fötluðu fólki sé trúað þegar það greinir frá fordómum, misrétti og öðru ofbeldi og að líðan okkar sé viðurkennd og tekin gild. Þannig drögum við úr fordómum og forræðishyggju gagnvart fötluðu fólki og vinnum gegn menningu sem réttlætir og viðheldur því ofbeldi sem við verðum látlaust fyrir.
Heimildir
Embla Guðrúnar Ágústsdóttir. (2016). Óreiða og öráreitni í almennu rými: Ógn fötlunar við félagslegan stöðugleika. (BA ritgerð). Háskóli Íslands, Reykjavík.
Freyja Haraldsdóttir. (2017). ‘I am discriminated against because I exist’: Psycho-emotional effects of multiple oppressions for disabled women in Iceland (MA ritgerð). Háskóli Íslands, Reykjavík.
Galtung, J. (2007). Introduction: Peace by peaceful conflict transformation – the TRANSCEND approach. Í J. Galtung og C. Webel (ed.). Handbook of peace and conflict studies (pp. 14-34). New York: Routledge.
Steindór J. Erlingsson. (2017, 20. mars). Starfsgetumat, nýfrjálshyggja og félagslegt réttlæti. Kvennablaðið. Sótt 12. apríl 2017 af http://kvennabladid.is/2017/03/20/starfsgetumat-nyfrjalshyggja-og-felagslegt-rettlaeti/.
Sue, D. W. (2010). Microaggressions, Marginality, and Oppression. In Sue, D. W. (ed.) Microaggressions and Marginality: Manifestation, Dynamics, and Impact. (kindle location 236-660). New Jersey: John Wiley and Sons.
Þessi pistill er skrifaður í tengslum veggspjöld sem sjá má um þessar mundir í strætóskýlum og skiltum víðsvegar um Reykjavík sem hönnuð voru í samstarfi fatlaðra kvenna í Tabú, Kvennahreyfingar Öryrkjabandalagsins og Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum. Verkefnið var styrkt af velferðarráðuneytinu og Reykjavíkurborg. Markmiðið með birtingu veggspjaldanna er að vekja almenning til vitundar um fordóma gegn fötluðu fólki og hvernig þeir tengjast ofbeldi gegn fötluðu fólki og valdleysi þess.
Athugasemdir