Ummæli Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns um fórnarlömb Róberts Árna Hreiðarssonar/Roberts Downeys eru sennilega það ömurlegasta sem fram hefur komið í opinberri umræðu um kynferðisbrot um mjög langt skeið.
Jón Steinar er frægur fyrir hve lengi hann heldur uppi hörðum vörnum í níðingsmálum. Í prófessorsmálinu um aldamótin hélt hann uppi árásum á stúlkuna, sem þá bar föður sinn sökum, EFTIR að hann hafði fengið skjólstæðing sinn sýknaðan.
Og nú segir Jón Steinar:
„Ég fullyrði það að þeir sem brotið er gegn þeim myndi líða mikla betur ef þeim tækist að þróa með sér fyrirgefningu, gegn alvarlegu broti.“
Þessi fullyrðing er í besta falli - ég ítreka, í besta falli! - prýðilegt dæmi um af hverju virðist þurfa að mennta ótrúlega marga miðaldra réttarfarsmenn - lögmenn, dómara, lögreglumenn - í kynferðisbrotamálum.
Bara svo þeir skilji alvarleika þeirra brota.
Í versta falli er þetta úthugsuð og ísköld tilraun til að auka við skömm fórnarlambanna og koma sökinni yfir á þau.
Jón Steinar gerir markviss lítið úr brotum Róberts Árna/Roberts Downeys í því viðtali sem hér er vitnað til. Hann talar um að fórnarlömbin hafi ekki verið börn, heldur unglingsstúlkur, en þær voru börn í skilningi laga. Stundum hefur mér sýnst voða mikilvægt fyrir Jón Steinar að eingöngu sé talað um hlutina í skilningi laga.
Hann talar líka um að „stundum séu önnur brot miklu alvarlegri en þetta“ en raunin er sú að fyrir utan manndráp eru reyndar ekki til öllu alvarlegri brot en kynferðisbrot gagnvart börnum.
En allra verst eru sem sagt orð Jóns Steinars um fyrirgefninguna.
Nú er það svo að enginn getur skipað öðrum að fyrirgefa. Og fyrirgefning er reyndar miklu flóknara hugtak en hann vill þarna vera láta. Það er til í dæminu að fórnarlömb barnaníðinga „fyrirgefi“ þeim, bara til að geta haldið áfram lífi sínu, en slíkt upprætir aldrei glæpinn.
Og „fyrirgefning“ breytir engu um það hugarfar brotamannsins sem varð til þess að glæpurinn var framinn.
Það er ekki fórnarlambsins að bæta úr þeirri skák.
Það hlýtur að vera beinlínis ömurlegt fyrir fórnarlömb kynferðisbrotamanna og barnaníðinga að lesa þau skilaboð frá sjálfsánægðum lögfræðingi að það standi upp á ÞAU að fyrirgefa níðingnum.
Hann þarf ekkert að gera. Hann þarf ekki að sýna neina iðrun, neina yfirbót af neinu tagi - hann má alveg sækja til forseta Íslands um pappír uppá að vera orðinn fínn maður.
En fórnarlömbin, sem kveljast enn vegna glæpsins, þau skulu nú þjást aukreitis fyrir að vera svo ófullkomin og illa gerð að þau geti ekki fyrirgefið „blessuðum manninum“ sem níddist á þeim.
Ja, sveiattan!
Athugasemdir