Margt skilur okkur að sem manneskjur, en annað sameinar okkur, eins og það að vilja vera hamingjusöm. Leitin að hamingju er líklega jafngömul mannkyninu og hvort sem við fæðumst á Íslandi, Póllandi, Víetnam eða Sýrlandi þá langar okkur flest til að líða vel og eiga gott líf þar sem við getum tekið virkan þátt í samfélaginu okkar. Og það sama viljum við einnig fyrir börnin okkar.
Skilyrði fyrir hamingjuríku lífi eru góð á Íslandi og reynslan hefur sýnt okkur að við getum tekist á við mótlæti með því að standa saman. Þegar við horfum til annarra sem búa við slæm skilyrði vakna spurningar um það hvort við sem fæddumst hér eigum einkarétt á landinu og þeim góðu lífsskilyrðum sem hér er að finna. Önnur spurning sem gæti vaknað er hvort mögulegt sé að skilyrði fyrir hamingju á Íslandi versni ef við tökum á móti flóttafólki til landsins? Mig langar til að velta seinni spurningunni aðeins nánar fyrir mér með vísun í hamingjurannsóknir.
Eins og flestir vita þá komum við Íslendingar mjög vel út í samanburði við aðrar þjóðir þegar kemur að hamingjumælingum. Þegar ég kynni niðurstöður rannsókna á hamingju Íslendinga hef ég oft fundið fyrir efasemdum og þurft að svara spurningum eins og „Eru þessar niðurstöður örugglega réttar?“ „Eru Íslendingar í alvöru svona hamingjusamir eða eru þeir bara að reyna að koma vel út í svona samanburði?“ Til að geta svarað þessum spurningum er mikilvægt að skoða hvaða þættir hafa helst áhrif á hamingju og hvaða þættir skipta minna máli.
Þættir sem margir telja að hafi meiri áhrif á hamingju en þeir gera í raun og veru eru t.d. veðurfar og peningar. Veðurfar hefur lítil áhrif á hamingju til lengri tíma og sambandið milli tekna og hamingju eru ekki svo sterk. Hægt er að finna mikla hamingju hjá fátækum þjóðum og ekkert samband virðist vera milli aukningu þjóðartekna og hamingjumælinga hjá vestrænum þjóðum. Í rannsóknum á hamingju Íslendinga er sambandið milli heimilistekna og hamingju lítið sem ekki neitt og því ljóst að aðrir þættir vega þyngra.
„Þeir þættir sem hafa mest áhrif á hamingju tengjast félagslegum samskiptum og þar vega þyngst góð tengsl við fjölskyldu og vini.“
Þeir þættir sem hafa mest áhrif á hamingju tengjast félagslegum samskiptum og þar vega þyngst góð tengsl við fjölskyldu og vini. Einnig skiptir miklu máli að finna fyrir ákveðnu öryggi, geta verið maður sjálfur, hafa eitthvað að segja um eigið líf og finna tilgang með lífinu. Við Íslendingar erum lánsöm þjóð, því þrátt fyrir allt, þá eru skilyrði fyrir hamingjuríkt líf meiri hér á landi en í mörgum öðrum löndum í heiminum. Við erum friðsæl þjóð sem hefur ekki tekið beinan þátt í stríðsátökum. Hér er jafnrétti komið lengra á veg í mörgum málaflokkum en í öðrum löndum sem við berum okkur saman við og má þar nefna að staða kvenna hér á landi er með þeim betri í heiminum.
Rannsóknir sýna að það að gefa af sér og taka þátt í sjálfboðaliðastarfi eykur vellíðan og hamingju. Það að gera eitthvað sem skiptir máli og hefur tilgang, eins og það að hjálpa fólki í neyð getur gefið þeim sem gefur af sér tilgang sem svo aftur eykur vellíðan.
Rannsóknir sýna jafnframt að þegar okkur líður vel þá sjáum við frekar það sem sameinar okkur en það sem aðgreinir okkur, en þegar við erum hrædd þá einblínum við frekar á það sem aðgreinir okkur. Það gerir okkur gott að horfa á það jákvæða í lífinu, finna það sem við getum verið þakklát fyrir og það gefur okkur enn meiri gleði og lífsfyllingu að deila því með öðrum. Horfum á það sem við eigum sameiginlegt og lítum á bræður og systur okkar í neyð og skoðum hvað við getum gert til að létta undir með þeim. Munum að þau eiga sömu drauma og við, þau vilja búa sér og börnum sínum gott og öruggt líf þar sem þau geta tekið virkan þátt í samfélaginu og fá tækifæri til að upplifa hamingju. Að fá tækifæri til að aðstoða fólk í neyð getur gefið okkur mikilvægt hlutverk og með því getum við fundið fyrir dýrmætum tilgangi. Þannig þarf koma flóttamanna ekki að ógna hamingju Íslendinga heldur getur hún jafnvel aukið hana enn frekar.
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir er sálfræðingur og hamingjurannsakandi og starfar sem sviðstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis.
Athugasemdir