Í lok sumars tókum við fjölskyldan okkur til og fluttum aftur, tímabundið, til Bandaríkjanna. Þessa dagana er hér háð einkennilegasta kosningabarátta í forsetakosningum á seinni tíð. Flestir eru sammála um að það sé vegna þess hversu óhefðbundinn Donald Trump, frambjóðandi Repúblikanaflokksins, er. Sumir flokksmenn hans hafa afneitað honum, til dæmis Mitt Romney, sem var forsetaframbjóðandi sama flokks árið 2012, og að hluta til þingmaðurinn Lindsay Graham. Þessir flokksmenn sem gagnrýna Trump benda á að stefnumál hans – sem raunar eru af skornum skammti þar sem hann virðist fyrst og fremst heyja kosningabaráttu sína með innantómum slagorðum – séu vanhugsuð, byggist á staðreyndavillum, uppnefnum, persónuárásum, vanþekkingu og kynþátta- og trúarbragðafordómum.
„Hver á fætur öðrum engjast samflokksmennirnir við að reyna að verja ummæli Trumps sem spanna stórt svið fáránleikans“
Aðrir áhrifamiklir flokksmenn hafa hins vegar lýst sérstaklega yfir stuðningi við Trump, þó að sumum virðist það þvert um geð. Þar má til dæmis nefna Paul Ryan, þingmann repúblikana, sem almennt nýtur virðingar samflokksmanna sinna. Slíkir opinberir stuðningsmenn Trumps hafa ítrekað þurft að svara fyrir, reyna að verja eða túlka ótrúlegar staðreyndavillur Trumps og staðhæfingar sem eru stundum á mörkum siðlegrar stjórnmálaumræðu og stundum beinlínis hættulegar. Hver á fætur öðrum engjast samflokksmennirnir við að reyna að verja ummæli Trumps sem spanna stórt svið fáránleikans, allt frá uppnefnum á einstaklingum til þess að mæra einræðisherra og mannréttindabrjóta.
Það sem mér finnst hvað áhugaverðast við þennan farsa allan er hvað hann er afhjúpandi varðandi talsmáta, skoðanamyndun og gagnrýnisskort fólks sem fyrst og fremst telur sig vera í liði. Þessir 'liðsmenn' virðast telja það fyrst og fremst hlutverk sitt að hafa þær skoðanir sem leiðtoginn segir því að hafa og telja það skyldu sína að verja allt sem frá þessu liði þeirra og leiðtoga kemur. Sama hversu röklaust eða vitlaust það er. Trump er allt að einu frambjóðandi flokksins og þar með skal hann varinn með kjafti og klóm. Hérna í Bandaríkjunum hefur hulunni hvað augljósast verið svipt af þessu persónueinkenni fólksins sem er í liðinu út af því að það neyðist til að verja ruglaðar staðhæfingar manns eins og Trump sem hefur til dæmis sagst ætla að hefja stríð ef ónefndir Íranir myndu gefa bandarískum hermönnum fokkmerki. Nokkrum vikum fyrr hafði Trump sagt að hann útiloki ekki að nota kjarnorkuvopn, jafnvel gegn Evrópuríkjum. Hann vill líka refsa konum sem fara í fóstureyðingar og hann hóf kosningabaráttu sína með því að kalla mexíkóska innflytjendur eiturlyfjasala og nauðgara. Það er örugglega erfitt að horfa á sjálfan sig í speglinum eftir að hafa reynt að verja þvílíkt og annað eins á opinberum vettvangi. En það gerir fólkið í liðinu blygðunarlaust. Seinast á föstudagsmorgun horfði ég á stuðningskonur Trumps reyna að verja það í bandarísku morgunsjónvarpi að nóttinni á undan hafði Trump eytt í að setja færslur inn á Twitter þar sem hann kallar fyrrverandi ungfrú heim „disgusting“ og hvetur fólk til að horfa á kynlífsmyndband sem hann fullyrðir að hún hafi gert. Það er með hreinum ólíkindum að fólk með lágmarks sjálfsvirðingu, hafi geð í sér að reyna að verja slíkt í sjónvarpsviðtölum.
Eftir því sem tíminn líður þá tapar fólkið í liðinu þeim mikilvæga eiginleika hvers einstaklings að geta beitt gagnrýninni hugsun. Það tapar þeim mikilvæga eiginleika að mynda sér sjálft skoðun og geta rökstutt hana. Það verður í staðinn að málpípum sem endurtaka punktana úr tölvupóstunum sem formaður flokksins sendi út seinast um hvernig bæri að svara þessu eða hinu. Það fær svo mikla rörsýn að það leyfir sér blygðunarlaust að fara í fréttaviðtöl og gagnrýna aðila úr andstæða liðinu fyrir talsmáta eða hegðun sem þeirra eigin liðsmaður hefur sjálfur ítrekað orðið uppvís að. Það verður svo móttækilegt fyrir hvaða vitleysu sem er, svo fremi sem vitleysan komi frá þeirra eigin liði, að það getur hugsað sér að kjósa og lýsa yfir stuðningi við mann eins og Donald Trump.
Þessi liðsmannatilhneiging gagnrýnisleysis, skoðanamyndunarframsals og leiðtogadýrkunar er afskaplega augljós þessa dagana í hinum farsakenndu forsetakosningum sem nú standa yfir í Bandaríkjunum. Hins vegar er nauðsynlegt að benda á að tilhneigingin á Íslandi er sú sama. Talsmátinn á Íslandi fylgir nákvæmlega sömu lögmálum. Á Íslandi eigum við líka okkar eigin 'liðsmenn' í öllum stjórnmálaflokkum.
Inni á milli er vissulega að finna liðsmenn sem enn hafa ekki tapað eiginleikanum að mynda sér sjálfir skoðun og standa með eigin hugsjónum, jafnvel þegar þær fara gegn seinasta fjöldapósti frá flokksforystunni. Fyrir stuttu sáum við einstaka slíka liðsmenn gjalda fyrir sjálfstæðu skoðanirnar sínar í prófkjörum. Aðrir liðsmenn virðast hins vegar þekkja fá takmörk þegar kemur að gagnrýnisleysi og klappstýrukenndri hjarðhegðun: „Ræða [leiðtogans] á miðstjórnarfundinum var mögnuð – enginn núlifandi stjórnmálamaður hefur slíka heildar- og framtíðarsýn fyrir land og þjóð.“ Já, þetta er alvöru íslensk tilvitnun!
„Gagnrýnislaust samfélag þróast ekki áfram heldur tærist upp í innihaldslausu leiðtogablæti og hugsjónaskorti.“
Enn aðrir liðsmenn jafnvel viðurkenna skoðanamyndunarframsal sitt án þess að blikna, samanber tiltekinn fyrrverandi þingmaður sem virtist ekki hafa áttað sig á því að samkvæmt stjórnarskránni eru þingmenn aðeins „bundnir við sannfæringu sína“. Þingmaðurinn skipti um skoðun í tilteknu hugsjónamáli eftir að hann var kjörinn á þing. Gott og vel, slík breyting væri fullkomlega eðlileg ef hún væri gerð vegna sannfæringar hans. En þingmaðurinn útskýrði þessa stefnubreytingu sína með því að segja „maður fylgir sínu liði“. Sem sé, skoðanamyndunarframsal, eigin hugsjón fórnað á altari liðsins. Þannig að hann fyrrum þingmaðurinn um hugsjón. Þess í stað hefði mátt rökræða, reyna að stuðla að samtali um hugsjónina. En nei, gagnrýnisleysi skyldi það vera.
Ágæti lesandi. Ekki vera í liði. Vertu þú. Myndaðu þér þína eigin skoðun á þeim málefnum sem þér eru hugleikin. Stundum á sú skoðun samleið með flokknum sem þú kaust seinast. Ef ekki þá þarftu ekki nauðbeygður að skipta um skoðun. Þú mátt meira að segja halda áfram að kjósa sama flokkinn þótt þú sért í einhverjum atriðum ósammála tilteknum stefnumálum. Það er ekki bannað. En á einhverjum tímapunkti hlýtur að koma að því að þú snúir þér eitthvert annað. Sérstaklega ef valið snýr um að breyta um lið eða selja hugsjónir sínar. Það er í lagi að mæta á völlinn með fótboltatrefilinn og styðja sitt fótboltalið í gegnum þykkt og þunnt. En sömu sjónarmið gilda ekki í stjórnmálum, þar skaltu frekar skipta um lið ef stuðningurinn þinn við liðið þitt felur í sér afsal á hugsjónum þínum. Maður skiptir um skoðanir á léttvægari máta en hugsjónir og ef þú ætlar að skipta um hugsjón þá skaltu gera það á þínum eigin forsendum en ekki af því að liðið þitt segir þér að gera það.
Að sama skapi skulum við hætta að láta liðsmenn gjalda þess að þeir hafi eigin skoðanir og séu ekki alltaf sammála liðinu sínu. Hvetjum stjórnmálamenn til að rökræða sínar eigin skoðanir, ekki endilega skoðanir flokksins sem liðsmennirnir læra utan að úr fjöldapóstum leiðtogans. Hrósum þeim stjórnmálamönnum sem hafa nægan styrk til að þora að gagnrýna og andmæla liðinu sínu. Benda á það sem er rangt. Það er hins vegar mannskemmandi að fylgja leiðtoga sínum í blindri og gagnrýnislausri aðdáun. Gefa afslátt af þeim kröfum sem við gerum almennt til okkar sjálfra og samferðamanna okkar bara ef um er að ræða leiðtoga liðs okkar. Jafnvel þótt leiðtoginn hafi aldrei viðurkennt mistök (sem þá væri hægt að fyrirgefa) né beðist afsökunar. Það er eitthvað svo rangt við slíkan hugsunarhátt. Gagnrýnislaust samfélag þróast ekki áfram heldur tærist upp í innihaldslausu leiðtogablæti og hugsjónaskorti.
Einn vinur minn á Facebook talar fyrir slembivali einstaklinga til að sitja á Alþingi í 6 ár í senn. Engin kosningabarátta, engir stjórnmálaflokkar, bara handahófsval. Ég er orðin svo þreytt á að það sé ekki hægt að ræða málefni án þess að liðsheilindin fléttist inn í allar umræður að ég er svei mér þá ekkert svo fráhverf þessari hugmynd.
Athugasemdir