Í bílnum nú í morgunsárið heyrði ég samtal morgunþáttarfólks á Rás tvö við þingmennina Ásmund Friðriksson frá Sjálfstæðisflokki og Guðmund Steingrímsson frá Bjartri framtíð.
Ásmundur viðurkenndi - án þess að segja það berum orðum - að dagar Sigmundar Davíðs á stóli forsætisráðherra væru augljóslega taldir.
Nema svo fór hann - aðspurður um næstu skref - að fimbulfamba um að það væri nú samt ekki víst að það þyrfti að koma til kosninga, því „flokkarnir væru ekki tilbúnir“ og hann sagði meira að segja að það væri „ekki endilega það besta fyrir pólitíkina“ að hafa kosningar nú.
Þessi orð Ásmundar gerðu mig satt að segja reiðan.
Hvern fjárann kemur það við íslensku þjóðinni - sem hefur verið svívirt af spilltri stjórnmálastétt sinni - hvort einhverjar flokksstofnanir eru „tilbúnar“ eða ekki?
Hvaða máli skiptir það okkur hvað er „best fyrir pólitíkina“?
Guðmundur Steingrímsson má eiga að hann benti strax á þetta. Svona sjónarmið koma málinu bara ekkert við.
Ef þjóðin vill kjósa til að hreinsa út spillinguna, þá skiptir engu máli hvernig það hentar hagsmunum Ásmundar Friðrikssonar eða annarra þingmanna - hvort heldur í stjórn eða stjórnarandstöðu.
Þjóðin sjálf á að ráða þessu, en ekki fáeinir tugir stjórnmálamanna.
Athugasemdir