Fjölmiðlar í Bretlandi mega enn ekki vatni halda vegna frækinnar frammistöðu Breta á Ólympíuleikunum í Ríó. Það er full ástæða til. Burtséð frá afrekum einstakra íþróttamanna þá voru Bretar hinir stóru sigurvegarar leikanna, með 27 gull: í öðru sæti á eftir Bandaríkjamönnum en á undan Kínverjum, sem hefði verið talið óhugsandi fyrir leikana. Bretar eru þar að auki fyrsta þjóðin sem bætir árangur sinn á næstu leikum eftir að hafa haldið þá í eigin landi. Það var ekki vanþörf á að lyfta hugum Breta. Nær helmingur þjóðarinnar hefur verið í geðlægð eftir Brexit-úrslitin í sumar og hluti hinna, sem vildu út, með böggum hildar yfir því að hafa hugsanlega tekið ranga ákvörðun. Eftir hvert gullkvöldið á fætur öðru í ágúst þyrptist breskur almenningur í Kringlur og eyddi fé eins og enginn væri morgundagurinn, rétt til þess að „halda upp á árangurinn“. Verslanir og hagfræðingar gleðjast og skattar seitla í ríkiskassann.
Fjölmiðlar hafa að mestu verið sammála hér um stærsta einstaka sigurvegarann á þessum leikum úr ranni Breta – og það er hvorki Mo Farah né Andy Murray, þótt báðum sé spáð aðalstign um áramót: Sir Mo og Sir Andy. Nei, sigurvegarinn er gamli forsætisráðherrann John Major. Major hélt heimili í Downingstæti 10 í sjö ár, 1990-1997, í kjölfar langrar setu Margarétar Thatcher. Hann þótti litlaus með afbrigðum. Það lýsir best litleysinu að brúðan sem lék hann í Spitting Image þáttunum þótti sýnu atkvæðameiri en hann og segja meira af viti. Samt tókst litríkari mönnum, svo sem Michael Portillo, aldrei að ýta honum úr sessi þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Michael hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaganna og er nú vinsæll sjónvarsmaður. Ég vona að þættir hans um frægar lestarferðir séu sýndir í sjónvarpi heima á Íslandi, þó ekki sé til annars en að kynnast makalausri sundurgerð hans í fatavali. Major hefur hins vegar horfið af sjónarsviðinu að mestu. Ég var viðstaddur athöfn í Windsor-kastala fyrir tveimur árum og skyndilega settist við hlið mér maður sem ég kannaðist við andlitið á: John Major! Hann hafði ekkert breyst í nær 20 ár, rétt eins og hann hefði verið geymdur í frystikystu og þíddur upp fyrir þetta tækifæri. Síðan þá hefur hann raunar verið þíddur upp tvisvar til að tala gegn sjálfstæði Skota og gegn Brexit – og virðist nú hafa talsvert meira kapp í kinn en þegar hann var sjálfur í pólitík.
„Hann hafði ekkert breyst í nær 20 ár, rétt eins og hann hefði verið geymdur í frystikystu og þíddur upp fyrir þetta tækifæri.“
Hvað um það: Eftir Ólympíuleikana í Atlanta 1996, þegar Major var forsætisráðherra og Bretar unnu bara ein gullverðlaun, fylltist leiðtoginn skömmustukennd og ákvað að við svo búið mætti ekki standa. Hann stofnaði því til lottósins fræga og ákvað að drjúgum hluta ágóðans skyldi varið til íþróttamála, ekki síst til styrktar afreksfólki. Skemmst er frá því að segja að til undirbúnings Breta fyrir leikana í Ríó var varið 35 sinnum meira fé en fyrir leikana í Atlanta. Þetta þýddi 27 sinnum fleiri gullpeninga. Tilraun Majors hafði borið ávöxt og hann er nú skyndilega eftirlæti allra hér. Hver er lærdómurinn? Líklega sá að enginn veit sína ævina fyrr en öll er, einnig stjórnmálamenn, og að gamla kenningin um að sérhver stjórnmálaferill endi í ósigri er ekki endilega rétt.
Aðrar Evrópuþjóðir, einkum erkifjendur Breta, Frakkar (sem Bretar kalla „froskana“), hafa brugðist ókvæða við þessu gullsáldri og gefa í skyn að brögð hafi verið í tafli. Á hvaða pillum eru þeir bresku? Sjúkraþjálfarinn sem heldur bakinu í mér gangandi – og vinnur í íþróttafræðideildinni í Birmingham-háskóla – fullyrðir að engir skítugir fiskar séu undir steini. Bretar hafi einfaldlega það forskot að miklu meira fé sé varið til afreksíþrótta en í Frakklandi og allt kapp lagt á að „toppa“ á réttum tíma, þ.e. á Ólympíuleiknum sjálfum á fjögurra ári fresti, á meðan Frakkar og aðrar þjóðir eyði orku í „smáviðburði“ svo sem heimsmeistara- og Evrópumót. Framtíðarsýn Majors er sem sagt enn að verki. Frakkar svara þessu á þann hátt að Bretar séu aðallega góðir í íþróttagreinum eins og hjólreiðum og róðri þar sem þeir geti setið á rassinum – enda hafi þeir bosmameiri bakhluta en Frakkar.
Ég trúi sjúkraþjálfaranum mínum, en ég meiri efasemdir um aðra kenningu hans. Hún er sú að þessi ótrúlegi árangur muni hvetja ungt fólk í Bretlandi til dáða á sviði almenningsíþrótta og fólk muni almennt hreyfa sig mun meira en áður. Ekki væri vanþörf á. Hinn fullorðni meðal-Breti hreyfir sig almennt í tæplega hálftíma á dag, og þá er innifalið labb í og úr vinnu. Offita meðal barna og unglinga er verra vandamál en í flestum öðrum löndum. Sjúkraþjálfaranum verður tíðrætt um gildi góðra fyrirmynda. Ég hef hins vegar bent honum á að hafa hemil á bjartsýni sinni því að ég þekki rannsóknir frá öðru skyldu sviði, siðferðilegu uppeldi, sem sýna að fyrirmynda-fræðsla („role-modelling“) skilar oft litlum árangri.
Hver skyldi vera ástæðan fyrir því? Allt frá Aristótelesi hefur þráin til að líkjast góðum fyrirmyndum verið talin ein besta hvöt ungs fólks til árangurs. Aristóteles kallaði þessa hvöt zelos og jafnaði til dygðar; gamli rektorinn minn við Háskólann á Akureyri, Haraldur Bessason, þýddi þetta sem „sporgönguþrá“. Það eru hins vegar tvö stór vandamál við sporgönguþrána sem rannsóknir hafa leitt í ljós. Hið fyrra er hættan á hetjudýrkun. Ungt fólk dýrkar og dáir hetjur en það þýðir ekki að það reyni endilega að ganga í spor þeirra. Hið síðara er hvatarhömlun („motivational inertia“): því fjarlægari sem afrek hetjunnar eru getustigi ungmennisins, þeim mun meiri líkur eru á að ungmennið beinlínist forðist að reyna að líkja eftir afrekum hennar, af ótta við að mistakast. Samkvæmt þessum niðurstöðum eru meiri líkur á að Eddie the Eagle hvetji bresk börn til íþróttaiðkunar en Mo Farah.
Það er önnur ástæða til að halda bjarsýninni í skefjum. Hafi íslenskir sjónvarpsáhorfendur heyrt viðtöl við breska afreksfólkið hafa þeir tekið eftir því að flestir þeirra tala með fáguðum hreim. Ólíkt fótboltamönnum, sem venjulega koma úr lágstétt, eru Ólympíuhetjur Breta að stórum hluta til úr efri millistétt – og hafa gengið í einkaskóla. Félagslegur hreyfanleiki í Bretlandi er minni en í flestum öðrum samfélögum, m.a. vegna þess að margir foreldrar beinlínis letja börn sín til stéttarstökks upp á við, jafnvel þótt þau hafi forsendur til þess, af ótta við að missa tengslin við þau og hina nýju „menningu“ þeirra. Þetta er sorglegt ástand sem m.a. greinir Breta skarpt frá efnahagslega vanþróaðri samfélögum, ekki síst í Asíu. Það eru ekki miklar líkur á að lágstéttarbarn í bæjarblokk í London feti í fótspor Andy Murrays, jafnvel þótt það sé liðugt með tennisspaðann. En skortur á félagslegum hreyfanleika í bresku samfélagi er svo stórt vandamál að það er efni í annan og lengi pistil. Þessi átti bara að vera um Ólympíuleikana og arfleifð John Majors.
Athugasemdir