Við Íslendingar notum orðið góðæri nokkuð mikið, líklega of mikið. Enda er það þannig að þegar ein atvinnugrein upplifir góðæri getur verið harðæri hjá annarri. Sama gildir um fyrirtæki, stofnanir, landshluta og heimili. Eins og í veðri þá er góðæri og harðæri í efnahagsmálum oft á tíðum misskipt. Þegar góðæri er að hefjast á einum stað þá er því að ljúka á öðrum.
Hér skulum við ganga út frá því að góðæri samsvari auknum umsvifum og afkomu yfir meðallagi. Í þeim skilningi geta fáir mælt á móti því að síðustu ár hefur verið góðæri í ferðaþjónustu og sjávarútvegi. Það hefur fætt af sér góðæri hjá fyrirtækjum, sveitarfélögum og heimilum víða um land sem byggja afkomu sína á þessum greinum. Í kjölfarið jukust gjaldeyristekjur þjóðarbúsins stórlega. Síðan hefur átt sér stað skuldalækkun heimila og fyrirtækja, staða ríkissjóðs hefur batnað, eignaverð hækkað, atvinnuleysi minnkað og loks nú sjáum við nýfjárfestingar í öðrum atvinnugreinum eiga sér stað og krónuna vera að styrkjast. Sjálfsagt er það fyrst núna, í kjölfar verulegrar kaupmáttaraukningar, sem mörg heimili eru að upplifa að góðæri sé að ganga í garð. Á móti kunna útflutningsfyrirtæki að óttast þessa þróun enda leiðir sterkari króna, aukinn innlendur kostnaður og verðbólga til þess að tekjur í krónum minnka og afkoma versnar.
„Sjálfsagt er það fyrst núna, í kjölfar verulegrar kaupmáttaraukningar, sem mörg heimili eru að upplifa að góðæri sé að ganga í garð.“
Enn sem komið er byggir góðæristilfinningin nú á öðrum grunni en á árinu 2007. Þá byggðist góðærið ekki á góðri afkomu útflutningsgreina, gjaldeyrissköpun og skuldalækkun heldur á innstreymi lánsfjár, skuldaaukningu, einkaneyslu og fjárfestingu út á krít. Það góðæri fór fyrir lítið um leið og skrúfaðist fyrir ódýrt lánsfjármagn.
Við erum á ólíkum slóðum í dag. Flestar síðustu hagtölur gefa til kynna að skuldastaða heimila og fyrirtækja sé að meðaltali á ágætum stað. Þannig hagvöxt og góðæri viljum við einmitt sjá. Góðæri sem byggist á heilbrigðu samhengi lánsfjár og eigin fjár viljum við viðhalda. Það krefst þess að almenningur, fyrirtæki, fjárfestar og stjórnvöld sýni þolinmæði og tímasetji fjárfestingar, launakröfur og arðgreiðslur þannig að við höldum þessu í jafnvægi.
Ég á ekki von á að næsta harðæri eigi uppruna í skuldsettu bankakerfi. Það gæti hins vegar gerst þannig að smám saman étur einkaneysla, innflutningur og sterkari króna upp viðskiptaafgang við útlönd. Það kallar svo á veikari krónu, sem aftur leiðir af sér verðbólguskot, vaxtahækkanir, hækkun verðtryggðra skulda og atvinnuleysi. Efnahagssamdráttur af þeim toga væri mjög hefðbundinn á íslenskan mælikvarða og eins og alltaf munum við segja við okkur sjálf í honum miðjum: „Ætlum við aldrei að læra“.
Pistill Stefáns Brodda Guðjónssonar er innlegg í umfjöllun um nýja góðærið sem birtist í októberblaði Stundarinnar.
Athugasemdir