Í kvöldhúminu hjólar churros-salinn niður götuna okkar. Hann flautar með annarri hendi, öðru hvoru ber hann gjallarhornið að vörunum með hinni: Churros! Churros! Synir mínir sperra eyrun, líta löngunarfullum augum niður af litlu svölunum okkar hér við Calle de Pinos, Furugötu. Hundarnir á þaki nágrannans lyfta höfði, velta sér á hina hliðina. Félagi þeirra á húsþaki við Sedrusviðargötu svarar hrópum götusalans með hásu gelti. Skógi vaxið fjallið stendur vörð um borgina eins og vanalega; óhagganlegt, ævafornt, vingjarnlegt.
Við erum stödd í Oaxacaborg í samnefndu fylki í syðsta hluta Mexíkó, handan fylkisins Chiapas eru landamærin að Guatemala. Oaxaca er fimmta stærsta fylki landsins, um 93 þúsund ferkílómetrar, með ríka sögu og menningararfleifð. Rétt utan borgarinnar má finna Monte Albán rústirnar, þar sem höfuðborg Zapotec menningarinnar blómstraði í um þúsund ár, frá 500 fyrir Krist. Oaxaca er líka vagga matarmenningar í Mexíkó, víðfræg fyrir ljúffengu mole sósurnar sínar sjö, fyrir gnægt hráefnis, …
Athugasemdir