Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Ljóð Þórdísar Elvu veitir konum kraft til að greina frá ofbeldi

Birt­ir enska þýð­ingu ljóðs­ins Fjall­kon­unn­ar eft­ir fjöl­marg­ar áskor­an­ir. Inni­hald ljóðs­ins vald­efl­andi fyr­ir kon­ur sem hafa nýtt sér það til að rjúfa þögn­ina.

Fjallkonan á ensku Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hefur birt enska útgáfu af ljóði sínu Fjallkonan og hafa viðbrögðin þegar verið veruleg.

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, rithöfundur og baráttukona, hefur birt enska þýðingu á ljóði sínu Fjallkonunni á netinu. Þegar Stundin birti myndbandsupptöku þar sem Þórdís flutti ljóðið á Kvennafrídeginum, 24. október, á síðasta ári vakti það gríðarlega athygli og mikla dreifingu. Þúsundir manns sáu Þórdísi flytja ljóðið og sóttu kraft og innblástur í það.

„Ég gerði ljóðið á sínum tíma fyrir Stundina,“ segir Þórdís Elva. „Ég hafði lofað að skila af mér pistli en var orðin allt of sein með hann og fékk frest til hádegis. Svo var klukkan orðin hálf eitt og ég var ekki byrjuð og alveg að panika. Þetta var skömmu fyrir Kvennafrídaginn 24. október sem mér þykir mjög vænt um. Mér fannst svona myndbandspistlar vera eitthvað svo spennandi form þannig að ég ákvað að setja saman þetta ljóð og taka það upp. Það var reyndar meira en að segja það, ég átti engan þrífót svo ég var að reyna að raða upp bókum til að styðja við við símann á skrifborðinu en það gekk nú ekki vel. Ég þurfti á endanum að ýta skrifborðinu frá veggnum, skríða undir það og húka á bakvið það öll í keng til að upptakan virkaði.“

Þórdís segir að þegar hún hafa loks fundið taktinn hafi ljóðið komið frekar hratt til hennar. Hún vill meina að krafturinn sem hafi verið í loftinu í aðdraganda kvennafrídagsins hafi þar haft mikið að segja. „Ég reyna að missa aldrei af þessum degi en þarna var ég föst hér úti í Svíþjóð. Söknuðurinn eftir systralaginu og að líta yfir farinn veg, að sjá hvað við eigum margar magnaðar kvenhetjur í íslenskri sögu en að sama skapi hvað það er margt óunnið, allt þetta held ég að hafi valdið því að Fjallkonan kom mjög hratt til mín.“

#égergosið

Sem fyrr segir vakti ljóðið og kröftugur flutningur Þórdísar Elvu mikla athygli og hóf í raun sjálfstætt líf, ef svo má segja. „Þetta hefði aldrei vaxið svona í mínum meðförum einum. Því var tekið ótrúlega vel af ótrúlega mörgum konum, og karlmönnum svo sem líka. Það snart mig líka að mismunandi konur tóku mismunandi hluti út úr ljóðinu til að styrkja sig og valdefla. Síðasta setningin, Ég er gosið, hún öðlaðist svo alveg sitt eigið líf og áður en ég vissi af var hún orðin af myllumerki. Svo varð ég var við að konur voru að nota þetta myllumerki til að rjúfa þögnina og segja frá ofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir, jafnvel í fyrsta sinn.“

Þórdís segir að allskonar afleiður hafi orðið til af ljóðinu, sem hafi glatt hana verulega. Þannig hafi kvennakór búið til kórverk úr því, það hafi verið flutt sem rokkgjörningur og sem myndlistarverk og hún viti að unnið hafi verið með það í íslenskukennslu í framhaldsskóla. Hún sé afskaplega stolt af því. Hún hafi þá látið gera hálsmen með tilvitnun í ljóðið, í loka línu þess: Ég er gosið. Vinsældir hálsmensins eru slíkar að þriðja upplag þess sé að klárast. Allur hagnaður af sölu þeirra fer í að styrkja aktívista sem séu að gera magnaða hluti.

Hallgerður Langbrók varð að Jóhönnu af Örk

Þórdís Elva þýddi Fjallkonuna sjálf á ensku, eftir að hafa fengið fjölmargar áskoranir þar um. „Það sem var kannski mesta áskorunina, en líka skemmtilegast, við þýðinguna var að finna alþjóðlegar hliðstæður við íslensku kvenhetjurnar. Í staðinn fyrir að vitna í Hallgerði Langbrók þá vitna í Jóhönnu af Örk og svo framvegis.“

„Ég verð eiginlega bara orðlaus og hrærð yfir þessu“

Þórdís Elva birti ljóðið fyrst á Instagram reikningi sínum og síðan einnig á Facebook 10. desember síðastliðinn, á alþjóðlegum degi mannréttinda. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa en mörg hundruð manns hafa deilt ljóðinu og enn fleiri líkað við það. Þá steig í það minnsta ein kona fram í athugasemdakerfi og lýsti því hún hefði verið í ofbeldissambandi.

„Það var strax byrjað að nota myllumerkið #iamtheeruption. Þetta er í annað skipti sem ég verð vitni að því að konur fái þannig styrk, þær valdeflist þannig, við lestur á ljóðinu að þær fái kraft til að greina frá því að þær hafi verið beittar ofbeldi. Ég varð líka vitni að því eftir að ljóðið birtist fyrst á íslensku. Ég verð eiginlega bara orðlaus og hrærð yfir þessu.“

Hér fyrir neðan má sjá flutning Þórdísar Elvu á Fjallkonunni í íslenskri útgáfu. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár