Almanna- og réttaröryggi, örorka og málefni fatlaðs fólks, fjölskyldumál, fjölmiðlun og vinnumarkaðs- og atvinnuleysismál. Þetta eru málaflokkarnir þar sem aukning útgjalda verður hlutfallslega mest milli áranna 2018 og 2019 samkvæmt nýkynntu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.
Hlutfallsleg aukning er mest til málefnasviðsins vinnumarkaður og atvinnuleysi þar sem útgjöldin aukast úr 19,2 milljörðum í 24,1 milljarð, alls um 4 milljarða að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum. Tvær meginskýringar eru á þessu; annars vegar 2,3 milljarða hækkun bóta Atvinnuleysistryggingasjóðs og hins vegar spá Hagstofunnar um aukið atvinnuleysi árið 2019, hækkun úr 2,9 prósentum í 3,3 prósent.
Í krónutölum er það sjúkrahúsþjónusta, stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs á eftir vaxtagjöldum, sem á vinninginn. Útgjöld til málaflokksins aukast um tæpa 10 milljarða samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs. Alls nemur hækkun framlaga til heilbrigðismála 12,6 milljörðum króna að frátöldum launa- og verðlagshækkunum.
Hér má sjá yfirlit sem Stundin tók saman yfir þær breytingar sem verða á útgjöldum málefnasviða A-hluta ríkisins milli 2018 og 2019:
Útgjöld til sex málefnasviða dragast saman. Þetta eru Alþingi og eftirlitsstofnanir þess, hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál, nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar, réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála, sjávarútvegur og fiskeldi og málefnasvið sem tekur til stjórnsýslu menntamála og annarra skólastiga en framhaldsskóla og háskóla. Þá lækkar vaxtabyrði ríkissjóðs umtalsvert vegna niðurgreiðslu skulda.
7,2 milljörðum verður varið til framkvæmda við nýjan Landspítala árið 2019 en jafnframt aukast framlög vegna byggingar og rekstrar hjúkrunarheimila.
Aukið er við framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála en þar nemur heildarhækkunin 13,3 ma.kr. að frátöldum launa- og verðlagshækkunum. Stuðningur vegna húsnæðis eykst um ríflega 900 miljónir króna og mun nema 25,4 milljörðum árið 2019.
Gert er ráð fyrir 5,5 milljarða króna aukningu til samgöngumála sem skýrist fyrst og fremst af sérstöku átaki í samgöngumálum á árunum 2019-2021 sem fjármagnað verður með tímabundnum umframarðgreiðslum fjármálafyrirtækja líkt og Sjálfstæðisflokkurinn setti á oddinn fyrir síðustu þingkosningar og boðað var í fjármálaáætlun og stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Framlög til samgöngu- og fjarskiptamála verða aukin um 9% á árinu 2019 og verða ríflega 43,6 milljarðar króna. Meðal annarra stórra fjárfestingarverkefna eru fyrstu framlög til kaupa á nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna sem gert er ráð fyrir að verði afhentar árið 2022, auk uppbyggingar Húss íslenskunnar.
Athugasemdir