Katrín Jakobsdóttir verður forsætisráðherra í breiðri stjórn íhaldssömustu stjórnmálaflokkanna á Alþingi, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þá verður Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Með ríkisstjórninni vonast flokkarnir til þess að skapa aukna sátt og breyta vinnubrögðum í stjórnmálum. Leiðin til þess verður að auka áhersluna á vægi löggjafarvaldsins, Alþingis, umfram framkvæmdavaldið, ríkisstjórnina.
„Það verður aldrei þverpólitísk samstaða um öll mál,“ sagði Katrín. „En við getum gert betur í því.“
Utanþingsráðherra í umhverfismálin
Vinstri grænir fá heilbrigðisráðuneytið og vill Katrín „móta skýra heilbrigðisstefnu“ um hvernig fjármunum verði forgangsraðað. Svandís Svavarsdóttir þingmaður verður heilbrigðisráðherra.
Þá fær VG umhverfisráðuneytið og verður lögð áhersla á loftslagsmál og gengið lengra en í markmiðum Íslands hingað til, með kolefnishlutleysi.
Athygli vekur að Katrín valdi fyrrverandi framkvæmdastjóra Landverndar sem umhverfisráðherra, Guðmund Inga Guðbrandsson, en hann er líffræðingur og umhverfisfræðingur sem starfað hefur að umhverfismálum á fjölbreytilegan hátt.
Stofnun miðhálendisþjóðgarðs er eitt af því sem Katrín tiltekur sem jákvætt skref, sem og aðgerðir í kynferðisbrotamálum.
Hún sagðist vilja „skapa sem breiðasta samstöðu um ýmis mál sem hafa verið deilumál í íslensku samfélagi“. Þannig verði Alþingi eflt og hlutverk þess aukið með því að „styðja við Alþingi fjárhagslega og taka sér rými sem því ber í ýmsum verkefnum“.

Bjarni biðlar til aðila vinnumarkaðarins
Bjarni Benediktsson leggur áherslu á samstarf við aðila á vinnumarkaðnum. Náist það ekki sé erfitt að ná fram markmiðum. „Leysum úr læðingi mikinn kraft fyrir landsmenn alla.“
„Tímamót varðandi það hvernig horft er til Alþingis,“ sagði Bjarni, og kvaðst hafa talað fyrir því í gegnum árin að Alþingi þyrfti að efla. „Mikilvægt að við reynum að breyta vinnubrögðum,“ sagði Katrín.
Sjálfstæðisflokkurinn verður með fjármálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið, sjávarútvegsráðuneytið og dómsmálaráðuneytið, ásamt ráðuneyti iðnaðar-, nýsköpunar- og ferðamála.
Fram hefur komið að Jón Gunnarsson, fráfarandi samgönguráðherra, vék af þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins áður en honum lauk. Hann verður ekki áfram ráðherra.
Sigríður Andersen verður áfram dómsmálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðar- og ferðamálaráðherra, en Kristján Þór Júlíusson kemur í sjávarútvegsráðuneytið.
Menntamál, samgöngumál og félagsmálaráðuneytið fara til Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson verður samgönguráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra.
Willum Þór Þórsson verður formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Tveir í VG andvígir
Tveir þingmenn Vinstri grænna, Andrés Ingi Jónsson, og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, greiddu atkvæði gegn stjórnarmyndun á flokksráðsfundi Vinstri grænna. Andrés Ingi gagnrýndi að Vinstri grænir hefðu ekki náð að hafa næg áhrif á stjórnarsáttmálann.
Hann taldi upp að nokkur atriði, sem talin væru Vinstri grænum til tekna í stjórnarsáttmálanum, sem væru hins vegar úr stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar: „Örugg og góð heilbrigðisþjónusta, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu - með minni greiðsluþátttöku. Vernd miðhálendisins. Öflugri viðbrögð við kynferðisbrotamálum. Skilgreina stafrænt kynferðisofbeldi í lögum. Taka á móti fleiri flóttamönnum.“
Andrés Ingi kvað erfitt að treysta því að slíkri stefnu yrði fylgt nú. „Af hverju eiga þau að vera trúverðugari í dag en þau voru fyrir tæpu ári?“
Athugasemdir