Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fundar nú með þingflokki Sjálfstæðisflokksins í Valhöll, en ljóst er að líf fyrstu ríkisstjórnar hans er á enda.
Björt framtíð tilkynnti um slit á stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn í gærkvöldi.
Ástæðan sem Björt framtíð gefur er trúnaðarbrestur í máli Hjalta Sigurjóns Haukssonar, manns sem dæmdur var árið 2004 fyrir að brjóta gegn stjúpdóttur sinni nær daglega í tólf ár. Faðir forsætisráðherra veitti Hjalta meðmæli þegar hann sótti um og fékk uppreist æru, en því var haldið leyndu fyrir almenningi, Alþingi og samstarfsflokkum sjálfstæðismanna í ríkisstjórn. Virðreisn hefur kallað eftir því að boðað verði sem fyrst til kosninga, en Benedikt Jóhannesson formaður flokksins hafnar því hins vegar að trúnaðarbrestur hafi orðið.
„Það er margt sem mig langar til að tala um, það eru þessi tíðindi vikunnar og sú staða sem síðan myndast í kjölfarið,“ sagði Bjarni við fjölmiðla áður en hann gekk inn í Valhöll á fund þingflokksins áðan. Hann hyggst veita viðtöl síðar í dag.
„Það er margt sem mig langar að tala um“
Fram kom í viðtali RÚV og Stöðvar 2 við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra að hann ætti ekki von á því að breyting yrði á stuðningi við Bjarna Benediktsson sem formann Sjálfstæðisflokksins.
„Það er mjög skiljanlegt að fólki sé brugðið og fyllist óhugnaði í tengslum við þessi mál,“ sagði Guðlaugur. „Bjarni hefur haft stuðning Sjálfstæðismanna og ég ekki von á því að það verði einhvern breyting á því.
Hjalti Sigurjón Hauksson var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi árið 2004 fyrir að hafa brotið gegn stjúpdóttur sinni nær daglega í tólf ár. Stundin greindi frá því þann 25. ágúst síðastliðinn að Hjalti hefði fengið uppreist æru, og í gær var staðfest að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, væri einn þeirra sem veitt hefðu Hjalta meðmæli vegna umsóknar hans.
Dómsmálaráðuneytið og þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa beitt sér af mikilli hörku fyrir því að leynd ríki um nöfn umsækjenda um uppreist æru, meðmælenda þeirra og málsmeðferð dómsmálaráðuneytisins.
Þetta var gert undir þeim formerkjum að um viðkvæmar persónuupplýsingar væri að ræða sem ættu lögum samkvæmt að fara leynt. Engu að síður viðurkenndi dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, í gærkvöldi að hafa greint Bjarna Benediktssyni frá því í sumar að faðir hans hefði veitt Hjalta Sigurjóni meðmæli. Svo virðist sem þetta hafi verið dropinn sem fyllti mælinn hjá Bjartri framtíð.
Athugasemdir