Sundrung hægri manna þegar fylgið mælist mest

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn glím­ir við til­vist­ar­kreppu þar sem Mið­flokk­ur­inn krafs­ar í þjóð­ern­is­sinn­aða kjós­end­ur hans en Við­reisn í þá al­þjóða­sinn­uðu. Bók­un 35, út­lend­inga­mál og að­ild að Evr­ópu­sam­band­inu eru með­al þess sem grein­ir þá að. Heim­ild­in ræddi við kjörna full­trúa flokk­anna þriggja um átakalín­urn­ar, þró­un fylgis­ins og hvort flöt­ur sé á sam­starfi í hægri stjórn í fram­tíð­inni.

Á Íslandi var lengi vel aðeins einn flokkur sem taldist hægra megin við miðju stjórnmálanna en undanfarin kjörtímabil hafa þeir verið þrír.

Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur verið ráðandi stjórnmálaafl alla lýðveldissöguna og gott betur, hefur setið í öllum ríkisstjórnum frá 1991 ef frá eru talin ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur og Kristrúnar Frostadóttur. Lengi vel mátti hann ganga að því nánast sem vísu að fá vel yfir 30 prósent stuðning en fékk sína verstu útreið í kosningunum sem óvænt var boðað til í lok árs í fyrra og fór í fyrsta sinn undir 20 prósent fylgi.

Nú mælist hann þriðji stærsti flokkur landsins. Nýir flokkar þrengja að gamla valdaflokknum úr tveimur áttum – annar fær stuðning alþjóðasinnaðra og frjálslyndra en hinn þeirra þjóðernissinnuðu.

„Ég mundi segja að það séu þrír hægri flokkar á Íslandi; Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Viðreisn líka,“ segir Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. „Viðreisn er hægri flokkur á hinum efnahagspólitíska ás, á meðan Miðflokkurinn er hægri flokkur á hinum menningarpólitíska ás.“

„Sjálfstæðisflokkurinn var víðfeðm kirkja sem allir þessir söfnuðir gátu tilheyrt“

Hann segir Sjálfstæðisflokkinn eitt sinn hafa brúað allan hægri vænginn. „Innan hans voru í það minnsta þrjú megin stjórnmálaöfl, það er að segja hófsamur, frjálslyndur, markaðssinnaður, kristilegur flokkur, síðan þjóðernisíhald og loks frjálshyggjuvíddin, sem einu sinni var sterk en hefur dofnað mikið að undanförnu. Sjálfstæðisflokkurinn var víðfeðm kirkja sem allir þessir söfnuðir gátu tilheyrt,“ segir Eiríkur Bergmann.

Síðan hafi það gerst að Viðreisn var stofnuð árið 2016 sem klofningur frjálslyndra og alþjóðasinnaðra úr Sjálfstæðisflokknum. „En svo verður líka til annar flokkur íhaldsmegin, þjóðernismegin, við Sjálfstæðisflokkinn, sem er Miðflokkurinn. Hann er auðvitað klofningsframboð út úr Framsóknarflokknum, en ekki Sjálfstæðisflokknum, en er engu að síður staðsettur þarna megin,“ segir Eiríkur Bergmann.

Miðflokkurinn var stofnaður af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni eftir að hann laut í lægra haldi í formannskjöri Framsóknarflokksins og yfirgaf flokkinn. Telja viðmælendur Heimildarinnar Miðflokkinn – þrátt fyrir nafn sitt – teljast til hægri flokka.

Eiríkur Bergmann EinarssonPrófessor í stjórnmálafræði segir Ísland hafa lengi vel rekið strangari innflytjendastefnu en nágrannalöndin.

„Þetta gerir það að verkum að Sjálfstæðisflokkurinn missir fylgi í báðar áttir og stundum er eins og flokkurinn viti ekki í hvorn fótinn hann eigi að stíga,“ segir Eiríkur Bergmann. „Hann klemmist á milli þessara tveggja nýrri flokka sem eru að klípa af honum fylgi hvort sínum megin megin.“

Flokkarnir þrír mælast samanlagt með tæplega 49 prósenta fylgi en fengu 47,3 prósent í kosningunum í fyrra. Þá áttu þeir möguleika á að mynda hægristjórn saman með minnsta mögulega meirihluta. En Viðreisn kaus að líta til vinstri og sæta færi á að vinna með öðrum Evrópusinnuðum flokki, Samfylkingunni.

Miðflokkurinn skaust upp fyrir bæði Sjálfstæðisflokk og Viðreisn í nýjustu könnun Maskínu og mælist nú næststærsti flokkur landsins á eftir Samfylkingunni. Dýfa Sjálfstæðisflokksins að undanförnu virðist helst vera Miðflokknum í vil, sem sést á því hvernig fylgi flokkanna hreyfist sundur og saman eftir könnunum.

Í nýjustu könnun Gallup mældist svo Miðflokkurinn mældist með 19,5 prósent fylgi, Sjálfstæðisflokkurinn með 16,5 prósent og Viðreisn með 12,8 prósent.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár