Mitt í hörmungunum situr lítill drengur og brosir

Nýr kafli er að hefjast í árás­un­um gegn Palestínu­mönn­um á Gasa, en Ísra­els­menn hafa boð­að hert­ar hern­að­ar­að­gerð­ir.

Mitt í hörmungunum situr lítill drengur og brosir

Í rústum Abu Hamisa-skólans situr palestínskur drengur í leit að gleði. Þrátt fyrir hörmungarnar sem dynja á má sjá drenginn brosa. 

Skólinn var rekinn með stuðningi Hjálparstofnunar Sameinuðu þjóðanna í al-Buraij-flóttamannabúðunum á Gasa. Palestínumenn höfðu leitað skjóls í skólanum en eftir mannskæða árás Ísraelshers reyndu eftirlifendur að bjarga öllu nothæfu úr skólabyggingunni. 

Í síðustu viku tilkynntu Ísraelar um hertar hernaðaraðgerðir gegn Gasa, með það að marki að leggja landsvæðið undir sig og flytja Palestínumenn á brott. Fjármálaráðherra Ísraels sagði stigmögnun átakanna gjöreyða byggð á Gasa-ströndinni. Tugþúsunda varalið var kallað út til þess að fylgja fyrirætlunum Ísraela eftir. 

Rúmlega tvær milljónir manna búa á Gasa og voru þeir hvattir til að flytja sig suður, en þar er lítið að sækja eftir langvarandi stríðsátök. Ekki liggur heldur fyrir hvernig fólk á að komast þangað. Auk þess sem lokað hefur verið fyrir flutninga á neyðargögnum til Palestínu undanfarna tvo mánuði, með þeim afleiðingum að matarbirgðir eru á þrotum, fjöldi fólks þjáist af hungri og vannæringu. Þúsundir barna eru alvarlega vannærð og illa ferðafær. Ísraelar hafa verið gagnrýndir fyrir brot á mannréttindum. Utanríkisráðherra Íslands, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, segir Ísraelsmenn „mölbrjóta alþjóðalögin“. 

Utanríkisráðherrar Íslands, Írlands, Lúxemborgar, Noregs, Slóveníu og Spánar hafa sent frá sér yfirlýsingu til að lýsa þungum áhyggjum af áformum Ísraela um að auka hernaðaraðgerðir á Gasa og  koma á langvarandi viðveru Ísraela á svæðinu. Með því væri verið að stigmagna ástandið og stofna líkum á tveggja ríkja lausn í hættu. „Frekari stigmögnun hersins á Gasa mun aðeins auka enn hörmulegt ástand fyrir almenna palestínska íbúa og ógna lífi gíslanna sem eru enn í haldi.“ Skoruðu ráðherrarnir á Ísraela að fylgja mannúðarreglum og aflétta banni á flutningi neyðaraðstoðar til Gasa, sýna stillingu og hefja aftur vopnahlé. 

Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, er sagður byggja á hugmyndum forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, um að hvetja Palestínumenn til að fara sjálfviljugir frá Gasa. Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda, segir að nú sé nýr og alvarlegri kafli hafinn: „Ríkisstjórn Ísraela ætlar að auka veru sína á Gasa og binda enda á það líf sem er þar núna,“ sagði hann í Kastljósi í liðinni viku.

Harka eigi eftir að færast í stríðsátökin og mannfall aukast til muna. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár