Starfshópur um hagræðingu í ríkisrekstri skilaði í vikunni sextíu tillögum til ríkisstjórnarinnar. Þær voru unnar upp úr næstum fjögur þúsund umsögnum frá almenningi og erindum frá forstöðumönnum ríkisstofnana og ráðuneyta.
Uppsafnað hagræði þeirra tillagna sem hafa verið metnar er rúmlega 71 milljarður króna árin 2026–2030. Þó eru margar tillögur sem ekki hafa verið kostnaðarmetnar og því talinn möguleiki á enn frekari hagræðingu en þessi tala segir til um.
Tillögurnar spanna allt frá því að hætta prentun þingskjala Alþingis – áætlaður sparnaður er 100 milljónir króna – upp í það að stofna eitt sýslumannsembætti sem gæti sameinast Þjóðskrá og Útlendingastofnun.
Hópurinn stingur upp á sameiningu ýmissa stofnana svo sem lögregluembætta, héraðsdómstóla, haftengdra stofnana og opinberra háskóla. Þá eru lagðar til talsverðar breytingar á fyrirkomulagi Hæstaréttar. Til dæmis því að fækka dómurum við réttinn úr sjö niður í fimm og að leggja niður sérkjör þeirra við starfslok. En ákvæði í stjórnarskrá hefur það í för með sér að hæstaréttardómarar njóta fullra launa út ævina við starfslok.
Stungið upp á sölu RÚV og banka
Ljóst er af þeim tillögum sem gerðar voru opinberar í samráðsgáttinni að margir landsmenn höfðu svipaðar hugmyndir um mögulegar hagræðingar í ríkisrekstrinum. Til dæmis stakk mikill fjöldi manns upp á því að fækka pólitísku aðstoðarfólki, því að hætta við Borgarlínuverkefnið, skera niður listamannalaun og selja fyrirtæki í eigu ríkisins. Voru RÚV, ÁTVR og hlutur ríkisins í Íslandsbanka meðal annars nefnd í því samhengi.
Á fjölmiðlafundinum þar sem tillögurnar voru kynntar tók Björn Ingi Victorsson, formaður hagræðingarhópsins, til máls og útskýrði að engar tillögur hópsins snerust um tilfærslukerfin eða hápólitísk verkefni. „Fjöldi tillagna sneri að pólitískum úrlausnarefnum. Sem eru úrlausnarefni þessa fólks hérna en ekki okkar,“ sagði Björn Ingi og benti á forsætisráðherra og fjármálaráðherra. „Þess vegna eru til dæmis ekki teknar margar róttækar breytingar á ÁTVR og RÚV.“
Þá nefndi hann að fjöldinn allur af tillögum hefðu borist frá almenningi um að hætta með ráðherrabíla, fækka pólitískum aðstoðarmönnum, sendiráðum og ferðum erlendis. „Þetta var allt skoðað í hópnum og að sjálfsögðu tekið til greina en hópurinn setur ekki fram tillögu um þessi efni.“
Vill afnám handhafalauna vegna forsetavalds
Spurð út í pólitísku tillögurnar sem starfshópurinn tók ekki afstöðu til sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra að auðvitað væri ýmislegt á borðinu þótt það kæmi ekki fram í þessu skjali. „Þótt það sé 100 prósent rétt sem formaður hópsins segir að svona kannski pólitískustu þættirnir voru teknir út þá er auðvitað heilmikil pólitík líka í því sem er í þessu skjali. Það er pólitík í því að fara að sameina stofnanir, að fara í breytt skipulag nefnda og annað. Lífið er pólitískt.“
Þá benti Kristrún á að tillögum skjalsins yrði ekki hrint í framkvæmd í næsta mánuði án samtals, þótt sumum þeirra væri hægt að framfylgja nokkuð auðveldlega.
Margar tillögur hópsins eru að sögn forsætisráðherra nú þegar í farvegi. Til dæmis innleiðing stöðugleikareglu, sameining sjóða, bætt fjárfestingarumgjörð ríkisins og fækkun hæfnisnefnda. Þá vill Kristrún strax leggja fram tillögu um afnám handhafalauna vegna forsetavalds.
Kristrún nefndi á fjölmiðlafundinum sérstaklega tillöguna um sameiningu lögregluembætta, tillögu um hagræðingu í opinberum innkaupum og sameiningu neytendaverndar og markaðsyfirlits. Má því draga þá ályktun að henni þyki álitlegt að ráðast í þær breytingar.
Einkaaðilar hafa engan rétt á hvorugu, eins og margir vilja vera láta.