Heilsusamlegt líf á að vera áreynslulaust líf

Lækn­ar sem sam­ein­uðu krafta sína með stofn­un Fé­lags lífs­stíls­lækn­inga á Ís­landi vilja efla heilsu­læsi og minnka álag á heil­brigðis­kerf­ið til lengri tíma. Í hröðu nú­tíma­sam­fé­lagi hef­ur þörf­in aldrei ver­ið jafn­rík og nú. Lífs­stíls­breyt­ing­ar eru krefj­andi en sjálfsmildi er mik­il­vægt fyrsta skref.

Heilsusamlegt líf á að vera áreynslulaust líf
Heilbrigður lífsstíll á að vera aðgengilegur Lífsstílslækningar eiga fullt erindi í nútímasamfélagi að mati læknanna Svölu Sigurðardóttur, Teklu Hrundar Karlsdóttur og Kjartans Hrafns Loftssonar. Markmið lífsstílslækninga er að valdefla og styrkja einstaklinga til að viðhalda heilsu á öllum æviskeiðum. Mynd: Golli

Hraði nútímasamfélagsins eykst með degi hverjum með hvers kyns áreiti og það reynist þrautin þyngri að lifa heilsusamlegu lífi. Því vilja læknarnir Svala Sigurðardóttir, Kjartan Hrafn Loftsson og Tekla Hrund Karlsdóttirbbreyta. Þau tilheyra hópi lækna sem vilja setja aukna áherslu á lífsstílslækningar sem birtast einna helst með þeim hætti að það á að vera áreynslulaust að lifa heilbrigðu lífi. 

En hvað eru eiginlega lífsstílslækningar? 

„Lífsstílslækningar er vísindalega studd nálgun sem valdeflir og styrkir einstaklinga til að viðhalda heilsu á öllum æviskeiðum,“ segir Kjartan. Hugmyndafræði lífsstílslækninga byggir á aðferðum til að fyrirbyggja, bæta meðferð og jafnvel snúa við lífsstílstengdum sjúkdómum.   

Kjartan og Tekla eru hjón og störfuðu um árabil í hefðbundnu heilbrigðiskerfi, til að mynda á heilsugæslunni, í endurhæfingu og stafrænni heilbrigðisþjónustu og þekkja kosti og galla þess. Lífsstílslækningar hafa verið þeim ofarlega í huga lengi en þegar þau voru búsett í Svíþjóð fyrir um áratug fóru þau að gera breytingar á eigin lífi. „Við höfum alltaf reynt að vera meðvituð, passa upp á sykurinn og svona, en það varð einhver breyting þarna, nálgunin breyttist,“ segir Tekla. Síðustu tíu ár hafa þau farið í saumana á lífsstílstengdum sjúkdómum og jafnframt skoðað ítarlega hvernig hægt er að finna merki og einkenni þess að heilsan sé að stefna í óefni. 

Lífsstílslækningar voru til umfjöllunar á einu af fjölmörgum málþingum á Læknadögum sem fram fóru í síðustu viku. Nærðu hugann  fyrir aukin afköst og bjartari framtíð var yfirskrift málþingsins sem Svala Sigurðardóttir læknir stýrði. Hún hefur alltaf haft áhuga á heilbrigðum lífsstíl, er einkaþjálfari og lærði næringarfræði áður en hún byrjaði í læknisfræði og það kom henni á óvart hversu lítið var fjallað um næringu og lífsstílstengda þætti í læknisfræðinni. „Við lærum ekkert um hvað veldur heilsu, við lærum bara hvað veldur sjúkdómum. Við lærum ekkert um áhrifaþætti heilbrigðis.“ Kjartan tekur í sama streng. „Við áttum að sjá um lækningar, ekki næringu. Lífsstíllinn er nefndur, en það er ekkert kennt um hann, það er farið beint í lyfin.“

„Við lærum ekkert um hvað veldur heilsu, við lærum bara hvað veldur sjúkdómum
Svala Sigurðardóttir læknir
um læknanámið

Kveikjan að því að stofna sérstakt lífsstílslækningafélag varð þegar Svala, Tekla og Kjartan störfuðu saman hjá Sidekick Health, hugbúnaðarfyrirtæki sem þróar og markaðssetur stafrænar heilbrigðismeðferðir, fyrir nokkrum árum. Þar kynntust þau Thomas Ragnari Wood, bresk-íslenskum lækni, stofnanda Félags lífsstílslækna á Bretlandi, sem er í forsvari fyrir félag lífsstílslækna á Bretlandi og veltu fyrir sér hvernig þau gætu innleitt starfsemi félagsins í störfum sínum hér á landi (viðtal við Thomas má einnig finna í þessu tölublaði). „Hann stakk upp á því að við myndum stofna okkar eigið íslenska félag,“ segir Kjartan. Þau létu slag standa og í september 2023 stofnuðu þau, ásamt Jens K. Guðmundssyni lækni, Félag íslenskra lífsstílslækninga (e. ILMA - Icelandic Lifestyle Medicine Association). ILMA er í nánu samstarfi við bresku samtökin, British Society of Lifestyle Medicine (BSML) og er einnig hluti af evrópsku heimssamtökum lífsstílslækninga. 

FormaðurKjartan Hrafn Loftsson er formaður Lífsstílslækningafélags Íslands. Hann hefur starfað í yfir áratug í heilsugæslu og starfar í dag sem ábyrgðarlæknir heilsueflandi móttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
„Við áttum að sjá um lækningar, ekki næringu
Kjartan Hrafn Loftsson læknir
um læknanámið

Lífsstílslækningar eiga fullt erindi í nútímasamfélagi að mati Kjartans, Teklu og Svölu, samfélagi þar sem hraði og áreiti einkenna daglegt líf. „Þetta er það eina sem „meikar sens“ í þessu samfélagi sem við búum í. Það er kannski lausnin sem maður sér í að minnka álag á heilbrigðiskerfið og fá meiri orku í landsmenn. Þetta snýr að lífsgæðum almennt,“ segir Tekla. „Þetta snýst líka um samfélagið. Þetta eru lífsstíls- og samfélagslækningar,“ bætir Svala við. Hún segist ekki vilja gera lítið úr fólki og sjúklingum en telur að það geti verið snúið að lifa í nútímasamfélagi. „Fólk er ekki aumingjar, það er erfitt að iðka heilbrigðan lífsstíl eins og samfélagið er í dag með öllu áreitinu sem þar er, alls konar ómótstæðilegar vörur sem við eigum ekki séns í,“ segir hún og nefnir sem dæmi úrval skyndibita og alls kyns annarra skyndilausna í mataræði.

Kjartan tekur undir. „Eftir að hafa verið að grúska í þessu lengi sér maður að þetta snýst ekki bara um að hjálpa fólki að grennast eða losna við sykursýki,“ segir hann. Samfélagslegir þættir hafa einnig áhrif á kvíða, ADHD-einkenni og andlega þætti. En fleiri þættir tala saman. „Læknisfræðin bútar líkamann svolítið niður, geðlæknisfræði er heilinn, taugalæknisfræði er það sem heilinn sendir út og svo framvegis. Þegar við erum búin að skoða þetta svona mikið þá sér maður að þetta er allt nátengt. Við erum að reyna að byggja upp hvað frumurnar vantar til að starfa eðlilega. Það hefur áhrif á heilaheilsuna og restina af líkamanum,“ segir Kjartan. 

Snýst allt um sex grunnstoðir heilsu

Lífsstílslækningar byggja á sex grunnstoðum heilsu, þær eru: Tengsl, mataræði, svefn, hreyfing, öndun og umhverfi. „Allar þessar grunnstoðir snúa að því að mæta okkar grunnþörfum. Þegar grunnþörfunum er betur mætt virkar þetta betur, þá er meiri heilsa,“ segir Tekla. 

Þetta hljómar kannski einfalt. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að það geri okkur gott að eiga í góðum tengslum við fólkið sitt og samfélagið, borða hollan mat, hreyfa sig reglulega, sofa vel, anda (hver gerir það ekki?) og verja tíma í náttúrunni. En þegar eitthvað í heilsunni gefur sig skiptir máli að líta til þessara grunnstoða. Þar koma lífsstílslækningar sterkar inn.  „Þetta er vísindalega studd heildræn nálgun sem miðar að því að fyrirbyggja, meðhöndla og snúa við lífsstílstengdum sjúkdómum. Þetta byggir á þessum grunnstoðum heilsu. Það er rauði þráðurinn, að fara betur í þessa sjúkrasögu með einstaklingum til að valdefla og fræða um hvað sé hægt að gera til að byggja upp góða heilsu,“ segir Kjartan. 

Sex grunnstoðir heilsuLífsstílslækningar byggja á sex grunnstoðum sem snúa að því að mæta okkar grunnþörfum.

Tekla nefnir tengsl sem dæmi. „Þróunarlega séð er svo mikilvægt að standa saman. Það var ógn við þínu öryggi ef þú varst einhvers staðar einn á stangli. Við höfum alltaf þurft á hvert öðru að halda. Þetta er kjarnastoð hjá okkur, það er ein af okkar frumhvötum að tilheyra. Með meiri skautun í samfélaginu er verið að ögra þessari stoð.“ Tengsl hafi ef til vill aldrei verið mikilvægari en í nútímasamfélagi. „Við erum meira einmana í dag en samt höfum við aldrei verið tengdari, ef við lítum á símana,“ bendir Kjartan á. 

Félag lífsstílslækninga talar ekki fyrir einu sérstöku mataræði heldur leggur áherslu á fjölbreytni. „Við viðurkennum að það eru til margar leiðir til þess að ná góðri heilsu með mataræði en það þarf að einstaklingsmiða og fara eftir væntingum og markmiðum,“ segir Kjartan. Gott fæðuöryggi skiptir lykilmáli. „Í því felst stöðugt orkuframboð og uppbyggileg næring. Þá finnur líkaminn að hann hefur allt sem hann þarf til að virka vel og þá hættir löngunin í óhollustuna og ofát,“ segir Tekla, sem er umhugað um efnaskiptaheilsu. „Sama hvert markmið okkar er þurfum við orku til að knýja okkur áfram. Þar er lykillinn í efnaskiptaheilsu sem gerir okkur kleift að gefa öllum frumum þá orku sem þær þurfa.“

Ábati hreyfingar hefur verið margrannsakaður. „Hreyfing getur verið allt, hún getur verið forvörn og hluti af meðferð en hún getur líka verið eitthvað sem er áreiðanlegt og eftirsóknarvert að gera án þess að vera hluti af meðferð. Endanlega markmiðið hlýtur að vera að það verði viðurkennt að horfa til allra þessara þátta,“ segir Svala. 

Ávinningur svefns hefur sömuleiðis verið rannsakaður ítarlega. „En þetta snýst ekki bara um svefn, það er dægursveiflan og birtan sem við fáum á morgnana sem þarf líka að hafa í huga,“ segir Kjartan. Þegar kemur að öndun og streitustjórnun bendir Tekla á að öndunin er besta tólið til að róa taugakerfið og kerfið í heild sinni ef út í það er farið. 

Sjötta grunnstoðin, umhverfi og náttúra, felst einna helst í að forðast neikvæða áhrifavalda í umhverfinu sem hafa skaðleg áhrif á heilsuna, allt frá tóbaki til óheilnæms húsnæðis. Tekla spyr hvort við séum að horfa á sjúkdóma sem óhjákvæmileg örlög. „Erum við fórnarlömb normsins sem lífsstílssjúkdómar eru? Er það eðlilegt að svona mörg prósent séu með astma og svona mörg sykursýki? Er eitthvað í umhverfinu sem má breyta og gera öðruvísi?“ Spurningarnar eru óteljandi. Að mati Teklu felast tækifærin í lífsstílslækningum í því að líta aðeins í eigin barm. 

Að sýna sér sjálfsmildi

Það er ekki til einn leiðarvísir fyrir alla að heilbrigðum lífsstíl heldur þarf að taka mið af þörfum hvers og eins. „Ef við myndum gefa út leiðbeiningaspjald fyrir alla yrði það bitlaust,“ segir Kjartan. Sex lykilstoðir heilsu eru eins konar leiðarvísir og líta má á það sem heilsuhjól eins og Tekla kemst að orði. „Það er hægt að meta hvar þú ert og hvar þú átt inni. Ég myndi vilja að fólk gæti mátað sig hvar það stendur og hvort þú sért mótiveraður til að breyta einhverju, hvort sem það er hreyfing eða mataræði. Við þurfum að sjá styrkleika og mismunandi þarfir hvers og eins. Hvar er maður tilbúinn að byrja?“

Sjálfsmildi er fyrsta skrefið þegar kemur að lífsstílsbreytingu, það geta þau öll þrjú verið sammála um. „Það er ógeðslega erfitt að breyta um lífsstíl. Sjálfsmildi er eitt það mikilvægasta,“ segir Svala. Að sýna sér sjálfsmildi hefst á því að einbeita sér að því sem við getum gert, ekki því sem við getum ekki gert. „Það skiptir miklu máli að skilja þínar frumhvatir, þá fylgir því meiri sjálfsmildi. Við höfum verið að vinna með skömm, að þetta séu lífsstílsvandamál og þú ert að klúðra því. Við þurfum að valdefla fólk í gegnum fræðslu, þá gengur þetta upp,“ segir Tekla.  

Heilsueflandi samfélagHeilsa á hvorki að vera áskorun né undantekning að mati Svölu, Kjartans og Teklu, sem komu að stofnun Félags lífsstílslækninga á Íslandi.

Lífsstílslækningar fyrir alla 

Félag lífsstílslækninga á Íslandi er ungt félag og er öllum opið, óháð læknismenntun. Orðið „lífsstílslækningar“ er örlítið óþjált og læknarnir tala ekki endilega um lífsstílslækningar í almennu tali. „Við tölum um hvað hvetur fólk áfram til að gera breytingar. Það vita flestir að það er gott að borða hollt og sofa vel. En þegar maður er að vinna með hverjum og einum þarf maður að vita af hverju fólk vill halda heilsunni eða hvort það sé með einhver markmið sem það vill ná,“ segir Kjartan. 

Viðhorfið gagnvart lífsstílslækningum í samfélaginu er almennt gott að mati Kjartans, Teklu og Svölu, en yngri læknar eru almennt opnari en þeir sem eldri eru. Svala lýsir viðhorfi sem hún mætti sem nýútskrifaður læknir, full eldmóðs: „Þú getur ekkert sagt fólki að breyta um lífsstíl,“ voru skilaboðin sem hún fékk. Svala svaraði fullum hálsi: „Ég bara: Víst!“ segir hún. Mikilvægast er, að hennar mati, að mæta fólki þar sem það er statt á vegferð breytinganna. „Þú þarft að tengja við breytinguna,“ bætir Tekla við. 

„Það á að vera áreynslulaust að lifa heilbrigðu lífi
Svala Sigurðardóttir læknir
Víst! Svala Sigurðardóttir læknir hefur unnið að því frá útskrift að stuðla að heilsueflandi samfélagið meðal annars með lífsstílsbreytingum og jákvæðri sálfræði.

Lífsstílslækningar eru ekki viðurkennt sérnám innan læknisfræðinnar og það kann að trufla fólk, einkum innan fagstéttarinnar. Umræða um að innleiða lífsstílslækningar inn í sérnám í heimilislækningum er hins vegar hafin. Tekla segir að í raun ætti að byrja mun fyrr, strax í grunnskóla. „Ef við skiljum betur hvað við þurfum þá verður allt miklu auðveldara. Þetta eru grunnfræði sem þú ættir að kunna þegar þú ert að læra á heiminn. Þú þarft að vita hvernig þú virkar sjálfur.“

Stóra verkefnið fram undan sé að skapa og viðhalda heilsueflandi samfélagi. „Heilsa á hvorki að vera áskorun né undantekning. Þetta eru kannski líka umhverfis- og samfélagslækningar,“ segir Tekla. Til að lifa heilsusamlegu lífi í dag þarf að fara út í ákveðnar öfgar að hennar mati og að það veki sérstaka athygli ef fólk lifi heilsusamlegu lífi. „Í dag þarftu að grípa til aðgerða ef þú ætlar að reyna að búa til öruggt og heilsueflandi umhverfi. Ef þú ert að sneiða hjá sykri og afþakkar marengskökuna í matarboði þá ertu álitin spes, mögulega með eitthvert vandamál.“ Það á ekki að vera þannig, segir Tekla. 

Breytingar„Í dag þarftu að grípa til aðgerða ef þú ætlar að reyna að búa til öruggt og heilsueflandi umhverfi,“ segir Tekla Hrund Karlsdóttir læknir. Því vill hún breyta.

Heilsueflandi umhverfi eigi að vera normið. Svo það gerist verði ákveðnar samfélagsbreytingar að eiga sér stað. „Heilsuefling á að vera almenn þekking, innleidd í skólakerfið, að þú skiljir hvað þú getir gert til að vera með góða heilsu. Og samfélagið þarf að breytast líka. Það á að vera áreynslulaust að lifa heilbrigðu lífi. En á meðan við erum ekki komin þangað er það markmið okkar að skýra fyrir kollegum okkar hvað við getum einblínt á og hvað við getum gert til að hjálpa fólki og hjálpa því að hjálpa sér sjálft,“ segir Svala. 

Tilgangur Félags lífsstílslækninga á Íslandi er að efla menntun og rannsóknir á sviði lífsstílslækninga, veita faglegan stuðning og umræðuvettvang fyrir lækna, heilbrigðisstarfsfólk og aðra sem hafa  áhuga á þessu sviði. Öllum er frjálst að ganga í félagið, ekki síst til að efla heilsulæsi og hegðun almennings til þess að hafa áhrif á þróun íslensks samfélags og minnka álag á heilbrigðiskerfið til lengri tíma. „Það eru ekki bara læknar sem sinna lífsstílsslækningum, við hvetjum allar stéttir til að notfæra sér þetta,“ segir Kjartan. „Við viljum líka eiga í beinu samtali við fólkið þannig að þetta sé bæði fræðsla milli kollega og til að valdefla einstaklinginn. Það þurfa ekki allir að fara til lífsstílslæknis, upplýsingarnar eiga að vera aðgengilegar,“ segir Tekla. 

Kjartan, Tekla og Svala vinna nú hörðum höndum að skipulagningu fyrstu ráðstefnu lífsstílslækninga hér á landi síðar á þessu ári. Öllum er velkomið að taka þátt í umræðunni um lífsstílslækningar á Facebook: Félag lífsstílslækninga á Íslandi.

Kjósa
8
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár