Aðventulitapallettan getur vonandi veitt ykkur innblástur, sett tóninn fyrir árstíðina og skapað hátíðlegt andrúmsloft, til dæmis þegar kemur að skreytingum, innpökkun eða föndri. Þó að hefðbundnir jólalitir séu allt um kring í desember þá er um að gera að setja sinn persónulega smekk og stíl á heimilið og velja þá liti sem maður heillast af þegar kemur að því að skreyta heimilið, jólatréð eða matarborðið.
Innblásturinn að litapallettunni kemur frá hátíðarmatnum, jólaskrauti og jólaljósum.
Litapallettan inniheldur djúprauðan, sem við tengjum oft við hlýju, ást, gleði og tengist oft jólasveininum og jólaskrauti. Fallegan grenigrænan, sem táknar náttúruna og endurnýjun eins og sígræn fura eða normannsþinur. Kastaníuhnetur, sem er hlýr og jarðbundinn litur og minnir mig á notalegheit og náttúruna. Kremaðan ljóstóna blæ sem virkar vel sem grunnlitur og minnir á jólastjörnu. Til að bæta smá tvisti við pallettuna þá kemur silfraður alltaf sterkur inn, en sá litur táknar eitthvað tært og vetrarfegurð sem við sjáum í snjó og ís.
Þegar þú velur þína jólalitapallettu skaltu hugsa um þinn heildarstíl, andrúmsloftið sem þú vilt skapa og hvort þú vilt hafa jafnvægi á milli þess sem er hefðbundið og nútímalegt. Hvort sem það er klassískt rautt, grænt útlit eða einhver nýtískulegri litur þá mun litaval þitt setja stemninguna og lífga upp á hátíðaryfirbragð heimilisins. Það er hægt að blanda saman allavega litapallettum og bæta svo við ýmsum áferðum, eins og gull, silfur og flauel.
Blóm og kransar
Blóm lífga svo sannarlega upp á heimilið og sérstaklega þegar dagarnir eru styttri, frost og snjór úti. Á þessum árstíma finnst mér fersk blóm í fallegum vasa gera mikið fyrir mig og heimilið.
Holly er eitt af mínum uppáhaldsblómum til að hafa í vasa í desember, falleg rauð ber með brakandi ferskum grænum laufblöðum. Jólastjarna er ómissandi á mörgum heimilum og er án efa þekktasta jólaplantan og vinsæll kostur til að skreyta með á aðventunni.
Jólakrans er algeng hefð í mörgum löndum sem skreyting á vegg, hurð eða arni. Kransarnir gefa alltaf aukinn sjarma á heimilum fólks. Það er líka frábær hefð að hittast með vinahópnum og búa til fallegan krans saman.
Litapallettan er oft rauð, græn, gyllt og hvít, sem endurspeglar þessa klassísku hátíðarliti. Það eru auðvitað endalausir möguleikar í boði að töfra fram fallegan krans, það er hægt að nota rauð ber, köngla, þurrkuð blóm eða eucalyptus-lauf til að setja þinn persónulega stíl á kransinn og bæta svo við einhverjum borða í heillandi jólalit.
Athugasemdir