Eldgos hófst á Sundhnúkagígaröðinni kl. 23:14 í gærkvöld, fimmtán mínútum eftir að Veðurstofan varaði við kvikuhlaupi, sem fyrst kom fram á mælum um kl. 22:30. Gossprungan opnaðist á milli Stóra Skógfells og Sýlingafells.
Heiðskýrt er á suðvesturhorninu og á myndbandinu sem hér fylgir, sem Golli, ljósmyndari Heimildarinnar, tók í morgun sést eldgosið vel frá Reykjavík.
Samkvæmt upplýsingum frá HS Veitum hefur hraun farið yfir Njarðvíkuræð sem færir heitt vatn frá Svartsengi til Fitja þar sem HS Veitur fá heitt vatn afhent til dreifingar frá HS Orku.
Njarðvíkuræð fór síðast undir hraun í febrúar síðastliðin með þeim afleiðingum að Suðurnesin voru án heits vatns í nokkra daga. Talið er að lögnin sé vel varin þar sem hrauntungan fór nú yfir og til samanburðar er Grindavíkuræðin undir um kílómeters kafla af hrauni frá fyrra eldgosi og heldur sú lögn enn.
Heitt vatn er enn að berast um Njarðvíkuræðina og vonir standa til að svo verði áfram, það er þó ekki á vísan að róa í þeim efnum.
Svartsengislína Landsnets sem tengist orkuverinu í Svartsengi er rofin vegna hraunflæðis. Það olli rafmagnstruflun á öllum Suðurnesjum en ætti ekki að hafa frekari áhrif á afhendingu rafmagns í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum en rafmagnslaust er nú í Grindavík.
Virknin í eldgosinu virðist hafa náð hámarki í nótt. Gossprunguna er hætt að stækka og samkvæmt þeim merkjum sem sjást á mælum Veðurstofunnar virðist ekkert benda til þess að virknin muni aukast.
Lengd gossprungunnar er metin vera um 3 km. Hraunstraumurinn dreifist bæði til austurs og vesturs. Ekkert hraunflæði er í átt til Grindavíkur. Á þessum tímapunkti eru um 500 m frá hraunjaðrinum í vestur að Grindavíkurvegi.
Veðurstofan uppfærði hættumat í nótt, 20. nóvember. sem gildir til klukkan 15:00 þann 22. nóvember, að öllu óbreyttu. Hætta hefur verið aukin á öllum svæðum nema svæði 7, samanber myndina hér að neðan. Mikil hætta (fjólublátt) er á svæði 3, þar sem upptök eldgossins eru. Á svæðum 1, 4 og 6 hefur hætta verið aukin í mikla (rauð).
Það sem vekur athygli er að skjálftavirknin var ekki tekin að vaxa vikurnar fyrir gos líkt og hafði gerst í fyrri atburðum, segir í upplýsingum frá Veðurstofunni. Kvikumagnið sem safnast hafði undir Svartsengi var svipað og fyrir síðasta gos. Þróunin undanfarið hefur hins vegar verið sú að sífellt meira magn af kviku hefur þurft að safnast fyrir til að koma af stað næsta atburði. Þetta er vísbending um að það munstur sem sést hefur hingað til í fyrri eldgosum er mögulega að breytast.
Athugasemdir