Lautarferð á vígvellinum
Bragi Ólafsson. Mynd: Golli
Þessi grein birtist fyrir meira en mánuði.

Lautarferð á vígvellinum

Bragi Ólafs­son hef­ur sent frá sér bók­ina Inn­an­rík­ið – Al­ex­í­us sem má kannski kalla end­ur­minn­ing­ar-ess­eyj­ur. Í verk­inu er þó þráð­ur, í anda spennu­sögu, nefni­lega leit Braga að dán­um manni! Manni sem vitj­aði föð­ur hans. Bók­in fang­ar hug­ar­heim Braga, ið­andi af bók­um og plöt­um og at­vik­um – eins og hon­um er ein­um lag­ið að segja frá því. Enda gæti ver­ið end­að í níu bind­um. En hvað hef­ur Bragi um það að segja – og bara allt!

Á nístandi köldum þriðjudegi hittumst við Bragi á vinnustofu Kjarvals í Austurstræti þar sem listmálarinn svífur yfir vötnum. Og röbbum um nýju bókina hans í rýminu þar sem Kjarval var vanur að mála. Og málar kannski enn! 

Með glotti út í annað segist Bragi hugsa bókina Innanríkið – Alexíus, sem byggir á endurminningum, þá fyrstu af níu bindum. 

Þetta er í rauninni eins og stikla eða teaser fyrir restina. Hin bindin verða kannski öðruvísi í formi, hugsanlega samfelldari frásögn. Næstu bók hefur hann hugsað sér að byggi á þriggja daga puttaferðalagi sem hann fór í á Spáni fyrir fjörutíu árum, að feta aftur í sín eigin spor. 

En þessi bók er skrifuð þannig að einn kaflinn vekur upp eitthvað sem ég leyfi mér að opna í næsta kafla. Stundum hefur mér fundist eins og ég sé lentur úti í skurði með samhangandi verk, til dæmis heitir einn kaflinn Leit að tengingu. Eftir á fannst mér eins og það kaflaheiti væri sjálft efni þessarar bókar, að ég væri að leita að tengingu, bæði við sjálfan mig og milli mín og þess fólks sem ég er að fjalla um.

Aðspurður um hvort þetta sé esseyju-skáldsaga svarar hann að hér sé frekar um að ræða endurminningar-esseyjur. 

Maður birtist pabba Braga

Á blaðsíðu 25 má lesa í bók Braga að faðir hans heitinn, Ólafur Stefánsson, hafi eitt sinn vaknað um miðja nótt í íbúð foreldra hans á Skólavörðustíg 10 við að maður sem hann hafði aldrei séð áður stóð í dyragættinni. 

Þar segir: „Mamma lá við hlið pabba í rúminu þegar þetta gerðist – eins og aðrar nætur – og hún vaknaði líka, vegna þess hve pabba var brugðið. Ég man ekki hversu lengi hann sagðist hafa haft þennan mann fyrir augunum. Eflaust ekki nema nokkur augnablik, kannski frekar eina örskotsstund, þótt erfitt sé að gera sér grein fyrir slíku, þegar maður verður fyrir jafn óvæntri reynslu.“ 

Þessi maður Alexíus ... hvernig er hann sögupersóna í esseyju-endurminningunum?

Til þess að halda smá spennuelementi fyrir væntanlega lesendur bókarinnar vil ég ekki gefa upp nákvæmlega hver Alexíus var. En hann var merkur og vel liðinn maður á sinni tíð, upp úr miðri nítjándu öld, og það kemur skemmtilega á óvart að mjög fáir vita hver hann var. En einhverja ástæðu hefur hann talið sig hafa haft til að vitja föður míns, að vekja hann upp af værum svefni. Pabbi hafði ekki hugmynd um hver þetta gæti verið. Og kannski er þráðurinn í bókinni leitin að þessum manni. Allt þetta tengist hinu sögufræga Bergshúsi, sem stóð áður á sama reit þar sem foreldrar mínir bjuggu, því húsi sem lýst hefur verið sem heimsfrægu húsi í skrifum um Þórberg Þórðarson.

Hvað gerir það heimsfrægt?

Að Þórbergur hafi búið þar, á fyrsta áratug síðustu aldar. Það sem reyndar vantar í þá staðreynd er að Þórbergur er því miður ekki heimsfrægur höfundur.

Snemma í bókinni talar þú um alþjóðatungumálið esperantó. Handanheimar og esperantó tendra hughrif við Þórberg ... andi hans kraumar þarna eða hvað? 

Ég minnist á esperantó út af ljóði sem ég samdi og heitir Frá heimsþingi esperantóista, og var hugsað sem ástarljóð. Esperantó er nánast stærðfræðilegt tungumál sem leyfir engar undantekingar, ólíkt öðrum tungumálum, og þess vegna fannst mér það henta vel þegar kemur að málefnum hjartans, því ljóðskáldið reynir alltaf að fela tilfinningar sínar bak við eitthvað annað.

Skilurðu esperantó?

Ég lærði esperantó í eina önn í Menntaskólanum við Hamrahlíð, en gerði mér fljótlega grein fyrir því að ég vildi einbeita mér að öðrum tungumálum.

„Hann var merkur og vel liðinn maður á sinni tíð, upp úr miðri nítjándu öld“
Bragi Ólafsson
Heimur að handan„Ég hef alltaf hugsað um drauga sem eitthvað sem undirmeðvitundin kallar fram. Þá yfirleitt þannig að sá sem kallar fram einhverja sýn sér einhverja persónu sem hún veit hver var eða þekkti. En í tilviki föður míns, þegar hann sá Alexíus, þá hafði hann ekki hugmynd um hver þessi maður var.“

Draugadansar

Hugurinn hvarflar fljótt aftur að Alexíus. Þessum manni sem birtist fyrir löngu og svo aftur núna í bók. Kannski birtist Alexíus pabba þínum svo þú myndir skrifa þessa bók löngu seinna. Getur það verið? 

Það er vel hugsanlegt. Bara eins og ég komst að því að ég hafði lært að skrifa verslunarbréf á ensku í Verzlunarskóla Íslands til að fá hugmynd að skáldsögu þremur áratugum síðar, sögu sem fékk nafnið Staða pundsins. En Alexíus varð líka til þess að ég fór að skoða samband mitt við föður minn heitinn nánar – sem er þá jafnframt stór þráður í þessari bók. Ásamt Alexíusi gengur faðir minn eins og rauður þráður í gegnum bókina.

Einhvern veginn minnir bókin þín mann á bók eftir Paul Auster þar sem hann skrifaði um pabba sinn og hét The Invention of Solitude. Ég man reyndar lítið eftir henni en það klingir einhverjum bjöllum. Lastu hana? 

Mér finnst sú bók vera besta bókin af þeim sem ég hef lesið eftir hann, segir Bragi, áður en talið berst aftur að Alexíus: 

Það er ljóst að þessi maður kemur að handan. Það er annars skemmtileg tilviljun að sama dag og ég hélt útgáfuboð um daginn hlustaði ég á morgunútvarp Rásar eitt, og þar var mín uppáhalds útvarpskona, Una Margrét Jónsdóttir, að fjalla um tónlist sem tengist á einhvern hátt draugum. Og draugadönsum í músík, aðallega fyrri tíma. Mér fannst eins og þetta væri eins konar hljóðrás fyrir bókina mína, þótt þar sé meira fjallað um göngulag en dans.

Hvað er draugur fyrir þér?

Ég hef alltaf hugsað um drauga sem eitthvað sem undirmeðvitundin kallar fram. Þá yfirleitt þannig að sá sem kallar fram einhverja sýn sér einhverja persónu sem hún veit hver var eða þekkti. En í tilviki föður míns, þegar hann sá Alexíus, þá hafði hann ekki hugmynd um hver þessi maður var. Hann gat þó lýst honum í smáatriðum og það hjálpaði honum að komast að því hver maðurinn var. Ég las nýlega í skáldsögu að draugar skipti aldrei um föt, að þeir séu alltaf í sömu fötum, og það passar einmitt við kynni pabba við manninn í dyragættinni, því sá síðarnefndi var í sömu fötum og hann klæddist í lifanda lífi.

Geturðu lýst fötunum? 

Dimmrauður einkennisklæðnaður. Að vísu vantaði hattinn sem viðkomandi hafði jafnan á höfðinu.

Skrifaðirðu ekki bók sem heitir Við hinir einkennisklæddu? 

Jú. Fyrir sirka tuttugu árum. Í þeirri bók er einmitt frásögn af þessu atviki á Skólavörðustíg. Þannig að þetta er önnur bókin þar sem þessi maður dúkkar upp.

Hefurðu mikið hugsað til hans eða velt þessu fyrir þér? 

Ég veit ekki hvort ég hafi gert það í gegnum tíðina en sagan á bak við þessa sýn föður míns finnst mér svo einkennileg að hún hefur alltaf fylgt mér. Í undirmeðvitundinni hefur þetta líka haft einhver áhrif á mig í sambandi við handanlífið og tengsl lifenda og dauðra,“ svarar Bragi, og nefnir í því sambandi þátt Egils Helgasonar: Bækur og staðir. 

Í rauninni ætti þessi bók að vera í þeim þætti. Því ég fer mikið á milli staða og inn í hugarheim annarra höfunda sem tengjast ákveðnum stöðum. Meðal þessara höfunda er ég sjálfur. Og í raun er ég aðalpersóna þessarar bókar, þó að ég noti Alexíus og föður minn sem ramma.

„Ásamt Alexíusi gengur faðir minn eins og rauður þráður í gegnum bókina

Hið líkamlega á salernum

Aðspurður hvort honum finnist mikið í lagt að gera sjálfan sig að aðalpersónu smáhlær Bragi áður en hann svarar að hann hefði í um það bil tíu ár hugsað um að vinna eitthvað upp úr eigin minningum og reynslu. 

En ég taldi mig alltaf vera of ungan, að ég hefði ekki lifað nógu stórbrotnu og viðburðaríku lífi. En svo hugsaði ég með mér að núna væri mesta reynslan að baki, og að ég hefði að minnsta kosti lifað meira spennandi lífi en til dæmis persóna Jónasar Reynis, Markús, í nýútkominni skáldsögu, Múffu. Ég hef oft byggt mínar aðalpersónur á mér sjálfum, allt upp að 40%, og fannst áhugavert, jafnvel áskorun, eins og það er oft orðað, að skrúfa prósentutöluna upp í 100.

Myndirðu segja að þú sért 100% persóna í þessari bók? 

Ég efast reyndar alltaf um að ég sé einhver persóna sjálfur. Margar skáldsagnapersónur mínar eru sterkari en ég að því leyti. En ég hef sjálfur alltaf svo gaman af því að lesa um ævir fólks, hvort sem þær eru skrifaðar af því sjálfu eða ekki. Ég myndi til dæmis verða mjög áhugasamur ef ég rækist á bók um mann sem hefði lifað sem klósetthreinsir alla ævi. Mér þætti mjög áhugavert að lesa minningar hans, og er eiginlega viss um að hið líkamlega sem gerist á salernum heimsins segi manni meira en það sem á sér stað í höfðinu.

Bragi tekur fram að Innanríkið sé ekki ævisaga heldur byggi hún mikið á öðru fólki sem hann hafi kynnst og starfað með. Og líka fólki sem ég horfi á úr fjarska, eins og skáldsagnapersónum annarra. Mér finnst mikilvægt að fólk segi frá lífi sínu til þess að fanga einhvern tíðaranda, en kannski helst til að meta hvernig fólk vinnur með óreiðuna, eða lygina um líf þess, svo ég vitni óbeint í Þórberg.

Ertu þá að leggja merkingu í það? Í óreiðuna? 

Ég held ég leggi ekki neina merkingu í neitt sem ég skrifa. Ég held ekki fram neinu erindi í mínum skáldskap og heldur ekki í þessum skrifum. Mér finnst þetta allt einhvern veginn byggja á hvernig maður segir frá. Og jafnvæginu á milli stórra atburða og smærri. Ef ég horfi yfir líf mitt, þá eru það smáatriðin sem eru mikilvægust, það sem er á milli stóru atburðanna. Það er sífellt verið að krefja höfunda um erindi, að bækur þeirra þurfi að hafa eitthvert inntak umfram efni þeirra. Raunar finnst mér að hægt sé að skipta bókum í tvo flokka: bækur sem segja þér eitthvað og bækur sem reyna að segja þér eitthvað.

Og þín er?

Sá texti sem ég læt frá mér segir mér alltaf eitthvað. Þannig að ég vona að hann geri það líka fyrir lesendur. Það kemur bara af sjálfu sér, að einhver merking birtist eða erindi. Ég sem lesandi bókmennta fer ekki fram á eitthvert erindi, bara karakter og sterka rödd.

„Raunar finnst mér að hægt sé að skipta bókum í tvo flokka: bækur sem segja þér eitthvað og bækur sem reyna að segja þér eitthvað“

Þýskur rithöfundur hugfanginn af Braga

En Bragi virðist sjálfur hafa verið hráefni í sögu eftir einn af helstu rithöfundum Þjóðverja, Judith Hermann

Hún virtist hafa orðið hugfangin af þér þegar maður les söguna Die Liebe zu Ari Oskarsson (Ástin á Ara Óskarssyni) – þar sem Ari þessi lítur út fyrir að vera þú. Við að lesa söguna pældi ég í að skrifa sjálfsævisögulega sögu um að lesa sjálfsævilega sögu eftir þýskan kollega að skrifa um íslenskan kollega og löngu liðið partí. Bókin sem sagan er í, Nichts als Gespenster (Ekkert eins og draugur), hefur líklega komið út í trilljón eintökum – hvernig er að vera söguhetja í bók þýsks höfundar? 

Það varst þú sem bentir mér á þetta! Ég vissi ekki af þessu. En ég sá strax að það var augljóst að persónan sem hét Ari Óskarsson var byggð á mér. Þetta er það sama og ég geri oft þegar ég hitti fólk, hvort sem ég hrífst af því eða ekki. Dæmi um það er til dæmis prófarkalesarinn Ármann Valur Ármannsson sem kom fyrst fram í Gæludýrunum, og hefur gengið aftur í fleiri bókum. Hann er byggður á manni sem er enn lifandi meðal vor.

Veit hann af því?

Ég vona ekki. En hann veit hver ég er.

Bragi tekur kúnstpásu en stingur síðan inn: Ég veit að þetta hljómar eins og við Judith hefðum kynnst mjög náið. En svo var ekki. Þetta er bara hennar sýn á mig. En ég hálfpartinn hefni mín á henni með því að lauma henni óbeint inn í langa smásögu sem ég skrifaði á síðasta ári, sögu sem heitir Skyrtan og birtist í veftímaritinu Stelkur.

Þannig að þetta gæti orðið efni í bókmenntaritgerð fyrir áhugasaman? 

Já, já. Ég er líklega það hégómlegur að mér finnst gaman að sjá mig dúkka upp í skáldverkum eða minningum annarra. Mér var líka bent á, samt ekki af þér, að ég kæmi fyrir á tveimur blaðsíðum í fimmta bindi Min kamp eftir Karl Ove Knausgård,“ segir hann og vitnar þar í eina margumtöluðustu útgáfu síðari ára eftir hinn heimsfræga norska höfund. „Þar lýsir Karl því þegar hann heimsótti mig til að taka viðtal fyrir norska dagblaðið Klassekampen. Að því loknu mun ég hafa dregið hann á tónleika með Sykurmolunum og í eftirpartí í framhaldinu. Staðreyndin er hins vegar sú að ég man ekkert eftir þessu sjálfur. En óneitanlega er gaman að lesa svona frásagnir, ef þær eru ekki þeim mun verri. Og kannski er ég að gera það sama í bókinni minni. Að lýsa senum með fólki, sem eftir á kemur í ljós að það man ekkert eftir. Það er kannski tilgangurinn með þessari bók minni, að fríska upp á minni annarra. Og mitt eigið í leiðinni, með hjálp vina sem lesa bullið í mér áður en það fer á prent.

Draugadans„Sá texti sem ég læt frá mér segir mér alltaf eitthvað. Þannig að ég vona að hann geri það líka fyrir lesendur. Það kemur bara af sjálfu sér, að einhver merking birtist eða erindi. Ég sem lesandi bókmennta fer ekki fram á eitthvert erindi, bara karakter og sterka rödd.“
„Ég sá strax að það var augljóst að persónan sem hét Ari Óskarsson var byggð á mér“
Bragi Ólafsson

Vingjarnlegt innlit draugsins

Einhvern veginn er erfitt að hætta að hugsa um Alexíus. Hann leitar á hugann eins og draugurinn sem hann er. Heldur þú að Alexíus muni eftir veru sinni hjá pabba þínum?

Mér finnst það ekki ólíklegt vegna þess að undirmeðvitund pabba gat í raun ekki kallað fram þennan mann því hann vissi ekki hver hann var. Ég held að Alexíus lifi í rauninni í handanheimum og sé meðvitaður um hvað hann er að gera. Hann er ekki bara eitthvað sem verður til í huga annarra. Ég var til dæmis svolítið hræddur um að hann væri kominn þarna inn í íbúð foreldra minna við Skólavörðustíg til að refsa föður mínum fyrir eitthvað, í krafti embættis síns, og óttaðist  að hann myndi birtast honum aftur. En það gerðist ekki, þótt móður minni hafi fundist hún hafa orðið vör við eitthvað skrítið í eldhúsinu næstu daga. Þannig að ég lít svo á að þetta hafi verið vingjarnlegt innlit, sem átti sér stað um það bil einni og hálfri öld eftir að Alexíus bjó á sama stað og foreldrar mínir.

Síðasti kaflinn í Gæludýrunum

Þá rifjast upp saga frá því þegar verið var að selja skáldsögu Braga, Gæludýrin, til Spánar. Bókin endar nokkuð opið en spænski útgefandinn átti að hafa sent tölvupóst til réttindastofu Forlagsins og spurt: Gleymduð þið nokkuð að senda síðasta kaflann? Hefurðu heyrt þessa sögu? 

Nei. Henni hefur örugglega verið haldið leyndri fyrir mér. En ég veit að síðasti kaflinn hefur angrað marga lesendur. Ég var reyndar búinn að skrifa aðeins lengri hala á bókina, en sá endir gaf mér álíka tilfinningu og þegar maður stendur upp í bíósal og allir hnútar hafa verið leystir í myndinni. Og það var mín skoðun – líka yfirlesarans hjá forlaginu – að þetta væri í raun eini rétti endirinn á sögunni.  Og mér finnst það enn þá. En svo stríði ég lesandanum aðeins í bók sem kom út nokkrum árum síðar og heitir Fjarveran með því að láta fyrsta kaflann hefjast í kjölfar þess sem gerist í lok Gæludýranna, án þess þó að lesendur séu nokkru nær um afdrif persónanna sem í hlut eiga. Ég lít líka svo á að niðurlag Gæludýranna hafi verið mér innblástur vegna þess að aðalgerandinn í lok sögunnar varð persóna í síðustu skáldsögunni minni, Gegn gangi leiksins, og verður það líka í væntanlegri skáldsögu minni.

 Datt niður á réttan tón

Skáldsagan Gæludýrin hafði töluverð áhrif á bæði lesendur og aðra höfunda og eins skáldsagan Hvíldardagar. Ertu meðvitaður um hvernig þær mótuðu ýmsa aðra höfunda?  

Ég veit það ekki,“ svarar Bragi sem gengst þó við því að hafa greint áhrif í verkum annarra. Þá segir hann Hvíldardaga vera ein fárra bóka hans sem standi alveg stakar hvað varði persónur. Í mínum huga er hún best heppnaða skáldsagan mín.

Að hvaða leyti?

Ég veit það ekki nákvæmlega, en kannski vegna þess að þar fyrst fannst mér ég detta niður á réttan tón í sagnaskrifum. Ég hafði gefið út smásögur áður, þar sem ég var að þreifa fyrir mér með söguefni, en Hvíldardagar gáfu líklega tóninn fyrir þær persónur sem mig langaði að vinna með. Í raun fólk sem kemur ekki hlutunum í verk, er of tvístígandi til að taka skrefið fram á við, en virkar hvetjandi á mig, kannski af því ég kannast svo vel við það í mér sjálfum.

 Hann segir að kvikmyndahandrit hafi verið gert eftir Hvíldardögum sem enn hafi ekki tekist að fjármagna. 

Eins hafa verið gerðar þrjár tilraunir til að gera bíó upp úr Gæludýrunum en það hefur alltaf strandað á endi bókarinnar. Það hefur líka verið gert kvikmyndahandrit eftir fjórðu skáldsögunni, Sendiherranum, en í þessum fyrstu bókum mínum hugsaði ég aldrei út í þann möguleika að þær yrðu kvikmyndaðar. Mig minnir reyndar að Sjón hafi sagt að maður ætti alltaf að skrifa skáldsögu með það í huga að það væri ekki hægt að gera bíómynd eftir henni. 

Eftir að þessar tilraunir voru gerðar með kvikmyndahandrit eftir þessum bókum, þá hef ég komið auga á að þær voru – eða eru – fínn efniviður í myndræna frásögn. Og jafnvel leikrit á sviði. Ég verð að játa að á meðan ég skrifaði síðustu skáldsögu mína, Gegn gangi leiksins, hugsaði ég sem svo að hún myndi gera sig vel sem bíó eða leikrit.

Smávægilegur þjófnaður í fjölbýlishúsi

Hér um árið var sýnt leikritið Hænuungarnir eftir Braga í Þjóðleikhúsinu. Þar var frystikista í forgrunni en verkið fjallaði um húsfélag. Það gerðist í kjölfar hrunsins og frystikistan þótti táknræn fyrir Icesave-málið. Geturðu sagt mér smá frá þessu leikriti? 

Leikritið var sett á svið árið 2010. Það fjallar í raun um smávægilegan, hversdagslegan þjófnað í fjölbýlishúsi. Reyndar byggir þetta á því að nokkrum frosnum kjúklingum var stolið frá foreldrum mínum, einmitt á Skólavörðustíg 10. Ég hefði aldrei farið af stað með efnahagshrun eða Icesave. Það hefði endað í tómum leiðindum.

Í nálægð við AlexíusBragi við leiði mannsins sem vitjaði föður hans.

Atburðir í heimsmálunum drápu hugmynd

Fyrir mörgum árum var eitthvað um að tekist væri á um uppgang og gildi spennu- og glæpasagna: Þá var ég að æsa mig yfir þessu þegar ég hitti þig á Ölstofunni. En þú sagðir þá eitthvað á þá leið að þessar sögur hefðu hjálpað íslenskum höfundum til að pæla meira í strúktúr. Voru þetta orð manns í ölæði eða eitthvað sem þú stendur við?

Nei, ég held að ég standi alveg við þau orð. Enda hef ég aldrei orðið ölóður! Ég held reyndar að plottaðar sögur geti nýst höfundum ekki bara við að byggja upp sögur sínar heldur líka til að brjóta þær niður og forðast reglurnar. Forðast plottið og huga meira að karakter og tóninum í textanum.  Fyrir tveimur eða þremur árum skrifaði ég langa skáldsögu þar sem ég reyndi markvisst að snúa upp á spennusagnaformið, en atburðir í heimsmálum drápu þá hugmynd fyrir mér. Skúrkarnir í bókinni voru nefnilega Rússar. Eins og hendi væri veifað dó bókin fyrir mér í því formi sem hún var, í febrúar árið 2022. Í dag eru þúsund dagar síðan Rússar réðust ekki bara á Úkraínu heldur heiminn. Skúrkarnir mínir urðu of augljósir skúrkar. Í rauninni má maður ekki sem höfundur fjalla um hið augljósa.

Að gera lítið úr ofbeldinu sem við verðum vitni að

Því næst segir Bragi: Mér finnst, eins og heimurinn er í dag, beinlínis vont að sjá þegar það birtist sjónvarpsauglýsing með morðsöguhöfundum, alblóðugum með lík í plastpoka á milli sín. Mér finnst þetta gera svo lítið úr því ofbeldi sem við erum að verða vitni að í dag, hvort sem það er á götum Reykjavíkur eða á stærri átakasvæðum í heiminum.

Hann nefnir næst að hann hafi fyrir löngu langað til að skrifa leikrit þar sem engin dramatísk átök ættu sér stað, þar sem allt væri í sátt og samlyndi, en hafi þá verið bent á leikrit eftir spænska leikskáldið Fernando Arrabal, leikrit sem hægt er að kalla á íslensku Lautarferð á vígvellinum. 

Þetta minnir á The Zone of Interest eða? 

Hann samsinnir því og minnist líka á leikrit eftir Harold Pinter, sem heitir Party Time, þar sem sjálfhverf elíta skemmtir sér í miðri stórborg á meðan látið er að því liggja að allt í kringum þau ríki stríðsástand. 

Mér finnst þetta lýsa svolítið því sem ég er að gera í skáldskap. Því ég lít á skáldskap sem leik. En það lúrir alltaf eitthvað undir, ógn eða eitthvað skelfilegt. Á meðan er maður sjálfur í einhvers konar lautarferð inni í þessu ástandi. Ég forðast að fjalla um ástandið í heiminum en kemst ekki hjá því að gera það á einhvern hátt, kannski með aðferðum ljóðskáldsins sem felur sínar innstu hugsanir bak við aðrar.

Niðurrif í spennu

Aðeins meira um spennusagnaformið. Er ekki smá spennusaga í nýju bókinni fólgin í því að leita að dánum manni?

Jú. Kannski er ég að leika með spennusagnaformið þarna ...

En um leið að afbyggja það? 

Já, í raun. Það verður niðurrif í spennu. Því það má segja að þessi bók mín sé í raun einn langur útúrdúr. Ég nota til dæmis mikið af ljósmyndum í henni, og neðanmálsgreinum til að koma í veg fyrir að bókin endi sem hljóðbók,“ segir Bragi og bendir svo á, þegar við veltum fyrir okkur hvort fyrsta skáldsaga hans, Hvíldardagar, sé ef til vill spennusaga, að sú saga fjalli um mann sem sendur er í þriggja mánaða, óumbeðið leyfi sem verði honum ofviða, og spennan sé fólgin í því hvernig honum lukkist að vinna úr þessu óvelkomna fríi. „Hvað á hann að gera við sig? Að taka af fólki daglega rútínu getur gert út af við það.

Gefin út of mörg eintök

Að þessu sinni gefur Bragi út bók sína hjá Smekkleysu, svo segja má að útgáfan sé sjálfstæðari en síðustu ár. En af hverju gefur hann bókina út þar frekar en hjá hefðbundnari bókaútgáfu? 

Ég gaf út fyrstu bókina mína, ljóðabókina Dragsúg, hjá Smekkleysu árið 1986, og Smekkleysa hefur í gegnum tíðina gefið út bækur samhliða tónlist.

Hann segir eina helstu ástæðuna fyrir útgáfu hjá Smekkleysu vera þá að þessar endurminningar sem stefna í níu bindi – eins konar tilraun til að púsla sér saman – séu að mjög miklu leyti samtvinnaðar sögu og forsögu Smekkleysu. 

Það er einhver nostalgía í því en mér finnst ég vera kominn heim með því að fara til fyrsta bókaútgefanda míns, eftir að hafa átt fínt samstarf við til dæmis Bjart og Mál og menningu. En svo er líka annað. Eins og bókaútgáfa hérna er núna finnst mér mikilvægt að geta ráðið formi útgáfunnar, þá sérstaklega prentuðum eintakafjölda. Það eru ekki of margir titlar gefnir út á Íslandi, en yfirleitt allt of mörg eintök. Bókaverð er auðvitað allt of hátt, en mér finnst góð tilhugsun að upplög klárist. Auðvitað eiga bækur að vera sem aðgengilegastar en það er líka eitthvað fallegt við það að aðgengi að þeim skerðist.

Innanríkið – Alexíus endar með tilvitnun í ensku hljómsveitina The Clash: Should I stay or should I go?

Spyrðu þig stundum að því? 

Já. Og finn ekkert annað svar en nei.

Er þá bara best að skríða undir rúm, eins og Emil í Gæludýrunum? 

Geturðu nefnt mér betri stað til að fylgjast með lífinu í kringum þig?

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.

Mest lesið undanfarið ár