Haldin verður minningarathöfn um Geir Örn Jacobsen í Fríkirkjunni í Reykjavík fimmtudaginn 31. október klukkan 17. Geir Örn lést þann 19. október í eldsvoða á meðferðarheimilinu Stuðlum.
„Athöfnin er opin öllum þeim sem misst hafa börn sín vegna fíknisjúkdóms, en er fyrst og fremst ætluð vinum Geira. Fjölmiðlar velkomnir,“ segir í tilkynningu frá foreldrum Geirs Arnar, þeim Jóni K. Jacobsen og Katrínu Ingvadóttur.
Séra Davíð Þór Jónsson mun leiða athöfnina og það verður frjálst að taka til máls í athöfninni fyrir þá sem vilja. Að henni lokinni verður gengið að tröppum Alþingishússins og lagðar á þær rósir til að minnast þeirra sem hafa látist af völdum fíknisjúkdóms.
Jón, faðir Geirs Arnar, steig fram í liðinni viku og sagði frá baráttu sinni í kerfinu við að halda syni sínum á lífi. Hann sagði þá að reynt væri að kæfa umræðuna um „týndu börnin í kerfinu“ sem mættu gríðarlegum fordómum.
Jón segir að brotalamirnar í kerfinu séu alvarlegar þegar það kemur að þeim hópi sem glímir við fíknivanda. „Kerfið er stöðugt að bregðast börnum og ungmennum.“ Jón segir að árum saman hafi hann verið vakinn og sofinn yfir velferð sonar síns. „Ég barðist eins og ljón. Ég barðist við kerfið til að halda syni mínum á lífi. Núna berst ég við kerfið til að halda minningu hans á lofti.“
Athugasemdir