Skólamál, hvort sem horft er til málefna barna eða starfsfólks, hafa fengið mikla athygli fjölmiðla síðustu mánuði. Öll eru þessi málefni samofin hvort öðru. Augljóslega er ekki hægt að tala um kjör kennara án þess að tala um afköst og árangur nemenda þeirra. Né er hægt að tala um lesskilning barna án þess að tala um færni þeirra til náms eða aðbúnað skóla til kennslu án þess að tala um fjárveitingar. Svona væri hægt að halda endalaust áfram.
Það sem meira er, þá virðist það vera að í hvert sinn sem einhver bendir á vanda innan þessa málaflokks, komi önnur grein stuttu seinna með einhverja skyndilausn sem á að leysa málin. Ef að lesskilningur er ábótavant, er vandinn að ekki er til (réttilega) nægilegt lesefni fyrir börn. Ef að áhugi barna á íslensku er í sögulegri lægð, er vandinn (eðlilega) of mikið aðgengi að ensku lesefni. Ef einbeitingu barna vantar, liggur hausverkurinn (náttúrulega) í of miklum skjátíma barna. Að sama skapi þegar álag inni í skólastofunni er orðið yfirþyrmandi er lausnin (sannarlega) fundin með að auka starfsfólk í skólastofunni til að aðstoða með „erfiðu“ börnin. Allt er þetta efnislega rétt, þarna er sýndur vandi og lausnirnar sem reiddar eru fram tækla þann vanda hiklaust.
Eða hvað?
Þetta er eins og góð sjónvarpsræma
Það sem ég upplifi hér er eins og góður þáttur af House.
Inn kemur fárveikur sjúklingur með ótal mörg einkenni sem herja á hann. Allir læknarnir í teyminu kappkosta við að kasta fram kenningum og mögulegum lausnum til að laga ástandið. Ástæður veikindanna eru óljós en út frá einkennum eru kenningar reiðulega reiddar fram. Þær kenningar ná þó ekki langt, þar sem þær stangast á við einhver önnur einkenni sjúklingsins. Þótt þar stangist eitthvað á, er samt farið í að reyna að uppræta kvillann með úrræði sem tæklar það einkenni sem þeim fannst hvað mest aðkallandi. Niðurstaðan er að sjúklingi versnar og farið er í enn þyngri úrlausnir sökum þess. Enn versnar sjúklingi og hann er kominn á dauðans dyr. Það er fyrst þá sem House kemst að rót vandans, og málið er leyst með einhverju allt öðru en farið var í að gera í fyrstu.
Þetta er sirka það sem hver einasti þáttur House snýst um. Formúlan er sú sama, úrlausn og eftirmáli sá sami einnig. Í afþreyingarheimi gengur það að svona gerist trekk í trekk. Í raunveruleikanum er annað uppi á teningnum. Hér er nefnilega verið að sýslast með menntun barnanna okkar. Þetta er verðandi kynslóð samfélagsins, sú kynslóð sem mun taka við landi og þjóð. Því má ekki fara í einhverja tilraunastarfsemi í að sjá hvort viðgerð á einu einkenni vandans muni leysa allt vandamálið í heild sinni. Þvert á móti þarf hér að skoða rótina af þessu öllu og vinna sig út frá því. En þá vaknar spurningin hvar er „rótin“ á þessum vanda?
Heimspeki eða praktík?
Það væri hægt að ræða lengi heimspekina á bak við menntun og menntamál. Að tækla orðræðu og rök merkismanna í menntamálum líkt og Dewey, Ellen Key eða Rousseau gæti verið góð byrjun. Það væri einnig hægt að fara enn aftar og enda á pælingum Aristótelesar um þessi mál. Að sama skapi væri hægt að skoða lagaramma Íslands er varðar skóla og menntun almennt. Það er þó þannig að líkt og með núverandi vandamál skólakerfisins, að þarna er allt alveg jafn samofið, lögin og heimspekin, skólinn og heimilið, kennarinn og nemendur.
Hornsteinn menntunar kemur frá Aristótelesi, hann vildi meina að menntun ætti bæði að móta huga einstaklingsins og siðferði hans. Hann var einnig stóískur þegar kom að menntun, og vildi meina að öfgar í eina átt, á kostnað annars væru mikil mistök. Dewey bar svipaðar skoðanir hvað þetta varðar og lagði áherslu á samvinnu og lýðræðislega nálgun á menntun. Rousseau, vildi meina að menntun barna ætti að koma út frá þeim og þeirra veruleika. Hlutverk kennarans þarna var að vera leiðbeinandi í gegnum þá reynslu sem nemandinn var að ganga í gegnum. Þetta átti jafnt við um bóklegt nám og samfélagslegt. Ellen Key talaði um að nám þyrfti að snúast að þörfum barna og þeirra samfélagi, og að hlutverk kennara væri að valdefla börnin til færni í þeirra umhverfi, frekar en að vera með stíft námsform.
Augljóslega er ekki farið í mikla dýpt í afstöðu þessara einstaklinga, enda er þessi pistill ekki til þess ætlaður að fara í innihaldsríka umræðu um ofangreinda einstaklinga. Það sem þessir fjórir einstaklingar eiga sameiginlegt er að þeir eru sökkull núverandi menntastefnu landsins, og þar með lögum um menntun og menntamál. Í íslenskum lögum er einna helst horft til tveggja hluta þegar talað er um menntamál. Annarsvegar skólalög, og hins vegar lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara. Fyrra snýst um skólana sjálfa og þeirra vinnu, hitt snýst um leyfisveitingu kennararéttinda, hæfni og ráðningu. Í skólalögum er líklegast mikilvægast að skoða aðra grein laganna, þar sem upptalið er í raun allt það sem fjórmenningarnir segja og standa fyrir. Út frá því er það megin hlutverk skólanna að fylgja slíku eftir. Í lögum um menntun, hæfni og ráðningu kennara er það fjórða grein sem verðugt er að skoða. Þar er talað um almenna hæfni kennara, og hvernig þeim skyldi náð. Það, líkt og með aðra grein skólalaga, bergmálar afstöðu fjórmenninganna til menntunar. Því verður ekki hjá því komist en að líta svo á að rótin á menntamálum liggi í því sem fjórmenningarnir sögðu, og það er geirneglt í formi laga sem endurspegla afstöðu þeirra.
Kennarinn og lærdómssamfélagið
Það má því segja að það þarf tvennt til að menntun eigi sér stað. Annarsvegar kennarann (eða menntastofnunina sem á að kenna) og svo lærdómssamfélagið sem á að læra. Ég nota hér orðið lærdómssamfélag sem samantektarorð til að ná utan um þau fjölmörgu orð sem lýsa hlutverki skólans í annarri grein skólalaga og hlutverki kennara í fjórðu grein menntunar og hæfni kennara. Lærdómssamfélag er því hópur nemenda sem hafa það sameiginlega markmið að læra eitthvað í hóp, og sem einstaklingar, hvort sem það er bóklegt eða félagslegt í undirbúningi þess að verða að fullþroska samfélagsþegnum. Hér er mikilvægt að átta sig á því að það eru tvær hliðar á þessum peningi, annars vegar bóklegt, og hins vegar félagslegt. Annað er því formlegt (bóknám) en hitt óformlegt (félagsleg færni). Því þarf að skoða kennarann og sjá hvernig hann leiðbeinir og miðlar þekkingu í þessum tveim flokkum. Sökum þess þarf að skoða nánar fjórðu grein um menntun kennara.
Uppsetning á menntun kennara
Það sem fjórða grein útlistar eru sjö hæfniviðmið. Líkt og með námið sjálft þá má setja þessi sjö hæfni viðmið í tvo flokka, formlegt, og óformlegt. Liðir 1,2 og 6 snúast að hæfni í formlegri kennslu. Þar er hæfnin tengd aðalnámskrá, námsmati, hæfniviðmiðum og miðlun á íslensku. Liðir 3, 4, 5 og 7 snúast að óformlegri hæfni, það er að sega félagslega þættinum. Þetta er bundið í lögin með þeirri kröfu, að 60 einingar að lágmarki í 300 eininga námi kennara eigi að falla undir uppeldis- og kennslufræðiáfanga. Á menntavísindasviði er þetta sett upp í tvo mismunandi flokka, UME áfanga (uppeldisfræði) og KME áfanga (kennslufræði). Þessar 60 einingar eru skylda í námi, samkvæmt lögum, til að hæfni kennara sé náð, og er óumsemjanlegt.
Góðu fréttirnar eru að Kennaraháskóli Íslands hefur hið minnsta 65 einingar sem falla undir þessi lög. Hausverkurinn er hins vegar sú að af þessum 65 einingum, eru allar einingarnar í KME áföngum. Í þeim áföngum er áherslan námskrá, námsmat og kennsla á formlegu námi. Með öðrum orðum, það er ekki einn einasti áfangi sem nær utan um félagslega þátt barna. Kennarar fá ekki einn einasta áfanga um einelti, hvort sem það eru forvarnir eða úrlausn. Engan áfanga um uppbyggingu leiðtoga í nemendahópi eða áfanga um samskipti við heimilin. Ekkert námskeið um hópefli. Þessi hlið menntunar er með öllu afskipt í námi kennara. Vissulega er talað um þetta í stöku námskeiðum í gegnum námsferli kennaranema, en þar er málefnunum í besta falli gefin athygli í námsþætti einnar viku en svo aldrei meir. Augljóst er að raunveruleg hæfni náist ekki í einhverju málefni eftir að hafa hlustað á einn fyrirlestur um málefnið. Það er því óneitanlegt að það vantar verulega upp á að hæfni nýútskrifaðra kennara standist þær kröfur sem settar eru upp í lögum.
En er þetta svona í raun? Eru til mælingar á því hvort rótin á vandanum geti í alvörunni verið þetta augljós?
Það er nefnilega svo merkilegt að svarið er já. PISA könnunin, sem notast hefur verið við til að ræða les- og reikningsfærni barna hérlendis, rannsakar einnig líðan barna í skólum. Það sem meira er, þá er sú líðan sundurliðuð. Við vitum upp á hár hvar veikleikar og styrkir nemenda liggja.
PISA könnunin
Það sem PISA könnunin sýndi fram á er að Ísland er neðarlega í menntamálum meðal þeirra landa sem við berum okkur almennt við. Það sem fólk hugsanlega áttar sig ekki á er sundurliðun þáttanna sem PISA skoðar. PISA könnunin skoðar meira en bara formlegt nám í læsi, náttúrufræði og stærðfræði getu. Könnunin sundurliðar aðra þætti sem vert er að rýna í. Þrautseigja, streituþol, tilfinningastjórnun, samkennd, samvinna, forvitni og skörungsskapur eru mælitækin fyrir hið óformlega. Í heildina er Ísland að standa sig illa þarna þó að ákveðnir liðir séu jákvætt sterkir. Til að byrja með, þá er Ísland að ná mjög hátt í þrautseigju og streituþoli. Líklegast sökum þess að við höfum dælt starfsfólki inn í skólana til að láta nám og kennslu ganga. Við erum á fínum stað þegar kemur að tilfinningastjórnun, og slíkt er í raun eðlilegt miðað við tölurnar í þrautseigju og streituþoli því það er ekki hægt að vera með þrautseigju og streituþol ef skap manns sé út um víðan völl. Skörungsskapur nær rétt að slefa yfir réttu megin við línuna. Það stenst einnig þar sem þetta lýsir því að nemendur geta enn spýtt í lófana og klárað þau verkefni sem fyrir þeim standa.
Þegar við skoðum svo forvitni barna, erum við undir viðmiðum ekki mikið undir en það er samt í rauðu. Það vísar í að þau hafa ekki sérlega mikinn áhuga á því sem þau eru að gera, þau bara gera það vegna þess að þau eiga að gera það. Svo koma seinustu tveir, og jafnframt verstu tveir þættirnir. Samkennd og samvinna. Í þessum þáttum er Ísland svo neðarlega að skömm er af. Þessir þættir eru svo slæmir hjá okkur að þeir draga okkur niður langt fyrir neðan viðmið í þessum þáttum. Börnin okkar vilja ekki vinna með hvort öðru og þeim er nokk sama hvað náunginn er að gera. Það eina sem skiptir máli er að klára verkefnið sem sett var á borðið hjá viðkomandi, klára það, klára daginn og fara svo heim.
Þannig að, börnin okkar kunna ekki að vinna saman, og bera ekki samkennd með námsfélögum sínum. Á sama tíma er hjakkast í sama farinu við kennslu sem þau tengja ekki við á meðan samfélag þeirra dalar og grotnar niður. Þetta er í takt við það sem áður var nefnt varðandi hæfni og menntun kennara. Það að kennarar fái ekki menntun í uppbyggingu lærdómssamfélagsins dregur dilk á eftir sér í gegnum menntagöngu nemendanna.
Því er það þannig að allar aðrar aðgerðir sem eiga að laga einkennin munu falla flöt og mistakast þar sem kennarar hafa ekki hæfnina eftir skólagöngu sína til að búa til forsendur uppbyggilegs lærdómsumhverfis. Hér er ekki við kennara að saka, þvert á móti hafa kennarar óskað eftir að þessu verði breytt í tæpa þrjá áratugi, án árangurs.
Því er það líkt og með þáttinn góða House, að lagfæring á einkennum er ekki til þess fallandi að bæta stöðuna í kerfinu, heldur þvert á móti þarf að fara ofan í rótina og leysa vandann þar. Það, eftir því sem ég best fæ séð, er bundið því hvaða menntun kennarar fá og hvaða hæfni þeir ganga inn í skóla landsins með. Án lærdómssamfélags ertu ekki með umhverfi sem leyfir nemendum að dafna og ef þeir upplifa óöryggi og áreiti samnemenda hefur enginn getuna til að læra svo sómi sé af.
Fyrir mér er þarna rótin á þessum vanda. Nú þegar það er komið upp á yfirborðið hlakka ég til að sjá greinar um úrlausnir á þessu. Nú á kerfið leik, ég bíð spenntur eftir úrlausninni.
Höfundur er lokaársnemi í kennslufræðum og eineltisforvörnum og kennir í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu.
Athugasemdir (2)