Ár af stríði og hörmungum á Gaza

Yf­ir fjöru­tíu þús­und Palestínu­menn hafa ver­ið drepn­ir á ár­inu sem lið­ið hef­ur frá hryðju­verka­árás Ham­as á Ísra­el. Fjór­tán hundruð Ísra­el­ar hafa ver­ið drepn­ir í átök­un­um, lang­flest­ir í árás­un­um þann 7. októ­ber. Sprengj­um hef­ur rignt yf­ir íbúa Gaza og rök­studd­ur grun­ur er um að stríðs­glæp­ir hafi ver­ið framd­ir.

Sprengjum rignir enn á Gazaströndinni, ári eftir hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael þann 7. október á síðasta ári. Tugþúsundir Palestínumanna hafa látist og rökstuddur grunur er um að Ísraelsher fremji stríðsglæpi í hefndaraðgerðum sínum fyrir hryðjuverkaárásina. Enn er nokkur fjöldi gísla í haldi Hamas á Gaza, sem teknir voru höndum í árás samtakanna á Ísrael fyrir ári síðan. 

2,3 milljónir manna búa á Gaza-ströndinni en landsvæðið er ekki nema um 365 ferkílómetrar að stærð. Gervihnattarmyndir sýna eyðilegginguna eftir árásir Ísraelshers, sem hefur lagt heilu hverfin í rúst, grandað aldagömlum moskum og kirkjum og eyðilagt ræktarland. Samkvæmt mati Sameinuðu þjóðanna, sem unnið er út frá gervihnattarmyndum, er rétt um fjórðungur allra bygginga á Gaza gjöreyðilagðar eða illa skemmdar. Um 66 prósent þeirra hafa verið skemmdar að einhverju leyti í árásunum, þar á meðal um 227.000 íbúðir. 

Aldrei áður hafa viðvarandi stríðsátök á Gaza varað jafn lengi og þau hafa gert nú, þó átakasaga ríkjanna tveggja spanni áratugi. Yfir 1.100 Ísraelar hafa verið drepnir á þessum tólf mánuðum, langflestir í árásunum sjálfum 7. október. Fleiri en 41.000 Palestínumenn hafa á sama tíma verið drepnir í hefndar árásum ísraelskra stjórnvalda. 

Átökin hafa færst út fyrir Gaza og Ísrael og eru nú fjölmargir óbreyttir líbanskir borgarar nú á flótta undan loftárásum Ísraelshers. Í nótt vörpuðu Ísraelar sprengjum á Beirút, höfuðborg Líbanon, í herferð sinni gegn Hezbollah, sem hafa stutt við aðgerðir Hamas með árásum á Ísrael. Tæplega fjórðungur íbúa Líbanon hefur flúið heimili sín og hafast sumir við í tjöldum, bílum eða á götunni. 1.400 hafa verið drepnir í árásum Ísraels á Líbanon. Þar að auki hafa Ísraelar og Íranir skipst á eldflauga- og loftárásum. 

Ekki sér fyrir endann á átökunum en yfirlýst markmið ísraelskra ráðamanna er að uppræta Hamas. Liðsmenn þeirra halda áfram að berjast og virðast langan veg frá því að gefast upp. Í nótt skutu Hamasliðar flugskeytum á Tel Aviv, höfuðborg Ísraels, á sama tíma og forseti landsins, Isaac Herzog, hóf minningarathöfn um árás samtakanna fyrir sléttu ári. 

Innan Ísraels virðist víðtækur stuðningur við aðgerðir stjórnvalda gegn íbúum Gazastrandarinnar. Þó er tekist á um hvar áherslunar ættu að liggja og hvaða markmið ætti að hafa að leiðarljósi. Stór hópur Ísraela er þannig óánægður með að stjórnvöld skuli ekki leggja harðar að sér að frelsa þá Ísraela sem enn eru fangar Hamas eftir hryðjuverkaárásina, frekar en að setja allt púður í að útrýma liðsmönnum samtakanna. Sextíu og þrír gíslar eru enn í haldi Hamas á Gaza af þeim 251 sem teknir voru í hryðjuverkaárásinni 7. Október. Sextíu og þrír eru látnir en 117 hefur verið sleppt úr haldi. 

Ísraelsk stjórnvöld njóta stuðnings víða á Vesturlöndum og hafa Bandaríkin heitið því að standa með Ísrael í átökunum uns yfir líkur. Samkvæmt þarlendum fjölmiðlum, hafa bandarísk stjórnvöld varið jafnvirði 2.510 milljarða íslenskra króna í beinan stuðning við aðgerðir Ísraela.

Kjósa
3
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár