Þessi grein birtist fyrir rúmlega 2 mánuðum.

Enginn tekur ábyrgð á slysi sem leiddi til kvalafulls dauðdaga

Dæt­ur manns sem lést eft­ir að 60 kílóa hurð féll inni í her­bergi hans á hjúkr­un­ar­heim­ili segja óvið­un­andi að eng­inn hafi tek­ið ábyrgð á slys­inu og að föð­ur þeirra hafi ver­ið kennt um at­vik­ið. Önn­ur eins hurð hafði losn­að áð­ur en slys­ið varð en eng­in frek­ari hætta var tal­in vera af hurð­un­um. Það reynd­ist röng trú. Kon­urn­ar kröfð­ust bóta en rík­is­lög­mað­ur vís­aði kröfu þeirra frá. Þær vilja segja sögu föð­ur síns til þess að vekja at­hygli á lök­um að­bún­aði aldr­aðra á Ís­landi.

Enginn tekur ábyrgð á slysi sem leiddi til kvalafulls dauðdaga
Systur Þrjár af fjórum dætrum Guðmundar, þær Alda, Harpa og Ingunn Hulda, vilja segja sögu föður síns til þess að vekja athygli á aðbúnaði aldraðra. Mynd: Golli

Tveimur vikum áður en Guðmundur Ívarsson lést gekk hann metrana 200 frá hjúkrunarheimilinu Ljósheimum á Selfossi yfir á hjúkrunarheimilið Móberg með göngugrind á undan sér. Þótt hann væri orðinn 92 ára og hafi mætt sínum heilsubrestum yfir ævina var heilsan ágæt, hann var enda mikill heilsupostuli, þoldi ekki sykur og hvítt hveiti, bakaði sitt brauð og hjólaði lengi vel um Selfoss.

Dætur Guðmundar voru því alls ekki að búast við því að einungis tveimur vikum síðar myndu þær þurfa að kveðja föður sinn sárkvalinn þar sem hann lá á hjúkrunarheimilinu. En þannig endaði ævi hans. Það hefði þó ekki þurft að fara svo. Dætur hans telja að mögulegt hefði verið að afstýra slysinu sem dró hann til dauða. Önnur eins hurð hafði losnað, en ekki fallið, áður en slysið varð á Guðmundi, en engin frekari hætta var talin á því að hurðir myndu losna. Þá kvartaði ein dætranna undan stífri rennihurð í herbergi hans í tvígang við starfsfólk. Það var þessi hurð sem að lokum spilaði stórt hlutverk í andláti Guðmundar.

Eftir reynsluna velta dætur hans fyrir sér aðbúnaði aldraðra og því hvort ekki hefði allt farið í háaloft ef ung manneskja hefði orðið fyrir sambærilegu slysi í húsnæði þar sem öryggi hennar ætti að vera tryggt.

Á röltinuGuðmundur sést hér ganga frá Ljósheimum yfir á Móberg.

Aðdragandinn: Sá strax að eitthvað væri að hurðinni

Það var um vorið árið 2022 sem Guðmundur, þá 92 ára gamall, mjaðmarbrotnaði og þurfti að leita á sjúkrahús. Hann hafði fram að því verið fremur heilsuhraustur – ein af fjórum dætrum hans hafði meira að segja sumarið áður komið að honum bröltandi uppi á þaki í einhverjum viðgerðum – og jafnaði sig ágætlega á mjaðmarbrotinu en þó ekki nógu vel til þess að komast aftur heim í kjölfarið. Hann fór því í hvíldarinnlögn á hjúkrunarheimilið Ljósheima, sem staðsett er á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

„Það var eitthvað að hurðinni“
Alda Guðmundsdóttir

Þó að heilsan hafi ekki alltaf verið fullkomin – Guðmundur hafði upplifað ósæðarþrengsli, hjartabilun og krabbamein sem hann losnaði við 20 árum fyrr – var hann sannarlega ekki farlama þegar hann lagðist inn og var ekkert sérstaklega sáttur við tilhögunina enda vanur að standa á eigin fótum fram að því.

Hann hafði unnið langt fram á áttræðisaldurinn sem sjálfstæður verktaki hjá Vegagerðinni, rak sinn vörubíl og gröfu og gerði við það sem þurfti.

„Hann hætti ekki að keyra vörubílinn fyrr en hann var að verða áttræður, við þurftum að segja honum: „Nú þarft þú að fara að slaka á“,“ rifjar Ingunn Hulda, dóttir Guðmundar, upp.

60 kíló
þyngd hurðarflekans

Þegar nýtt hjúkrunarheimili opnaði hinum megin við götuna síðar um haustið 2022 sáu dætur hans það í hillingum og sóttu um fyrir föður sinn. „Það var allt svo fallegt og nýtt,“ segir Ingunn.

Þeim varð að ósk sinni. Guðmundur flutti inn á nýja hjúkrunarheimilið, sem þótti svo fallegt að það hlaut fyrir það verðlaun, um miðjan októbermánuð. Herbergjunum var lýst sem hálfgerðum svítum í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Enginn annar hafði nokkurn tímann búið í herberginu sem Guðmundur fékk úthlutað og starfsfólkið var jafnframt að stíga sín fyrstu skref í nýja húsakostinum. Það hafði sína ókosti og kvörtuðu systurnar í fyrsta lagi yfir því að enginn tæki ábyrgð á að hlaða heyrnartæki Guðmundar – með þeim afleiðingum að hann heyrði illa og jafnvel alls ekki og starfsfólk ýjaði stundum að því að hann væri heilabilaður sem hann var ekki, að sögn dætranna. Í öðru lagi segjast þær hafa kvartað yfir því að hurðin að herbergi Guðmundar og hurðin inn á baðherbergið, sem var aðgengileg inn af herberginu, væri stíf.

„Þegar við komum að heimsækja hann fyrst tókum við eftir því að það átti eftir að skipta um pumpu á hurðinni inn í herbergið, hann gat ekki opnað hana og lokað henni sjálfur. Hún var allt of stíf. Svo var eitthvað að uppsetningunni á rennihurðinni inn á salerni, það var ekki hægt að renna henni eðlilega. Hún hökti einhvern veginn,“ segir Alda, dóttir Guðmundar.

Kjósa
37
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár