„Við erum að leika rússneska rúllettu með plánetuna okkar“

„Plán­et­an okk­ar er að reyna að segja okk­ur eitt­hvað. En við virð­umst ekki hlusta,“ seg­ir fram­kvæmda­stjóri Sam­ein­uðu þjóð­anna. Hann hvet­ur ríki heims til að banna aug­lýs­ing­ar olíu­fyr­ir­tækja.

„Við erum að leika rússneska rúllettu með plánetuna okkar“
Ekki orð um loftslagsmál António Guterres hvatti þjóðarleiðtoga til að ákveða hvorum megin átakalínunnar þeir ætli að vera og taka afstöðu. Alþingi var sett í vikunni. Í stefnuræðu sinni minntist forsætisráðherra ekki á loftslagsbreytingar. Mynd: Golli

Í þrettán mánuði í röð hafa hitamet verið slegin í hverjum mánuðinum á fætur öðrum. Júní síðastliðinn var heitari en nokkur annar júnímánuður frá upphafi mælinga. Maí í ár sömuleiðis. Og sömu sögu er að segja um heilt ár þar á undan. „Við erum að leika rússneska rúllettu með plánetuna okkar. Við verðum að finna afrein út af þessari hraðbraut til loftslagshelvítis.“

António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, var ekki að spara stóru orðin í eldræðu þeirri sem hann hélt á Jarðardeginum í ár. „Plánetan okkar er að reyna að segja okkur eitthvað. En við virðumst ekki hlusta,“ sagði hann um nýjustu fréttir af síendurteknum hitametum. „Við erum ekki aðeins í hættu,“ hélt hann áfram. „Við erum hættan.“

Ekki seinna en straxGuterres segir öllu skipta hvernig ríki heims bregðast við á næstu átján mánuðum. Svo nærri er vendipunkturinn í loftslagsmálunum.

Markmið Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun innan við 1,5 gráðum frá því sem var fyrir iðnbyltingu hanga á bláþræði. Því á sama tíma og þrýst hefur verið á ríki heims að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hefur hún haldið áfram að aukast. Um heilt prósent í fyrra. Á hverju ári er nú um 40 milljörðum tonna af lofttegundum sem hafa áhrif til hlýnunar jarðar bætt út í andrúmsloftið.

Samkvæmt allra nýjustu greiningum fremstu loftslagsvísindamanna heims mun langtímahitastig jarðar hækka umfram 1,5 gráðurnar þegar 200 milljarðar tonna af CO2 hafa bæst við. „Það er hámarksmagn af koltvíoxíði sem andrúmsloft jarðar getur tekið við ef við eigum að eiga nokkurn möguleika á því að standast markmiðin,“ sagði Guterres. Það þýðir einfaldlega að með sama áframhaldi verður farið yfir þann múr fyrir árið 2030. Til að forðast það þyrfti að draga úr losun um 9 prósent á hverju ári. Losun síðustu ára bendir langt í frá til þess að slíkt verði raunin.

„Sannleikurinn er því sá,“ sagði Guterres, „að baráttan fyrir 1,5 gráðunum mun vinnast eða tapast á yfirstandandi áratug – á vakt leiðtoga heimsins í dag.“

Guterres fór því næst yfir muninn á því að halda hækkun meðalhita innan við 1,5 gráðum eða tveggja gráða. Og hann er talinn vera stórkostlegur. Framtíð eyríkja og strandsvæða veltur á því hvort verður ofan á. Sömuleiðis framtíð íshellunnar á Grænlandi, kóralrifja hitabeltisins, sífrera heimskautaslóða og Labradorstraumsins en breytingar á honum myndu auka enn frekar á breytingar á veðurfari í Evrópu.

Þegar er farið að gæta margvíslegra afleiðinga loftslagsbreytinga af mannavöldum. Og það hefur truflað framleiðslukeðjur og ógnar fæðuöryggi. Loftslagsbreytingum fylgir orðið gríðarlegur kostnaður sem leggst fyrst og fremst á almenning. „Á sama tíma þá rakar guðfaðir loftslagsneyðarinnar – olíuiðnaðurinn – inn methagnaði,“ sagði Guterres.

Varaði við vafasömum aðgerðum

Hann minnti á að skógar jarðar, votlendi og hafið hefðu þá einstöku eiginleika að gleypa í sig koltvíoxíð úr andrúmsloftinu. Þessi vistkerfi yrði að vernda. Sprenging hefði orðið í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum og margvíslegar tækniframfarir til sem geta hjálpað til við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Guterres varaði hins vegar við vafasömum aðferðum til kolefnisjöfnunar sem draga úr trausti almennings og gera lítið sem ekkert til að hjálpa loftslaginu. „Við getum ekki blekkt náttúruna,“ sagði hann. „Falskar lausnir munu koma í bakið á okkur.“

Þegar hitinn rísEyríki á borð við Maldiv-eyjur munu heyra sögunni til ef meðalhiti á jörðinni hækkar um tvær gráður eða meira miðað við hitastig fyrir iðnbyltingu.

Hann hvatti vísindamenn og verkfræðinga til að þróa öruggar og sjálfbærar aðferðir til að fanga og geyma koltvíoxíð en slíkt ætti aðeins að vera síðasta úrræði fyrir þungaiðnað. „En höfum eitt á hreinu: Slík tækni er engin töfralausn. Hún getur aldrei komið í staðinn fyrir hraðan og mikinn samdrátt í losun og ekki verið afsökun til þess að hægja á orkuskiptum.“

Ríkasta eitt prósent jarðarbúa losar jafnmikið og tveir þriðju hlutar alls mannkyns, benti Guterres á. Og tuttugu efnamestu ríki heims bera ábyrgð 80 prósent allrar losunar.

„Við verðum að horfast í augu við jarðefnaeldsneytisiðnaðinn sem hefur sýnt miskunnarlausan ákafa í að hindra framfarir í áratugi,“ sagði hann. „Milljarðar dollara hafa verið notaðir til að afbaka sannleikann, blekkja almenning og sá efasemdafræjum.“

Grænþvottur

Í fyrra settu olíufyrirtæki aðeins um 2,5 prósent af fjármagni sínu til þróunar á hreinum orkugjöfum. Mörg þeirra hafi svo „skammlaust“ stundað grænþvott með hagsmunagæslu, hótunum um lögsóknir og miklum markaðsherferðum.

Margar ríkisstjórnir hafa bannað auglýsingar á vörum sem eru skaðlegar heilsu fólks. „Ég hvet hvert einasta ríki heims til að banna auglýsingar olíufyrirtækja og ég hvet fjölmiðla og tæknifyrirtæki til að hætta að birta auglýsingar á jarðefnaeldsneyti.“

En, sagði Guterres að lokum, með sameiginlegu átaki almennings gegn „mengunarvöldum og gróðaöflum“ myndi nást árangur.

Og tímabært væri fyrir þjóðarleiðtoga að ákveða hvorum megin átakalínanna þeir ætli að vera.

Kjósa
21
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Loftslagsvá

Andrúmsloftinu sama hvort koltvíoxíð losni á Ítalíu eða Íslandi
FréttirLoftslagsvá

And­rúms­loft­inu sama hvort kolt­víoxíð losni á Ítal­íu eða Ís­landi

Ál­ver­in á Ís­landi losa jafn­mik­ið af gróð­ur­húsaloft­teg­und­um og vega­sam­göng­ur og fiski­skipa­flot­inn sam­an­lagt. Það er hins veg­ar „lít­ið að frétta“ af að­ferð­um sem minnka þá los­un, seg­ir sér­fræð­ing­ur hjá Um­hverf­is­stofn­un. En senn fer að þrengja að mögu­leik­um til kaupa á los­un­ar­heim­ild­um. Og sam­hliða eykst þrýst­ing­ur á að bregð­ast við.
Samdráttur í samfélagslosun en samt erum við í mínus
FréttirLoftslagsvá

Sam­drátt­ur í sam­fé­lags­los­un en samt er­um við í mín­us

Hvernig okk­ur tekst til við að draga úr los­un gróð­ur­húsaloft­teg­unda er ekki að­eins um­hverf­is­mál held­ur stór fjár­hags­leg spurn­ing, seg­ir sér­fræð­ing­ur hjá Um­hverf­is­stofn­un. Við eig­um langt í land með að ná settu marki og spurn­ing­in er: Ætl­um við að eyða pen­ing­um í að draga úr los­un eða ætl­um við að borga fyr­ir um­fram los­un? Sá verð­miði gæti orð­ið svim­andi hár.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár