Það er mikil áskorun að gefa út bækur núna. Salan á nýjum bókum í prentuðu formi hefur dregist mjög mikið saman og hratt,“ segir Sigþrúður Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Forlagsins í viðtali við Heimildina. „Þessi þróun hefur gerst hratt.“
Þá berst talið að áhrifum þess að lög um endurgreiðslu vegna útgáfu bóka á íslensku tóku gildi – til þess ætluð að efla bókaútgáfu með því að styðja við bókaútgefendur með endurgreiðslu á hluta útgáfukostnaðar. Sigþrúður segir endurgreiðsluna hafa skipt sköpum á undanförnum árum eftir að sala á prentuðum bókum fór að dragast saman. Þá vó hún upp á móti og gerði að verkum að áfram var hægt að gefa út metnaðarfullar bækur.
„Annað tekjumódel fyrir útgefendur og höfunda“
Af tilviljun opnaði hún nýlega á að giska tíu ára gamlan sölulista og segir að sláandi munur hafi verið á söluhæstu bókunum þá og nú. Þáttur í dvínandi sölu er hljóðbókavæðingin. „Lesturinn hefur auðvitað að einhverju leyti flust yfir í hljóðbækur, mest á ýmiss konar léttum bókmenntum og afþreyingu en líka öðru efni. Þetta þýðir allt annað tekjumódel fyrir útgefendur og höfunda. Þetta er breyting sem er að gerast alls staðar í kringum okkur og útgefendur eiga mjög erfitt með að stýra. En við reynum auðvitað að láta þróunina ganga upp, bæði fyrir okkur og aðra sem að verkunum koma. Við erum að læra á þetta.“
Sigþrúður segir söluna á skáldsögum fyrir jólin til dæmis hafa minnkað mjög mikið: „ ... frá því að ég hóf störf í bókaútgáfu, sem þýðir að það er erfiðara að taka áhættu. Færri bækur draga vagninn.“ Hún tekur fram að salan hafi verið farin að dala mikið áður en hljóðbækurnar tóku flugið hér á landi svo það sé ekki eina skýringin. „ Og talsvert af hlustuninni hefði líklega aldrei skilað sér í lestri. Að sumu leyti er tvennt ólíkt að lesa á pappír og hlusta, og margir telja að hópurinn sem hlustar hafi ekki endilega lesið mikið áður en hljóðbækur urðu svona aðgengilegar, en það er erfitt að vita fyrir víst.“
„Það er mikil áskorun að gefa út bækur núna. Salan á nýjum bókum í prentuðu formi hefur dregist mjög mikið saman og hratt,“
„Staðan væri skelfileg“
Sigþrúður telur að án endurgreiðslunnar núna væri staðan skelfileg. Nýlega hafi verið tekin saman skýrsla á vegum Menningar- og viðskiptaráðuneytisins um áhrif þessara laga sem sýni ótvírætt: „að án endurgreiðslunnar hefði útgáfa íslenskra bóka sennilega hrunið.“
Þess í stað kom í ljós að útgáfan hafði eflst á sumum sviðum þau þrjú ár sem fyrirkomulagið hafði verið við lýði. „Einkum útgáfa á íslenskum skáldverkum og barnabókum. Sama samantekt leiddi hins vegar í ljós að þýðingum fækkar og sala á þeim stendur alls ekki undir kostnaði. Og það er auðvitað ekki gott fyrir örmarkað eins og okkar. Við þurfum að fá þýðingar, helst frá sem fjölbreyttustum svæðum.“
Grunnurinn að tungumálinu og viðfangi þess
Sigþrúður áréttar að endurgreiðslan sé ekki kostnaðarsöm í samanburði við sambærilegan stuðning við aðrar listgreinar, ekki síst kvikmyndaiðnaðinn.
„Miðað við hvað bókmenntir eru mikil undirstaða undir annað og um leið rótin að sjálfsmynd okkar. Og auðvitað grunnurinn að tungumálinu og viðfangi þess, segir hún og bendir auk þess á afleidd störf, þar sem margir komi að gerð hverrar bókar: „ ... hönnuðir, sölufólk, þeir sem sjá um framleiðslu framleiðslu, bóksalar og svo framvegis.“
Hún segir Forlagið ekki vaxa í þeim skilningi að útgáfubókum fjölgi. Markaður sé að dragast saman og þá sé ekki hægt að gefa út endalaust af bókum. Forlagið standi samt styrkum fótum og ráði við flókin verkefni.
„Við þurfum samt alltaf að vera á tánum til að staðna ekki, rétt eins og allir útgefendur alls staðar í heiminum. Það er dýrt að gefa út bók sem enginn vill kaupa.“
Forlagið er langstærsta bókaútgáfa landsins en það er ekki sjálfgefið að slíkur rekstur gangi vel. „Bókaútgáfa hér á landi hefur í gegnum tíðina notið sérkennilega lítilla styrkja miðað við hvað umhverfið er krefjandi. Hvað við erum að gefa út fyrir ofboðslega lítið málsamfélag. Þegar salan fór að dragast saman var mjög erfitt að láta útgáfuna bera sig. Það er enginn sem grípur okkur ef við eyðum um efni fram.“
„Bæði höfundar og útgefendur þurfa opinberan stuðning, við þurfum að fjárfesta í menningunni og tungumálinu.”
„Íslenskan er örtungumál í útrýmingarhættu”
Í svipaðan streng tekur formaður Rithöfundasambands Íslands, Margrét Tryggvadóttir, aðspurð um vægi endurgreiðslnakerfisins: „Endurgreiðslurnar eru mikilvægur stuðningur til bókmennta og bókaútgáfu á Íslandi eins og annar opinber stuðningur. Íslenskan er örtungumál í útrýmingarhættu og við getum ekki látið markaðslögmálunum það eftir að ráða örlögum hennar. Við þurfum að geta notað tungumálið á öllum sviðum mannlífsins og öflug bókmenning skiptir þar höfuðmáli. Bæði höfundar og útgefendur þurfa opinberan stuðning, við þurfum að fjárfesta í menningunni og tungumálinu.”
Sigþrúður leggur jafnframt áherslu á mikilvægi bókaútgáfu fyrir tungumálið. „Þetta er okkar tungumál. Ef við ætlum að tjá okkur um alla mögulega hluti verðum við að gera það á því tungumáli sem við kunnum best. Og ef við ætlum að halda tungumálinu lifandi verðum við að skrifa á því.”
Athugasemdir