Ein besta ákvörðun sem Guðni Th. Jóhannesson hefur tekið sem forseti er að hætta. Allt bendir til þess að honum hafi verið stætt á að sitja áfram, rúmlega átta af hverjum tíu landsmönnum lýsa ánægju með störf hans og forsetinn mælist með mikið traust á meðal þjóðarinnar. Þegar Guðni tók við embætti forseta Íslands var hann sá yngsti sem það hafði gert, á enn nóg eftir af sínum starfsferli, en ætlar að gegna þessari stöðu skemur en forverar sínir.
Kjör Guðna var tákn um nýja tíma og brotthvarf hans endurspeglar það. Að baki er átta ára tímabil þar sem þjóðarleiðtogi lét ekki stýrast af eigin egói, heldur einlægum vilja til að gera gagn. Þótt lífið hafi hagað því þannig að hann komst óvænt í eitt æðsta embætti þjóðarinnar þá varð hann aldrei holdgervingur valdsins.
Þegar hjartað ræður för
Einkenni góðra leiðtoga er getan til að forgangsraða hagsmunum heildarinnar fram yfir persónulegan ávinning, frægð eða frama, en það krefst þess að leggja eigið egó til hliðar. Það er það sem Guðni hefur gert. Tónninn var settur strax í upphafi, en á fyrstu dögum í embætti varð hann fyrsti forseti Íslands til að ávarpa Hinsegin daga. Mánuði síðar urðu honum á mistök þegar hann sendi landsliðsmönnum í körfubolta hvatningarorð og ávarpaði íslenskan leikmann með dökkan húðlit á ensku. Í stað þess að fara í vörn vegna opinberrar umræðu um málið baðst Guðni strax afsökunar og lofaði yfirbót. Það var einnig á fyrsta starfsárinu sem kjararáð hækkaði kjör þingmanna, ráðherra og forseta, langt umfram almennar launahækkanir. Guðni gat ekki haft áhrif á þá ákvörðun en ákvað að láta eigin launahækkun renna til góðgerðarmála.
Guðni hefur komið fram eins og hann er klæddur, í mislitum sokkum, með buff á höfði. Hann hefur lagt áherslu á að vera málsvari þeirra sem minna mega sín í samfélaginu, varið hagsmuni heildarinnar og talað fyrir heilbrigðu gildismati. Og tekið afstöðu þegar honum hefur misboðið. „Auðvitað ofbauð mér eins og öllu fólki sem á þetta hlustaði,“ sagði hann til dæmis um Klaustursmálið. „Orðfærið, virðingarleysið, sjálfsupphafningin. Þetta er ekki leiðin til þess að auka traust manna á Alþingi, að viðhafa svona orðfæri sem er til merkis um einhvern undirliggjandi vanda. Manni ofbauð. Það er ekkert flóknara en það.“ Skömmu eftir afhjúpanir á mútugreiðslum Samherja í Namibíu sagði Guðni: „Ýmsar sögur eru til af erlendum stórrisum, sem hösluðu sér völl á nýjum stað og fóru offari, léku innfædda grátt, með blekkingum, svikum og mútum,“ og bætti við: „Þannig framferði er auðvitað óverjandi.“
Hann hefur verið mannlegur, gert mistök, axlað á því ábyrgð og reynt að draga af því lærdóm. Þá skipti engu hvort mistökin voru léttvæg, eins og þegar hann hvatti fólk til að vera ekki fávitar og misbauð einhverjum með því. Eða alvarlegri eins og þegar hann þurfti að horfast í augu við brotaþola manna sem höfðu fengið uppreist æru. Þá lagði hann við hlustir, meðtók gagnrýnina og baðst afsökunar, bæði opinberlega og á einkafundum. Enginn er óskeikull en reynslan hefur sýnt að það er ekki sjálfgefið að þjóðarleiðtogar séu fúsir til að viðurkenna mistök sín eða gangist við ábyrgð.
„Ég hef einsett mér það að láta embættið ekki stíga mér til höfuðs,“ sagði hann í viðtali við Heimildina árið 2020. „Ég hef einsett mér það að gera alltaf mitt allra besta. Og svo hef ég einsett mér að geta, þegar þessum einstaka kafla í mínu lífi lýkur, horfið á ný í þann heim sem ég var í áður og naut svo vel.“
Auðmýkt gagnvart stöðunni
Þegar hann stóð frammi fyrir spurningunni um hvort hann væri rétti maðurinn til að halda áfram á þessari vegferð eða hvort tímabært væri að hleypa öðrum að, lét hann hjartað ráða för: „Ég íhugaði vandlega að sækjast eftir stuðningi til áframhaldandi setu, eitt tímabil enn. Aftur á móti komst ég ætíð að þeirri niðurstöðu, að betra væri að láta hjartað ráða en fylgja öðrum rökum sem hljóta að vera veikari þegar allt kemur til alls,“ útskýrði hann. „Það sem réði úrslitum var hvernig ég sá fyrir mér að hlakka til hvers dags og þar að auki fannst mér ég vera búinn að skila góðu verki.“
Til lengri tíma litið vill hann frekar geta litið glaður um öxl en að sitja of lengi á röngum forsendum. „Ég er ekki þannig gerður að ég haldi að allt standi og falli hér á Bessastöðum og í samfélaginu með mér sjálfum.“
Viðhorfið felur í sér auðmýkt og virðingu. Sömu auðmýkt og hefur verið einkennandi fyrir forsetatíð Guðna, sem hefur verið þjónandi leiðtogi, með sínum milda, mjúka hætti. Í stað þess að stíga sjálfur fram sem maður lausnarinnar hefur hann vísað því aftur til þjóðarinnar. Aðspurður hvernig hægt sé að endurreisa traust á stjórnmálum var svarið: „Ekki búum við í þannig samfélagi að sá eða sú sem gegnir þessu embætti, segi þingmönnum fyrir verkum, ráði þá eða reki. Allt það er í valdi kjósenda. Og svo er samviskan það vald sem frjálsir menn hlýða.“
Á hverjum degi þurfi fólk að hugsa um það hvernig það geti orðið að liði. „Sérstaklega fyrir okkur sem erum í þjóðkjörnum stöðum. En ég held að það yrði ekki til framdráttar góðum málstað ef ég færi að setja mig á afskaplega háan stall hérna og segja öðrum til syndanna, en um leið leyfir maður sér að vona að fólk finni hjá sjálfu sér, hvað það hefur gert og hvernig því ber að bregðast við.“
Guðni er fyrst og fremst fræðimaður. Hann er forseti, en sér sig ekki sem forsetann – með greini, þann eina sanna. Þetta er ekki maður sem lítur svo á að það sé mikilvægt að hann, og einmitt hann, gegni þessari stöðu. Þvert á móti hefur Guðni með orðum sínum og gjörðum hafnað hugmyndinni um hinn sterka leiðtoga. Og gerir það enn á ný með þessari ákvörðun.
Á endanum er það svo að þeir sem kunna að fara með vald geta líka afsalað sér því. Sú list er ekki öllum gefin. Þvert á móti höfum við ítrekað horft upp á ráðamenn sitja allt of lengi í valdastöðum. Fólk sem hefur smám saman misst sjónar á því að það er við völd vegna þess að því var treyst til þess að þjóna þjóðinni, og farið að líta svo á að valdið sé þeirra, ætlað þeim.
Forsetinn sem vildi ekki fara
Forveri Guðna féll í þá gryfju. Eftir 20 ára forsetaferil tókst Ólafi Ragnari Grímssyni afar illa að yfirgefa embættið, eini forsetinn sem hefur hætt við að hætta. Ekki aðeins einu sinni, heldur tvisvar, með tilvísun í eigið mikilvægi.
Honum átti þó eftir að snúast hugur. Í mars var hann kominn að þeirri niðurstöðu að honum væri ekki stætt á öðru en að sitja áfram. Vísaði hann til óvissu með stjórnskipan lýðveldis, stöðu flokkakerfis og forsetans. Hann útilokaði hins vegar ekki að hætta á miðju kjörtímabili. „Þegar óvissunni verður eytt, vonandi fljótlega, á næstu misserum eða innan örfárra ára, að þá muni þjóðin sýna því skilning ef að ég tel þá rétt, líka með tilliti til þessara röksemda sem beitt er nú, að ég hverfi þá til annarra starfa áður en að kjörtímabilinu er lokið,“ sagði hann í viðtali við Stöð 2 þann 4. mars 2012, en þvertók síðar fyrir að hafa ætlað sér að hætta áður en kjörtímabilinu lyki. „Ég hef aldrei sagt það.“ Hann gekk svo langt að saka mótframbjóðanda sinn um áróður gegn sér. Þegar gengið var á hann, með útprentuðu afriti af fréttinni, þar sem hann sakaði eiginmann mótframbjóðanda um óheilindi, sagði forsetinn við blaðamanninn: „Ef þú sérð það ekki sjálf þá get ég ekki læknað þig.“
„Forveri Guðna féll í þá gryfju. Eftir 20 ára forsetaferil tókst Ólafi Ragnari Grímssyni afar illa að yfirgefa embættið, eini forsetinn sem hefur hætt við að hætta“
Fjórum árum síðar endurtók sama sagan sig. Á nýársdag kvaðst hann ætla að hætta, en í apríl var hann hættur við. „Í kjölfar nýliðinna atburða hefur fjöldi fólks víða að úr þjóðfélaginu á undanförnum vikum höfðað til skyldu minnar, reynslu og ábyrgðar,“ útskýrði hann þegar hann hætti aftur við að hætta sem forseti. Vísaði hann til þess að fólk hefði: „Hvatt til þess að ég gefi á ný kost á mér til embættis forseta Íslands, standi áfram vaktina með fólkinu í landinu. Eftir atburði síðustu vikna og í ljósi óvissunnar fram undan hefur sú alda þrýstings orðið æði þung.“
Til að skýra þessa miklu óvissu sem krafðist þess að hann sæti áfram á Bessastöðum benti hann á að myndun ríkisstjórnar gæti reynst erfið og flókin, „og sambúð þings og þjóðar þrungin spennu“. Ríkisstjórnin hafði fallið í kjölfar afhjúpana á Panamaskjölunum, sem leiddu í ljós að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, þar á meðal Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, áttu aflandsfélög í skattaskjólum. „Menn segja að einhvers staðar verði að vera kjölfesta og reynsla.“
Andstæðan við auðmýkt felst í því að líta svo á að þú einn sért sú kjölfesta sem þjóðin þarfnast. Í stað þess að stíga frá með reisn urðu örlög Ólafs Ragnars sú að hrökklast frá í miðri kosningabaráttu, forsetinn sem hætti við að hætta við að hætta.
Örvæntingarfull barátta fyrir völdum
Eitt er að telja sig eiga tilkall til valda, annað að vera tilbúinn til að gera hvað sem er til að viðhalda völdum. Atburðarásin sem leiddi til þess að skorað var á Guðna að bjóða sig fram til forseta, er eftirminnileg, einmitt fyrir þær sakir að þar tókust menn á í örvæntingarfullri tilraun til að halda völdum. Hlutverk Guðna var að varpa ljósi á atburðarás þar sem forsætisráðherra var á hlaupum undan þjóð sinni, i tilraun til að rjúfa þing án samráðs við nokkurn nema sjálfan sig.
Á Bessastöðum stöðvaði Ólafur Ragnar fyrirætlanir hans og synjaði honum um þá beiðni. Sama dag sögðu samflokksmenn Sigmundar Davíðs á Alþingi ljóst að hann myndi hætta sem forsætisráðherra. Sigurður Ingi Jóhannsson tilkynnti síðan um afsögn forsætisráðherra og greindi frá því um leið að sjálfur myndi hann taka við þeirri stöðu, að því gefnu að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, samþykkti að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram á þeim forsendum.
Sjálfur var Bjarni einn þeirra sem afhjúpaðir voru í Panamaskjölunum, en hélt sig erlendis og fjarri sviðsljósinu á meðan reiðialda samfélagsins skall á ríkisstjórninni.
Bjarni vann, Sigmundur Davíð tapaði. En hélt áfram að reyna. Síðar sama kvöld sendi hann yfirlýsingu á erlenda fjölmiðla um að hann hefði ekki sagt af sér sem forsætisráðherra. Yfirlýsingin vakti óvissu um stjórn landsins, en aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs áréttaði að sú tilhögun að Sigurður Ingi væri forsætisráðherra væri aðeins hugsuð til „lengri eða skemmri tíma“.
Eins og Sigmundur Davíð ætti rétt á því að stíga aftur inn í forsætisráðuneytið þegar hentaði. Sama viðhorf birtist seinna í yfirlýsingu Sigríðar Andersen sem sagðist aðeins ætla að víkja tímabundið úr stóli dómsmálaráðherra. En þegar ráðherra segir af sér vegna spillingarmála þá á hann ekkert frekara tilkall til stöðunnar.
Í atburðarrásinni sem leiddi til stjórnarslita árið 2016 tókust á menn með stór egó. Forsætisráðherrann sem vildi ekki afsala sér völdum, fjármálaráðherrann sem sá tækifærið og forsetinn sem leit svo á að hann væri ómissandi vegna málsins.
Að hausti var boðað til kosninga. Bjarni Benediktsson varð forsætisráðherra og leiddi ríkisstjórn sem sprakk ári síðar vegna spillingarmála.
Í kjölfarið tók hann sæti í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir og hefur verið við völd síðan. Lengst af sem fjármálaráðherra, en þegar hann þurfti að segja sig frá fjármálaráðuneytinu vegna misnotkunar á valdi færði hann sig einfaldlega yfir í utanríkisráðuneytið. Og þegar Katrín ákvað að yfirgefa forsætisráðuneytið fyrir forsetaframboð þá tók hann sæti hennar.
Þannig varð óvinsælasti stjórnmálamaður landsins forsætisráðherra. Aftur.
Maðurinn sem hefur aldrei verið við völd án þess að upp komi spillingar- eða hneykslismál. En hefur einhvern einstakan hæfileika til að snúa vonlausri stöðu upp í sigur - fyrir sjálfan sig. Og stendur nú í klæðskerasaumuðum jakkafötum, skælbrosandi framan í heiminn þótt undirskriftir hrannist inn gegn honum. Á rúmum sólarhring höfðu um 35 þúsund skrifað undir yfirlýsingu þess efnis að Bjarni njóti ekki þeirra stuðnings í forsætisráðuneytinu. En hingað til hefur Bjarni ekki látið mótmæli á sig fá. Þvert á móti virðist honum vera slétt sama um hvað öðrum finnst eða hvaða fordæmi hann setur, svo lengi sem hann er við völd.
Sá stjórnmálamaður sem Íslendingar treysta síst allra.
Forsætisráðherra í framboð til forseta
Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin stöðugt verið að færa siðferðisleg mörk hins mögulega til. Það sem einu sinni þótti óhugsandi er nú raunveruleiki.
Ríkisstjórnin hefur heldur aldrei verið eins óvinsæl eins og síðustu mánuði, frá því að hún var mynduð árið 2017. Hún er jafnvel óvinsælli en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var í kjölfar uppljóstrana úr Panamaskjölunum.
Í þessu andrúmslofti ákvað forsætisráðherra að bjóða sig fram sem forseta.
Átta er eru liðin frá því að Katrín var sá einstaklingur sem fólk vildi helst fá sem forseta. Enda hefur hún allt til að bera til að verða góður forseti. Eiginleikar hennar henta þessu embætti afar vel; getan til að miðla málum, halda ró í erfiðum aðstæðum og ræða af yfirvegun um menn og málefni. Hún hefur mælskuna, framkonuna og gáfurnar til að sinna skyldum forseta svo vel sé. Reynsluna, tengslin og kjörþokkann. Katrín er jafnvel betri forseti en forsætisráðherra. Margir hafa líka lýst því yfir að það geti vel hugsað sér að kjósa hana sem forseta þótt þeir séu ósáttir við framgöngu hennar sem forsætisráðherra. Öfugt við flesta samstarfsmenn sína í ríkisstjórn hefur Katrín enn töluvert persónufylgi. Fylgi flokksins sem hún leiddi hefur hins vegar hrunið, sem og stuðningur við ríkisstjórnina.
„Skýrasta birtingarmynd þess er kannski sú að Katrín verður á biðlaunum frá ríkinu á meðan kosningabaráttunni stendur og aðstoðarmenn hennar sömuleiðis“
En Katrín ákvað að taka ekki slaginn og fara í forsetaframboð fyrir átta árum síðan, heldur endaði fræðimaðurinn hófstillti á Bessastöðum.
Katrín ákvað heldur að leiða ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Þeirri ákvörðun fylgir ábyrgð. Heimspekingurinn Þorvaldur Logason sem menntaður er í spillingarfræðum og gaf nýlega út spillingarsögu Eimreiðarelítunnar sagði einfaldlega: „Enginn ber jafnmikla ábyrgð gagnvart þjóðinni og forsætisráðherra, leiðtogi ríkisstjórnarinnar,“ í pistli þar sem ákvörðun Katrínar var gagnrýnd.
Í þeirri umræðu hefur einnig verið bent á að Katrín hafi gjarnan vikið sér undan þeirri ábyrgð. „Hún er bókstaflega búin að gera það að listgrein að svara ekki spurningum um málefni sem ríkisstjórnin hefur tekist á við,“ sagði heimspekingurinn Henry Alexander Henrysson á dögunum.
„Líta má á spillingu sem misnotkun opinbers umboðs í eigin þágu," hélt Þorvaldur áfram. „Forsætisráðherranum ber að halda í heiðri skyldur sínar gagnvart þjóðinni, samstarfsflokkum og eigin flokksmönnum – og virða þær skyldur umfram eigin hagsmuni og starfsframa.“ Þess vegna mætti líta á framboð Katrínar sem misnotkun á opinberu valdi, þegar hún setur stjórn landsins í uppnám fyrir forsetaframboð.
Túlkun Þorvaldar á stöðunni er umdeild, en í aðdraganda forsetakosninga er umræðan farin að snúast um réttmæti þess að sitjandi forsætisráðherra gefi kost á sér sem forseta eða ekki, óháð því hversu frambærileg Katrín er.
„Íslendingum hættir til að líta á ákvarðanir valdastéttarinnar út frá einstaklingshyggju,“ skrifar Þorvaldur: „Í stað þess að hugsa siðferðilega um skyldur opinberra aðila gagnvart samfélaginu.“
Mitt á milli magans og hjartans
Með forsetaframboði Katrínar gerist annað tveggja: Katrín er laus undan allri ábyrgð sem fylgir gjörðum hennar á vettvangi stjórnmála, eða ríkisstjórnarsamstarfið fylgir hennar áfram inn í kosningabaráttuna og á Bessastaði, ef hún endar þar.
Nú þegar hefur reyndar orðið samsláttur á þessum ólíku hlutverkum, vegna þess að hún tilkynnti framboð sitt á meðan hún var enn starfandi forsætisráðherra. Til stóð að hún yrði á biðlaunum frá forsætisráðuneytinu á meðan kosningabaráttunni stendur, en hún hvarf frá þeirri ákvörðun í dag. Aðstoðarmenn hennar sömuleiðis.
„Hlutverk forsætisráðherra er einstakt og miklir hagsmunir almennings í húfi. Katrín hefur þurft að fara í gegnum mjög sterka sjálfskoðun hvort hennar eigin persónulegi metnaður sé farinn að stangast á við aðra og mikilvægari hagsmuni,“ benti Henry Alexander á.
„Mér finnst þetta skrítið. Fæ ónotatilfinningu við tilhugsunina um að sitjandi forsætisráðherra bjóði sig fram til forseta. Og samt er núverandi forsætisráðherra hin geðþekkasta manneskja. En af hverju þá? Af hverju þessi ónot ef ekki beinlínis hneykslan,“ skrifaði leikarinn og leikstjórinn Benedikt Erlingsson, sem rýndi í tilfinninguna sem sat einhvers staðar á milli magans og hjartans. „Hver er hugsjónin að baki því að stíga út stóli forsætisráðherra og vilja heldur vera valdalítill forseti með málskotsrétt, fá mikið hoss en hafa takmarkaða ábyrgð,“ spurði hann. „Ef maður á að bera saman þessi tvö embætti þá er það ótvírætt að sá sem vill þjóna landi og þjóð og gera gagn er í miklu betri stöðu til þess sem forsætisráðherra heldur en forseti.“
Það er heilbrigt og skiljanlegt að eftir tuttugu ár í framlínu stjórnmála vilji Katrín snúa sér að öðrum verkum.
En „hefur núverandi forsætisráðherra einhverju að miðla til okkar sem predikari? Einhverju sem hún hefur ekki náð að koma til skila í sinni háu valdastöðu síðasta áratuginn?“
Spurning um lýðræðisleg gildi
Forseti Íslands á að vera verndari lýðræðisins.
Hlutverk hans felst meðal annars í því að tryggja valddreifingu og veita ríkisstjórninni aðhald. En þegar sitjandi forsætisráðherra fer í forsetaframboð og verður jafnvel forseti - eins og allt bendir til þess að Katrín muni gera - þá er í það minnta ásýnd hlutleysis horfin.
Katrín hefur lýst því yfir að hún treysti sér til að gæta að jafnræði og halda hlutleysi gagnvart ríkisstjórn sem hún myndaði og flokknum sem hún stýrði fram í síðustu viku. En það væri varla mannlegt ef svo sterk tengsl hefðu engin áhrif, eða væru í það minnsta til þess fallin að vekja upp tortryggni gagnvart erfiðum ákvörðunum. Arfleifð Katrínar sem forsætisráðherra er mikil. Það er ekki hægt að afmá merkingu þess alls með því að setjast á Bessastaði.
Í ljósi þess, þótt ekki nema bara fyrir prinsippið, hefði farið betur á því að leyfa málum að lenda og tímanum að líða.
Líklega mun í lengsta lagi taka tvö til þrjú ár fyrir Katrínu að öðlast annan sess í huga þjóðarinnar. Kannski verður allt gleymt um leið og hún tekur við embætti - ef svo fer, og forsætisráðherrann Bjarni Benediktsson óskar nýjum forseta til hamingju. Um leið verður búið að færa mörkin til, enn einu sinni.
Framundan er nýtt upphaf. Í það minnsta hjá Guðna forseta, sem hefur lýst því yfir að hann hlakki til að hverfa aftur til fræðistarfa eða snúa sér jafnvel að framleiðslu sjónvarpsþátta.
Það felst mikill styrkur í því að þekkja vitjunartíma sinn og yfirgefa valdastöðu á eigin forsendum.
Lífið er nefnilega fullt af tækifærum.
Athugasemdir (5)