Söngur Sama
Mikil áhrif Hreindýrahirðirinn John Kristian Jama lítur út í átt að vindmyllum í Storheia vindgarðinum, einum stærsta vindgarði Evrópu á landi, í sveitarfélaginu Afjord í Noregi þann 7. desember 2021. Mynd: Mynd: Jonathan NACKSTRAND / AFP
Þessi grein birtist fyrir rúmlega 8 mánuðum.

Söngur Sama

Áhrif vind­myll­u­garða á líf og menn­ingu Sama í Nor­egi.

Sápmi fyrir Sama!“ hljóma lokaorð ljóðsins Sámi soga lávlla (sem þýða má á íslensku sem Söngur Sama). Ljóðið var samið af Isak Saba, fyrsta samíska þingmanni Noregs, árið 1906 og vísar texti þess til þeirrar baráttu sem Samar hafa háð fyrir varðveislu menningararfleifðar sinnar og lifnaðarháttum í heimalandi sínu, Sápmi. Ljóðið er í dag þjóðsöngur allrar samísku þjóðarinnar. 

Tengsl Sama við umhverfið og landsins gæði 

Samar eru frumbyggjaþjóð sem er að megninu til búsett á því svæði sem kallast Fennóskandía og nær til norðurhluta Noregs, Svíþjóðar og Finnlands ásamt hluta af Kólaskaga í Rússlandi. Heimaland Sama kallast Sápmi og spannar það um 400.000 ferkílómetra, sem er um það bil fjórum sinnum stærð Íslands. Engin opinber skráning er til um íbúafjölda Sápmi en samtals eru Samar líklega á bilinu 75.000 til 100.000 talsins. Samar rekja búsetu sína á svæðinu aftur um árþúsund en talið er að forfeður þeirra hafi verið hirðingjar sem komu fyrst til Fennóskandíu við lok síðustu ísaldar, eða fyrir um 11.000 árum. Samfélag Sama í Fennóskandíu skiptist upp í mörg menningarlega og félagslega ólík samfélagsbrot sem hvert hefur sína sérstöðu hvað varðar hefðir, siði og tungumál. Þó eru sumar venjur og hugmyndir sem sameina flest, ef ekki öll, samísk samfélög og má þar til að mynda nefna tengsl Sama við náttúruna og umhverfi sitt. Virðing gagnvart umhverfinu er meðal grunngilda samískra samfélaga og er mikilvægi landsins og auðlinda þess fyrir líf og menningu Sama óumdeilanlegt. Samísk samfélög hafa til að mynda löngum stundað hjarðbúskap með hreindýr á svæðinu og nýta mörg þeirra þannig landsins gæði sér til lífsviðurværis. 

Óréttlæti gagnvart Sömum af hálfu norskra yfirvalda 

Samar og Norðmenn eiga sér langa sögu sambúðar á því svæði sem í dag tilheyrir Noregi. Sú sambúð hefur þó oft og tíðum einkennst af yfirlætissemi og grimmd norskra stjórnvalda gagnvart Sömum. Má þar helst nefna hina svokölluðu norskuvæðingu samískra samfélaga sem hófst um miðja 19. öld og var ekki formlega afnumin fyrr en seint á fimmta áratug síðustu aldar. Norskuvæðingin var opinber aðlögunarstefna norska ríkisins sem snerist fyrst og fremst um að gera Sama að „sönnum“ Norðmönnum og aðlaga þannig samísk samfélög að þeim norsku. Samar voru látnir taka upp norska tungu og menningu og í raun lifa að mestu leyti líkt og Norðmenn. Jafnframt var þeim bannað að tala sín samísku tungumál og iðka ákveðna samíska siði. Dæmi eru um að börn Sama hafi verið tekin frá fjölskyldum sínum og sett í fóstur til norskra fjölskyldna með það að markmiði að þau lærðu norska tungumálið og ælust upp innan um norska menningu. Þrátt fyrir að yfirvöld í Noregi hafi opinberlega lagt niður aðlögunarstefnu sína fyrir um 70 árum má enn gæta áhrifa hennar og afleiðinga fyrir samísk samfélög í Noregi og finna Samar enn í dag fyrir fordómum og vanvirðingu í sinn garð. Ein birtingarmynd þess óréttlætis eru þau áhrif sem uppbygging vindmyllugarða í Noregi hafa haft á líf og menningu Sama þar í landi. 

Áhrif vindmyllugarða á samfélög Sama í Noregi 

Uppbygging Øyfjellet vindmyllugarðsins nálægt bænum Mosjøen í Nordland-fylki Noregs er dæmi um vindmyllugarð sem hefur haft, og hefur enn, neikvæð áhrif á líf Sama, einkum og sér í lagi hjarðbúskap þeirra með hreindýr. Vindmyllugarðurinn, sem samanstendur af 71 vindmyllu á um 40 ferkílómetra landsvæði, er staðsettur í miðju beitarlandi og mikilvægri farleið hreindýrahjarðar suður-samíska samfélagsins Jillen Njaarke, sem stundað hefur hjarðbúskap á svæðinu frá því á 17. öld. Strax við upphaf leyfisveitingarferilsins lýstu Jillen Njaarke-Samar yfir áhyggjum sínum af því að uppbygging vindmyllugarðsins myndi hafa slæmar afleiðingar í för með sér fyrir búskap þeirra og brjóta þar af leiðandi í bága við rétt þeirra til að viðhalda samískri menningu sinni. Þegar norska olíu- og orkumálaráðuneytið gaf sitt leyfi fyrir verkefninu árið 2016 var það með því skilyrði að hafnar yrðu viðræður við Jillen Njaarke-samfélagið og að komist yrði að samkomulagi. Í dag, eftir að uppbyggingu vindmyllugarðsins er lokið og vindmyllurnar hafa verið teknar í notkun, hefur ekki enn náðst samkomulag milli framkvæmdaaðila og Jillen Njaarke-samfélagsins.

„Vindmyllugarðurinn, sem samanstendur af 71 vindmyllu á um 40 ferkílómetra landsvæði, er staðsettur í miðju beitarlandi og mikilvægri farleið hreindýrahjarðar“

Annað dæmi um uppbyggingu vindmyllugarða sem haft hefur neikvæð áhrif á líf Sama er Fosen Vind-verkefnið á Fosen-skaganum í Trøndelag-fylki Noregs. Verkefnið samanstendur af uppbyggingu sex aðskilinna vindmyllugarða og er eitt það stærsta sinnar gerðar í Evrópu. Líkt og með Øyfjellet-vindmyllugarðinn eru tveir vindmyllugarðar Fosen-verkefnisins, Roan og Storheia, staðsettir innan mikilvægra beitarlanda og farleiða hreindýrahjarða samísku samfélaganna Sør-Fosen og Nord-Fosen. Samar komu því fljótt á framfæri við norsk yfirvöld að framkvæmdirnar myndu brjóta á lagalegum rétti þeirra til að njóta eigin menningar. Þeirri staðhæfingu var hins vegar hafnað af olíu- og orkumálaráðuneyti Noregs árið 2013 og í kjölfarið var málið lagt fyrir hæstarétt Noregs. Þrátt fyrir að málið væri í ferli innan dómstólakerfisins fengu framkvæmdaaðilar samt sem áður leyfi til að hefja uppbyggingu vindmyllanna sem voru tilbúnar til notkunar á áætluðum tíma árið 2020. Í áliti sínu á málinu leit hæstiréttur Noregs fyrst og fremst til þess hvort uppbygging Roan og Storheia-vindmyllugarðanna bryti í bága við réttindi hreindýrahirða samkvæmt ákvæði 27. greinar alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Í ákvæðinu er kveðið á um að einstaklingum sem tilheyra þjóðernis-, trúar- eða tungumálaminnihlutahópi skuli ekki meinað að framfylgja rétti sínum til að njóta eigin menningar. Það er óumdeilanlegt að hreindýrabúskapur Sama er vernduð menningararfleifð og því, í október 2021, dæmdi hæstiréttur Noregs leyfið fyrir uppbyggingu áðurnefndra vindmyllugarða ógilt. Þegar hæstiréttur gaf út úrskurð sinn í málinu voru vindmyllur Roan og Storheia-garðanna hins vegar þegar komnar í gang og þar sem ekki var mælt fyrir um sérstakar aðgerðir í úrskurði hæstaréttar eru vindmyllugarðarnir tveir enn í dag starfandi. 

ÓréttlætiSissel Stormo Holtan situr við hlið hreindýrs fyrir utan heimili sitt í Namdalseid, sem er hluti af Troendelag-fylki í Noregi, 7. desember 2021.

Noregur er lýðræðisríki sem einkennist af traustu velferðarkerfi, félagslegum jöfnuði, öflugri almannaþjónustu og almennri inngildingu ólíkra samfélagshópa. Í því skyni búa Samar yfir ákveðnum stjórnarskrárbundnum réttindum sem frumbyggjar Noregs og þá hafa norsk yfirvöld einnig tekið upp og innleitt ýmsar alþjóðlegar samþykktir og reglugerðir er varða réttindi frumbyggja. Noregur var til að mynda fyrsta ríkið í heiminum til að innleiða 169. samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem fjallar um frumbyggja og ættflokka í sjálfstæðum ríkjum. Þá var Noregur einnig meðal þeirra ríkja sem samþykktu yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbyggja árið 2007. Réttindi og sjálfsákvörðunarréttur Sama í Noregi nýtur því ítarlegrar lagalegrar verndar en þrátt fyrir það virðast möguleikar samískra samfélaga til pólitískra áhrifa, enn sem komið er, ófullnægjandi. Það er til að mynda ljóst að þegar kemur að leyfisveitingum fyrir uppbyggingu vindmyllugarða innan þeirra landsvæða sem samísk samfélög nýta til hreindýrabúskapar hafa réttindi Sama ítrekað verið brotin og álit þeirra hunsað. Í bæði Fosen og Øyfjellet-málunum höfðu vindorkufyrirtækin fengið samþykki fyrir uppbyggingu vindmyllugarðanna umræddu áður en gildi leyfisins var tekið fyrir innan réttarkerfisins, áhrif þeirra á líf og menningu Sama voru athuguð til hlítar og samþykki fékkst frá þeim samísku samfélögum er málin vörðuðu. 

Mikilvægi inngildingar minnihlutahópa 

Inngilding minnihlutahópa, sérstaklega í ferli mála er þá varða, er nauðsynleg fyrir varðveislu ólíkra menningararfleifða sem og jafnrétti í samfélaginu almennt. Inngilding samískra samfélaga í leyfisveitingaferli og uppbyggingu vindmyllugarðanna þriggja var ófullnægjandi. Ekki var tekið mark á þeirri gagnrýni sem Samar komu á framfæri og áhyggjur þeirra af mögulegum neikvæðum áhrifum á samísk samfélög voru ekki virtar viðlits. Framkoma stjórnvalda og framkvæmdaaðila í garð samískra samfélaga í Noregi í tengslum við uppbyggingu títtnefndra vindmyllugarða grefur undan þeirri baráttu sem Samar hafa háð fyrir tilverurétti sínum á svæðinu. Það er von höfundar að sú barátta muni að endingu öðlast þá viðurkenningu sem hún á skilið, að inngilding samískra samfélaga, sem og annarra minnihlutahópa um heim allan, í ákvarðanatökuferli mála verði fullnægjandi og að Sápmi verði í raun fyrir Sama.


Þessi pistill er útdráttur úr BA-ritgerð höfundar sem fjallar um áhrif vindmyllugarða á líf og menningu Sama í Noregi út frá hugmyndum hreyfinga loftslagsréttlætis, gagnrýninna kynþáttakenninga og eftirlendustefnu.

 

Kjósa
21
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.

Mest lesið undanfarið ár