Þegar haft var samband við mig um að skrifa um það sem ég hef lært (af lífinu) var ég fljót að segja já, var nýbúin að lesa svo skemmtilegan pistil í þessum flokki og þóttist nú aldeilis sjálf vera búin að læra margt og geta skrifað um það. En eftir því sem frá leið þá fannst mér að sá lærdómur sem ég hefði tileinkað mér yrði minni og minni og eftir nokkra daga fannst mér að hann væri enginn.
En loforð er loforð og ég dró upp úr lærdómsbankanum tilvitnun sem hefur oft gagnast mér, „besta leiðin til að ljúka verki er að byrja“, og aðra sem ég heyrði fyrst hjá föður mínum, að „besta leiðin til að borða fíl er að byrja á að fá sér einn bita“.
Þannig ég ákvað að setjast niður og byrja; ég hlyti að finna eitthvað sem ég hefði lært og gæti deilt með lesendum. Niðurstaðan mín var að það mikilvægasta sem ég hef lært er að það sem ég læri þarf ég oftast að rifja upp aftur og aftur og jafnframt að ég fæ aftur og aftur tækifæri til að æfa mig. Lærdómurinn felst í framför en ekki fullkomnun. Hér eru nokkur dæmi úr lífsreynslubankanum.
Gera ekki of mikið
Eitt af því sem ég þarf að æfa mig stöðugt í er að gera ekki of mikið. Það er svo gaman í lífinu og svo ótal margt hægt að gera að mig svimar oft og tíðum af öllu því sem ég vil, þarf og langar til. Of oft hef ég tekið að mér of mikið og lent í því að vera ekki lengur að njóta heldur bara að þjóta. En öllu verra er að ég hef tvisvar sinnum greinst með krabbamein, sem betur fer snemma í ferlinu í báðum tilvikum, en í bæði skiptin eftir mikla vinnutörn. Ekki að ég haldi að allir sem vinni mikið fái krabbamein – en það virðist vera eitthvert samhengi þar á milli hjá mér.
„Annað sem ég hef lært en þarf endurtekna áminningu um er að sleppa og treysta“
Þannig að núna, orðin einbrjósta, er ég komin í hálfa vinnu og hef verið í nokkur ár og stefni á að hætta launavinnu (að mestu) fyrir lok ársins. Ég er heppin að geta gert það þó ég þurfi að draga saman seglin þegar launaseðlar hætta að berast og lífeyrisgreiðslur koma í staðinn. En þrátt fyrir að ég hætti launavinnu þá eru ótal verkefni sem mig dreymir um að vinna að og ég verð áfram að passa mig að ætla mér ekki of mikið og muna að njóta en ekki þjóta; semsagt – framför en ekki fullkomnun.
Sleppa og treysta
Annað sem ég hef lært en þarf endurtekna áminningu um er að sleppa og treysta. Allt of oft þá held ég að ég hafi svörin við öllu og lendi svo í vandræðum með að aðrir eru ekki sammála eða hafa önnur svör eða að það eru andstæðir hagsmunir sem engin leið er að samræma. Þá hef ég lært að oft er eina svarið að sleppa og treysta.
Eldskírnin hjá mér í þessu var þegar eiginmaðurinn fékk vinnu erlendis og unglingurinn (17 að verða 18) vildi ekki flytja með okkur út. Átti ég að flytja með eiginmanninum sem vildi mjög gjarnan að ég flytti með eða vera eftir hjá unglingnum sem vildi helst ekkert af mér vita (en mér fannst auðvitað að það væri engin leið fyrir hann að spjara sig án mín)? Vinnulega var valið líka flókið; ég var í góðri stöðu sem ég hafði gaman af og vildi halda en sá líka möguleika, ef ég flytti út, á að fara í doktorsnám sem ég hafði haft hug á í langan tíma.
Niðurstaðan var að ég ákvað að sleppa og treysta – sleppa tökunum á unglingnum, treysta að hann myndi spjara sig í kjallaranum hjá afa og ömmu og að við myndum ná saman síðar. Og það varð raunin, unglingurinn lauk stúdentsprófi og kom út til okkar í háskólanám og við urðum samstúdentar um tíma, ég lauk doktorsprófi og sonurinn heimspekigráðu. Aukagróðinn af þessu var að unglingurinn tengdist afa sínum og ömmu böndum sem annars hefðu ekki orðið jafnsterk. Þarna lærði ég að sleppa og treysta. En svo er kúnstin að muna þessa lexíu og beita henni á aðrar aðstæður.
„En svo er kúnstin að muna þessa lexíu og beita henni á aðrar aðstæður“
Að gleðjast og njóta
Að lokum er það sem ég lærði af móður minni; að gleðjast yfir og njóta þess smáa í tilverunni sem er oft þegar upp er staðið ekki svo smátt. Hún hafði húmor fyrir því skrítna og skondna í hversdeginum og ég hef reynt að temja mér það. Gleðjast yfir fréttum af fyrstu lóunni, njóta hverrar sundferðar í hverfislauginni, gluggaveðursins, kátínu og fjöri ömmustelpnanna, fyrsta tebollans á morgnana, lautarferða og gönguferða í nágrenninu og allra hinna daglegu örgleðigjafanna. Bæði á björtum og dimmum dögum.
Athugasemdir