Það tekur lögreglu allt að tólf mánuði að fá upplýsingar um notendur reikninga frá samfélagsmiðlafyrirtækjum eins og Snapchat. Í júlí í fyrra var óskað eftir upplýsingum frá Snapchat um notanda sem var að senda ellefu ára stúlku kynferðislegt efni. Sex mánuðum síðar bárust svör og í kjölfarið var maður á fimmtugsaldri handtekinn. Þetta er meðal þess sem kemur fram í hlaðvarpsþáttaröðinni „Á vettvangi“ sem Jóhannes Kr. Kristjánsson hefur unnið fyrir Heimildina, en Jóhannes hefur síðan í byrjun febrúar verið á vettvangi með kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og kynnt sér starfsemi deildarinnar. Fyrsti þáttur fer í loftið á Heimildinni þann 22. apríl.
Rafræn gögn koma við sögu í langflestum kynferðisbrotamálum sem berast kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Símagögn og myndefni á tölvum fara til rannsóknar á tölvurannsóknardeild en til að ná rafrænum gögnum sem tengjast samfélagsmiðlum þarf að fara í tímafrekt lagatæknilegt ferli. „Við byrjum á því að senda út svokallaða varðveislubeiðni og með því erum við að tryggja sönnunargögn,“ segir Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar LRH, en auk þess að tryggja sönnunargögnin skiptir máli að lögregla fái þau í hendur beint frá fyrirtækjunum. „Við þurfum að fá grunngögnin ómenguð. Það getur hver sem er komið með skjámynd til okkar og sagt að skjámyndin sýni að það hafi verið brotið gegn sér eða að skjámyndin sýni að viðkomandi hafi ekki brotið gegn neinum. En það gæti verið búið að eiga við gögnin og þess vegna þurfum við þau ómenguð beint frá samfélagsmiðlafyrirtækjunum,“ segir Ævar Pálmi.
Eftir að búið er að tryggja sönnunargögn með varðveislubeiðni er næsta skref að óska eftir upplýsingum um hver sé á bak við notandanafnið á samfélagsmiðlinum. Þá þarf að útbúa ítarlega réttarbeiðni sem lögfræðingar á ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu skrifa. „Við sendum réttarbeiðnina á dómsmálaráðuneytið og þau eru í samskiptum við dómsmálayfirvöld í hinu ríkinu og svo er beiðnin send út,“ segir Hildur Sunna Pálmadóttir, aðstoðarsaksóknari á ákærusviði LRH. Í mörgum tilfellum er óskað eftir frekari upplýsingum frá ákærusviðinu og allt gerist það með formlegum hætti. „Áður en réttarbeiðnin fer til Snapchat eru kannski liðnir 2 til 3 mánuðir og þau eru ekki liðleg. Þetta tekur frá hálfu ári og upp í ár og þá erum við bara að bíða á meðan,“ segir Hildur Sunna.
Brot gegn barni hraðar afgreiðslu
Ef grunur leikur á kynferðisbroti gegn barni og barnið sé talið í hættu segir Ævar Pálmi að Snapchat bregðist þá hraðar við beiðnum um upplýsingar. „Þá loka þeir jafnvel reikningnum strax og afhenda upplýsingar um notanda fyrr. Samfélagsmiðillinn bregst þá hraðar við ef við metum það svo að barn sé í hættu og jafnvel að verið sé að brjóta á því og við fáum upplýsingar um notendur fyrr. Þær upplýsingar notum við til að bregðast strax við og finna geranda,“ segir Ævar Pálmi en stundum þarf að ganga lengra til að fá upplýsingar um þá sem leynast á bak við notendanöfnin. „Ef netfang er einungis á bak við notandanafnið þá þurfum við að kalla eftir upplýsingum frá til dæmis Google til að komast að notandanum á bak við netfangið sem er á bak við reikninginn.“
Sex mánaða bið eftir svörum
Í mars í fyrra kom móðir 11 ára stúlku á lögreglustöðina við Hverfisgötu til að kæra kynferðisleg samskipti dóttur sinnar við óþekktan einstakling í gegnum Snapchat. Skýrslutaka yfir stúlkunni fór fram í Barnahúsi og í júlí var réttarbeiðni send til Snapchat.
Í desember bárust upplýsingar um símanúmer og netfang sem var á bak við Snapchat aðganginn. „Við byrjuðum þá að leita okkur áfram hér á landi og skoða hvort þetta sé örugglega þessi maður, hvort hann eigi börn og tékka af alla möguleika. Þegar við vorum búnir að leita af okkur allan grun þá fórum við fram á húsleitarúrskurð og fórum í framhaldinu í húsleit og handtókum manninn sem var á fimmtugsaldri,“ segir Fjölnir Sæmundsson, rannsóknarlögreglumaður á kynferðisbrotadeildinni, sem fékk málið til rannsóknar en húsleitin fór fram um miðjan febrúar á þessu ári.
Gefast ekki upp
Það er þekkt að notuð séu tímabundin netföng og símanúmer til að virkja aðgang á samfélagsmiðlum sem ætlaðir eru til verka sem þola ekki dagsljósið. Fjölnir segir lögregluna ganga hart eftir því að finna upplýsingar um notendurna. „Það á að vera hægt að rekja slóðina og þetta sýnir að við erum ekki hætt þótt við fáum ekki svarið í næsta mánuði. Við gefumst ekki upp og á meðan við bíðum eftir svörum þá fer málið upp í hillu hjá hinum málunum þar til svör berast og þá förum við á fullt,“ segir Fjölnir.
Meta, móðurfyrirtæki Facebook, er með útibú á Írlandi og Ævar Pálmi segir að þaðan berist upplýsingar hraðar en frá Snapchat. Heilt yfir sé þetta tímafrekt ferli og bandarísk stjórnvöld fái mikinn fjölda réttarbeiðna frá löggæsluyfirvöldum hvaðanæva að úr heiminum. „Ég held að það verði alltaf áskorun því það er alltaf verið að tryggja öryggi notenda því 99 prósent fólks er að nota þessa miðla með löglegum og eðlilegum hætti,“ segir Ævar og er með skilaboð til foreldra. „Hætturnar leynast víða og samfélagsmiðlarnir geta verið ungum krökkum hættulegur vettvangur þar sem þau geta komist í kynni við fólk sem hefur margt misjafnt í huga. Í mínum huga er mikilvægt fyrir foreldra að vita hvað börnin eru að gera á netinu, við hverja þau eru að tala og hverjir eru að nálgast þau þarna.“
Athugasemdir