Þessi grein birtist fyrir rúmlega 10 mánuðum.

Ætlar ekki í kónga- eða drottningaleik

Bald­ur Þór­halls­son ætl­ar ekki að fara í kónga- eða drottn­inga­leik á Bessa­stöð­um, verði hann kjör­inn for­seti. Það yrðu heims­tíð­indi nái hann kjöri og verði þar með fyrsti þjóð­kjörni op­in­ber­lega sam­kyn­hneigði for­set­inn í heim­in­um. En það er ekki ein­göngu þess vegna sem Bald­ur býð­ur sig fram.

Það er vorjafndægur og alþjóðlegur dagur hamingjunnar. Þetta er líka dagurinn sem Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, tilkynnir framboð til forseta Íslands. 

Valgeir Magnússon, Valli sport, tekur á móti forvitnum gestum sem hafa lagt leið sína í Bæjarbíó í Hafnarfirði til að heyra „Baldur og Felix opinbera ákvörðun sína“. Það er einmitt yfirskrift fundarins. 

„Hvað á ég að segja, gleðilega hátíð?“ sagði fundargestur þegar hann heilsaði. En þetta var ekki eins og hefðbundinn fundur. Það var einhver hátíðarbragur á öllu saman. Í bland við gott partí. Þegar Valli sport var búinn að bjóða gesti velkomna tóku hjónin Gunnar Helgason og Björk Jakobsdóttir við. Rúmar tvær vikur eru síðan Gunni stofnaði stuðningshóp á Facebook, Baldur og Felix – Alla leið, sem telur nú yfir 21 þúsund manns. Og nú var komið að þessu. „Það hefur bara myndast bylgja. Við áttum ekki von á þessu,“ segir Gunni, en allt byrjaði þetta á nýársdag þegar hjónin voru stödd í afmæli hjá Felix Bergssyni. Þar skoraði Gunni á vin sinn og samstarfsfélaga til margra ára að bjóða sig fram til forseta þegar ljóst var að Guðni Th. Jóhannesson ætlaði að láta gott heita. „Hann bara hló og leit á Baldur og það kom smá skrýtinn svipur á Baldur,“ segir Gunni. Tveimur vikum seinna boðuðu Baldur og Felix til fundar á heimili þeirra þar sem möguleikinn á forsetaframboði var ræddur af alvöru. „Það var eitthvað þegar Baldur byrjaði að tala, ég fékk bara svona: Já! Mig langar í svona forseta,“ segir Björk og Gunni tekur undir. „Ég líka. Ég hef aldrei verið svona peppaður. Ég hef aldrei farið inn í kosningabaráttu, aldrei nokkurn tíma, aldrei haft áhuga á því, fyrr en þarna. Hann verður besti forsetinn.“

Felix kynnti eiginmann sinn á svið, sem hann hefur varið helmingi ævinnar með. „Þetta eru bestu 28 ár ævi minnar. Og hann er hér í dag.“ Allir í salnum risu á fætur og klöppuðu. Baldur steig á svið og það mátti greina örlítið stress í fasi, eðlilega kannski. Hann þakkaði fyrir trúna og hvatninguna. Síðustu vikur hefur hann talað um mikilvægi þess að hlusta á raddir fólksins. „Við ætlum að svara kallinu hátt og skýrt og taka slaginn,“ sagði Baldur og salurinn klappaði aftur. 

Voru næstum hættir við

„Þetta er hálf óraunverulegt. Ég hef ekki séð mig í þessu hlutverki, sem forsetaframbjóðandi, við Felix höfum ekki séð okkur í þessu hlutverki. Ég viðurkenni að þetta er erfið ákvörðun, við höfum verið mjög feimnir gagnvart þessu,“ sagði Baldur við blaðakonu Heimildarinnar að fundinum loknum. En þeir voru næstum því hættir við fyrir fjórum vikum, það viðurkennir Felix. Eldræða sem Árni Freyr Magnússon, tengdasonur þeirra og eiginmaður Álfrúnar Perlu Baldursdóttur, hélt yfir þeim um mikilvægi þess að Baldur færi fram gerði það að verkum að Felix sá fyrir sér að framboðið gæti raungerst. „Það var þarna þegar Árni Freyr húðskammaði okkur fyrir að vera svona latir sem ég gerði mér grein fyrir að þetta væri að fara að gerast.“

Athyglinni sem fylgir framboðinu mun taka sinn tíma að venjast segir Baldur og það verða mikil viðbrigði ef Baldur og Felix fara alla leið á Bessastaði. „Við Felix höfum enga þörf fyrir að trana okkur sjálfum fram. Menn eiga ekki að fara í drottninga- eða kóngaleiki á Bessastöðum. Ég er algjörlega á móti því. Ég vildi að það yrði málefnalegur grundvöllur fyrir framboðinu og líka að það væri víðtækur stuðningur.“ Nú er það staðan.  

Framboðið hefur áhrif á dagleg störf Felix hjá Ríkisútvarpinu. „Ég er búinn að stimpla mig út, að minnsta kosti næstu tvo mánuði, svo fer það eftir því hvernig kosningarnar fara hver næstu skref verða. Og ég verð ekki í forgrunni í Eurovision. Það er bara frábært fólk sem tekur við þeim kyndli. Ég fer ekki með til Malmö.“

„En hvað verður um Gunna og Felix?“ er ein spurninganna sem heyra mátti í Bæjarbíó og Felix hlær góðlátlega. „Það er stóra spurningin. Við erum bókaðir fullt í sumar og ég held að þær bókanir verði bara virtar, við ætlum að fara á náttúrubarnahátíð á Ströndum og ýmislegt annað skemmtilegt,“ segir Felix.  

Ódauðlegt dúó

Verði Baldur kjörinn forseti verður hann fyrsti þjóðkjörni opinberlega samkynhneigði forsetinn í heiminum. „Það yrðu heimstíðindi. En það er ekki bara vegna þess sem við stígum fram, en það er ein af ástæðunum,“ segir Baldur.

„Það yrðu heimstíðindi“

Nái Baldur kjöri ætlar hann að standa vörð um þjóðina, horfa á það sem sameinar hana frekar en sundrar og standa vörð um samfélagssáttmálann. Fjölskylda Baldurs og Felix stendur þétt við bakið á þeim og það fór ekki á milli mála á fundinum í Bæjarbíó að þau eru öll í þessu saman. Guðmundur Felixson segir þau vera samheldna fjölskyldu, þannig hafi það alltaf verið. Þau eru sterk fjölskylduheild. „Við erum alltaf saman einhvern veginn. Það er bara eðlilegt að við séum svolítið með í þessu. Þeir tveir eru ódauðlegt dúó þannig manni finnst liggja beinast við að þeir fari í þetta saman, þennan pakka.“ Það yrði sterkt fyrir íslensku þjóðina að kjósa Baldur sem forseta, að mati Guðmundar. „Við erum búin að vera að upplifa mikið bakslag í hinsegin baráttunni sem mér finnst mjög skýrt að sé til staðar, sem er ótrúlega sorgleg þróun. Mér fyndist rosalega sterkt hjá okkur sem þjóð að kjósa okkur þjóðarleiðtoga sem er hinsegin.“

Kjósa
28
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Ásta Jensen skrifaði
    Hverju skiptir það að hann sé samkynhneigður?
    0
  • APA
    Axel Pétur Axelsson skrifaði
    þessi auglýsing er í boði znato&co . .
    -2
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu