Þessi grein birtist fyrir rúmlega 11 mánuðum.

Dósamatur til bjargar

Marg­ir Dan­ir brostu út í ann­að þeg­ar sænsk stjórn­völd létu, fyr­ir nokkr­um ár­um, dreifa bæk­lingi um við­brögð við kreppu eða stríði til allra heim­ila þar í landi. Dan­ir brosa ekki leng­ur að Sví­um og æ fleiri sækja nú svo­köll­uð neyð­ar­nám­skeið.

Sænsk stjórnvöld hafa árum saman hvatt íbúa landsins til að vera undir það búnir að geta ekki hlaupið út í næstu verslun og keypt í matinn þegar matmálstími nálgast. Svíum var ráðlagt að eiga ætíð geymsluþolnar matvörur, þurrmat og dósamat ásamt vatnsbirgðum sem duga myndu í að minnsta kosti viku, vasaljós og rafhlöður, og ennfremur útvarpstæki með handknúinni rafhlöðu. Sömuleiðis að eiga reiðufé sem hægt er að grípa til ef svo ber undir 

Krísubæklingurinn

Sænski krísubæklingurinn„Mikilvægar upplýsingar fyrir íbúa Svíþjóðar“

Árið 2018 létu sænsku almannavarnirnar (MSB)  dreifa 20 síðna bæklingi til allra heimila í landinu: „Om krisen eller krigen kommer“ stóð á forsíðunni og ennfremur: „Mikilvægar upplýsingar fyrir íbúa Svíþjóðar“. Þar er fjallað um hvernig landsmenn geti undirbúið sig vegna röskunar á daglegu lífi, hvort sem væri vegna náttúruhamfara, eða ef til ófriðar kæmi. Ennfremur stuttlega um varnir landsins, loftvarnabyrgi, neyðarsímanúmer, hvernig bregðast skuli við ef viðvörunarflautur fara í gang og fleira og fleira. Landsmenn eru hvattir til að kynna sér vel efni bæklingsins og ræða það við fjölskyldu og nágranna.

Viðbrögð Svía við bæklingnum voru misjöfn. Sumum þótti þetta nánast hræðsluáróður, aðrir voru ánægðir með framtakið. 

Flykktust í búðir í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu

Þótt margir Svíar hafi ekki tekið brýningar almannavarna um að vera við öllu búnir þegar þeir fengu bæklinginn inn um bréfalúguna árið 2018 breyttist það skyndilega eftir innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022. Þá flykktust Svíar í búðir og birgðu sig upp af ýmsu því sem mælt var með í bæklingnum. Danska dagblaðið Politiken sendi blaðamann yfir sundið, til Malmö til að kanna málið. Meðal þeirra sem blaðamaðurinn ræddi við var verslunarstjóri í stórri heimilis- og raftækjaverslun. Verslunarstjórinn sagði að mest hefði verið spurt um vatnsbrúsa, ferðahleðslur fyrir síma og tölvur, útvarpstæki með rafhlöðum. „Þetta kláraðist allt hjá okkur og við höfum lent í vandræðum með að útvega meira,“ sagði verslunarstjórinn.

Kona sem blaðamaðurinn ræddi við sagði að móðir sín hefði eftir að hafa fengið bæklinginn frá yfirvöldum árið 2018 komið sér upp talsverðum lager af helstu nauðsynjum „og nú er ég að birgja mig upp“. 

Blaðamaður Politiken ræddi við verslunarstjóra í tveimur stórum matvöruverslunum og þeir sögðu að sala á alls kyns dósamat hefði margfaldast og sama gilti um þurrmat af ýmsu tagi. Í vikunni eftir innrásina í Úkraínu margfaldaðist fjöldi þeirra Svía sem skoðuðu kort almannavarna um staðsetningu loftvarnabyrgja. Rétt er að nefna að þegar bæklingurinn umræddi kom út voru Svíar ekki á þeim buxunum að sækja um aðild að Nato. Það hefur nú breyst og útlit fyrir að gengið verði frá aðild þeirra á næstunni.

Hvað ef?

Þótt margir Danir hafi á sínum tíma brosað að fréttum af sænska upplýsingabæklingnum er það bros löngu stirnað. Æ meiri þungi hefur færst í umræðuna um nauðsyn þess að efla hernaðarviðbúnað Dana, rétt eins og hjá öðrum þjóðum í Evrópu. Og umræðan um að eiga neyðarbirgðir af helstu nauðsynjum hefur líka náð til almennings í Danmörku.  

Folk & Sikkerhed, sem er danskt félag áhugafólks um öryggismál og almannaheill hefur nýlega gefið út bækling, hliðstæðan sænska bæklingnum „Om krisen eller krigen kommer“. Bæklingnum sem ber yfirskriftina „Hvad nu hvis?“ hefur enn sem komið er einungis verið dreift til félagsmanna, sem eru um það bil 70 þúsund. Félagið hefur í hyggju að láta dreifa bæklingnum til allra danskra heimila. 

Lostæti?Fiskibollur í dós, kjötbollur í dós og „grænar og appelsínugular“ er á meðal þess sem Danir geta birgt sig upp af.

Byggingaverktakinn Per Bjerre er einn þeirra Dana sem lengi hafa haft áhyggjur af því hvað muni gerast ef hökt kemur í samfélagsmaskínuna. Fyrir tveimur árum sendi hann frá sér bókina „Hvis nu“, sem er einskonar leiðbeiningavísir ætlaður almenningi. „Ýmsir hafa í gegnum árin brosað að mér, þegar ég hef rætt þessi mál en þær raddir heyri ég ekki í dag,“ sagði Per Bjerre í blaðaviðtali. Hann sýndi blaðamanni „lagerinn“ eins og hann orðaði það og sagði að fjölskylda sín hefði í upphafi verið undrandi á þessu uppátæki sínu en það væri löngu liðið. „Nú segja þau að ég hafi verið framsýnn.“

Viðbúnaðarnámskeiðin

Um margra ára skeið hefur deild innan Beredskabsforbundet (samtök hliðstæð Slysavarnafélaginu Landsbjörg) boðið upp á stutt námskeið sem kalla mætti „Sjálfbjarga í þrjá sólarhringa“. Námskeiðin eru haldin víða um land og eru ókeypis. Fyrir nokkrum árum var aðsókn á þessi námskeið fremur dræm en að undanförnu hefur hún margfaldast. 

Það sem gerðist vorið 2023 á að vera víti til varnaðar

Í maí á síðasta ári gerðu tölvuþrjótar tilraun til að brjótast inn í stjórnkerfi nokkurra orkudreifingarfyrirtækja í Danmörku. Minnstu munaði að þeim tækist ætlunarverk sitt sem hefði lamað stjórnkerfi fyrirtækjanna. Þá hefðu tug- eða hundruð þúsunda Dana orðið án rafmagns, fjarvarmaveitur hefðu hætt að virka og hvorki heitt né kalt vatn streymt úr krönum. 

Rasmus Dahlberg, sem er yfirmaður Rannsóknarstofnunar öryggismála og lektor við danska herskólann sagði í viðtali við danska útvarpið, DR, að búast megi við fleiri tilraunum af þessu tagi og ekki þýði að sofa á verðinum. Og almenningur eigi að gera sínar ráðstafanir. „Ég er ekki að mála skrattann á vegginn en það er skynsamlegt að vera undir það búinn að ljósin slökkni, hitinn fari af ofnunum og ekkert vatn streymi úr krönunum,“ sagði Rasmus Dahlberg. Og bætti við að „neyðarlager í kjallaranum veitir ákveðið öryggi“.

Hér í lokin má nefna að árið 2017 voru tvisvar gerðar netárásir á bandaríska fyrirtækið UKG, sem meðal annars sér um tölvukerfi danska skipafélagsins Mærsk. Árásirnar voru mjög umfangsmiklar og tjón skipafélagsins nam um tveimur milljörðum danskra króna.

Kjósa
36
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • GV
    Grétar Vésteinsson skrifaði
    Frábært framtak hjá Sænsku MSB stofnunni Ég sá þennann bækling hjá dóttur minni í Stokkholmi. Rússnesk vinkona hennar fyllti baðkarið af vatni þegar allmannavarna flauturnar fóru i gang vegna bilunar. eins og henni var sagt að gera þegar hún bjó í Moskvu. Íslensk stjórnvöld ættu að láta gera svipaðan bækling út eins og svíarnir.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu