„Pabbi, hvenær getum við spilað fótbolta á Íslandi?“
Tólf ára drengur spurði föður sinn reglulega hvenær fjölskyldan kæmist öll til Íslands. Faðir hans kom fyrstur, í leit að vernd fyrir fjölskylduna. Hann er einn af Palestínumönnunum sem hafa haldið til á Austurvelli að undanförnu, í von um áheyrn, skilning og stuðning.
„Sendu bara stóru jarðýtuna sem er að vinna við varnargarðana í Grindavík á þetta andskotans drasl,“ skrifaði íslenskur maður við færslu utanríkisráðherra, Bjarna Benediktssonar, sem sagði mótmælin „hörmung“, herða þyrfti útlendingalög, efla landamæraeftirlit og löggæslu. Athugasemd mannsins var svarað af konu sem spurði: „Ertu að vísa í það þegar slösuðum á sjúkrahúsi í Palestínu var ýtt út með jarðýtu og þau grafin lifandi?“ en ráðherrann sat þögull hjá á meðan rasísk ummæli féllu á Facebook-síðu hans.
Íslensk stjórnvöld hafa nú tekið ákvörðun um að vísa Palestínumanninum sem hér segir frá úr landi.
Eftir að Ísrael lýsti formlega yfir stríði á hendur Palestínu þann 8. október gerði hann ítrekaðar tilraunir til að koma fjölskyldunni burt af átakasvæðinu, en ekkert gekk. Og nú er það orðið of seint. Eiginkona hans og þrjú börn létust þegar sprengju var varpað á heimili þeirra. Fjórða barnið, níu ára stúlka, Nadia, slasaðist illa á höfði við árásina. Hann reyndi allt sem í hans valdi stóð til að koma henni undir læknishendur, en fékk hvergi áheyrn. Það var fyrst fjórum dögum eftir andlát hennar sem hann fékk fundarboð frá Rauða krossinum á Íslandi.
„Þetta hefur ekkert með okkur Íslendinga að gera.“ Athugasemdirnar héldu áfram að birtast við færslu utanríkisráðherra. „Heyr heyr.“
Aðrir bentu á að þegar á reyni sé ekki hægt að hugsa út frá hugmyndum um „okkur“ og hina, heldur mennsku. Til að undirstrika það hafa mótmælendur haldið því á lofti að börnin á Gaza séu börnin okkar, börn okkar allra. Okkur beri að hjálpa þeim, líkt og þau séu okkar eigin. Rétt eins og við myndum krefjast ef börnin okkar væru í sömu stöðu.
Með rauðlituðum penna: Nei
„Höfum við Íslendingar mannslíf á samviskunni?“ Þessari spurningu var varpað fram árið 1994, með tilvísun í framferði Íslendinga í útlendingamálum.
Íslenskum stjórnvöldum barst bréf frá rafvirkja sem mátti sæta ofsóknum í heimalandinu og óskaði eftir dvalarleyfi hér á landi fyrir sig og eiginkonuna. Svarið var stutt og laggott: „Nei.“ Ofsóknirnar stigmögnuðust þar til hjónin sviptu sig lífi, á heimili sínu í Berlín. Þetta var árið 1942, mitt í helför nasista gegn gyðingum.
Annar maður sem sótti um skjól á Íslandi hét Salinger. Með umsókn um dvalarleyfi fylgdu upplýsingar um námsferil hans og fyrri störf, en hann hafði barist í fremstu víglínu fyrir heimalandið og sinnt ábyrgðarstöðu í sínu fagi. Með umsókninni fylgdi framtíðarsýn, um að hann gæti séð fyrir sér að starfa við viðgerðir hér á landi. Með í för yrðu eiginkona hans og dóttir á grunnskólaaldri. En gott væri að fá svar sem fyrst, þar sem hann gæti þurft að yfirgefa Þýskaland í flýti. Með rauðlituðum penna var svarið ritað efst í hægra hornið á bréfinu: „Nei.“ Erich Salinger var síðan fluttur með „sendingu 23“ til Auschwitz þar sem hann var myrtur. Eiginkona hans og dóttir fóru með „sendingu 29“ og virðast hafa verið myrtar við komuna. Stúlkan, Steffi Salinger, var þá þrettán ára gömul.
Timburkaupmaður sem var reiprennandi á fimm tungumálum bauðst til þess að taka verksmiðjuna sína með til Íslands ef hann fengi dvalarleyfi hér fyrir sig, eiginkonuna og tvö börn. Ef Íslendingum hugnaðist það frekar gæti hann líka rekið bílasölu eða hafið píanóframleiðslu hér á landi, en „nei“. Íslendingar kærðu sig ekki um komu hans. Með „sendingu 36“ var hann fluttur til Auschwitz þar sem hans biðu sömu örlög og annarra sem hér koma við sögu.
Í sömu „sendingu“ voru nánustu fjölskyldumeðlimir fólks sem var búsett á Íslandi. Flestir voru myrtir strax, en einn endaði í Natzweiler-Struthof fangabúðunum. Nota átti beinagrindur þeirra sem þar létust í mannfræðisafn sem sýna átti „einkenni undirmálsfólks“.
Ef ekki með góðu, þá með lögregluvaldi
Maður sem var búsettur á Íslandi hafði útvegað eiginkonu sinni gilda vegabréfsáritun til Íslands en hún komst aldrei til landsins og var myrt í fangabúðum.
Gyðingum sem bjuggu hér var vísað úr landi. Alls voru sextán sendir burt. „Við vorum kölluð á lögreglustöðina,“ lýsti ein hinna brottreknu, Olga Rottberger: „Ég hafði aldrei áður verið kölluð fyrir lögreglu á ævinni. Ég man að varðstjórinn spurði mig margra áleitinna spurninga. Að lokum sagði hann við mig eftirfarandi setningu og hana man ég enn á íslensku: „Ef þér farið ekki með góðu, þá farið þér með lögregluvaldi.““
Fjölskyldunni varð til lífs að skipið sem átti að flytja hana til Þýskalands kom við í Danmörku, þar sem fjölskyldan fékk vernd. „Í Danmörku kynntist ég því í hverju það felst að vera mannlegur.“ Örlög Olgu voru önnur en flestra sem héðan voru reknir burt, og misstu lífið í fangabúðum nasista.
Íslendingar hafa þráast við að gera þennan tíma upp. Þegar Danir báðust árið 2005 afsökunar á að hafa vísað 19 gyðingum úr landi vaknaði umræðan um hvort Íslendingar myndu fylgja fordæmi þeirra. „Almennt er ég þeirrar skoðunar að menn verði að fara afar varlega í að biðjast afsökunar á atburðum sem gerðust fyrir löngu og ákvörðunum sem teknar voru í þeim tíðaranda sem ríkti hverju sinni,“ sagði þáverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson.
Með rauðlitum penna: „Nei.“
Mannúð bönnuð á Íslandi
Tíðarandinn var þó sá að hér gerði hópur fólks tilraun til að bjarga austurrískum gyðingabörnum til Íslands, en foreldrar þeirra voru flestir í fangabúðum. Íslenskur barnalæknir sem ætlaði að taka að sér þriggja ára stúlku gekk á milli ráðamanna til að fá umsóknina samþykkta. Þegar ljóst varð að íslensk stjórnvöld ætluðu sér ekki að hleypa börnunum til landsins skrifaði hún greinina: „Mannúð bönnuð á Íslandi“, sem birtist í Þjóðviljanum árið 1938.
Um ákvörðun forsætisráðherra sagði hún meðal annars: „Það sem hann þurfti að gera var að gegna skyldu sinni sem forsætisráðherra hinnar frjálslyndu íslensku þjóðar, sýna sjálfsagðan drengskap, sjálfsagða mannúð,“ en hann „lét þetta allt ógert“.
Viðbrögð við mótmælunum létu ekki á sér standa, hún var sökuð um ófrægingarherferð og lítið gert úr henni fyrir að auglýsa mannúð sína.
„Ég hefði haldið að þú byggir yfir meiri samkennd en þetta“
Í grein sem birt var í Tímanum var talið heppilegra að aðstoða íslensk börn en gyðinga, það stæði okkur „miklu nær“: „Fólk sem tekur barn til fósturs, vill heldur taka útlent barn en íslenzkt sökum þess, að það vekur meiri eftirtekt. Hins vegar er vitanlegt, að mörg börn, sem búa við óhæfileg kjör á ýmsan hátt, hafa verið og eru að alast upp hér á landi. Þessum hinum verðandi þjóðarþegnum þarf að hjálpa.“
Orðræðan minnir óþægilega á ákveðinn kima samfélagslegrar umræðu dagsins í dag. „Við getum ekki gert allt fyrir alla,“ sagði í athugasemdum við færslu utanríkisráðherrans um mótmæli Palestínumanna á Austurvelli, frá einhverjum sem vildi „hlúa fyrst og fremst að þeim sem standa okkur næst, það er að segja Grindvíkingum sem hafa misst allt sitt í hörmulegum náttúruhamförum“.
Í næstu færslu ráðherrans sagði: „Ég fór í Silfrið í gær til að ræða ýmsar áskoranir ríkisstjórnarinnar, en þar eru málefni Grindavíkur efst á blaði. Við ræddum einnig stöðu hælisleitendamála.“
Óbein tengsl, en skýr hughrif. En eins og bent var á þá útilokar eitt ekki endilega annað, hægt er að hjálpa Íslendingum í neyð og fólki á flótta undan stríðsátökum.
Þeim sem var bjargað
Á meðan helför nasista stóð leituðu hundruð gyðinga á náðir íslenskra stjórnvalda, í örvæntingarfullri tilraun til þess að sækja í skjól, en í stað þess að rétta þeim hjálparhönd héldu Íslendingar fast að sér höndum og létu sem örlög gyðinga kæmi þeim ekki við. Borið var við atvinnuleysi hér á landi, við þyrftum fyrst og fremst að hugsa um hag „okkar fólks“.
Íslensk stjórnvöld voru þó ekki algjörlega aðgerðarlaus. Þegar „íslenski böðullinn“, sonur slökkviliðsstjórans í Reykjavík, var dæmdur í 20 ára fangelsi í Noregi fyrir að koma fjölda fólks í fangabúðir nasista, beittu Íslendingar, með Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra í broddi fylkingar, pólitískum þrýstingi til að fá manninn framseldan til Íslands. Norðmenn reyndu að útskýra fyrir Íslendingum hvílík voðaverk maðurinn hefði framið, en á endanum þurfti hann aðeins að sitja 72 daga í fangelsi áður en hann var sendur aftur til Íslands, þar sem hann lifði góðu lífi.
Seinna tóku Íslendingar þátt í stofnun Ísraelsríkis, í gegnum Sameinuðu þjóðirnar. Á þeim vettvangi neituðu íslensk stjórnvöld nýlega að greiða atkvæði með tafarlausu vopnahlé í Palestínu.
Með rauðlitum penna: „Nei.“
„Ef þér farið ekki með góðu, þá farið þér með lögregluvaldi“
109 dagar
Í 109 daga hafa íbúar Palestínu, sem eru innilokaðir og komast hvergi, mátt þola linnulausar eldflauga- og loftárásir auk annarra voðaverka. Sprengjum er varpað á heilsugæslu, spítala, barnaskóla og flóttamannabúðir. Ráðist er á mannúðarstofnanir, jafnvel þótt almennir borgarar hafi leitað þar skjóls. Ráðist er á almenna borgara. Og börn.
Yfir 117 börn á hverjum einasta degi.
Sem varð til þess að Unicef kallaði hernaðaraðgerðir Ísraela „stríð gegn börnum“. Gaza er hættulegasti staðurinn á jörðinni fyrir börn í dag.
Um 250 Palestínumenn eru drepnir á dag, að meðaltali þrír læknar, tveir kennarar, einn blaðamaður og fleiri en einn starfsmaður hjálparstofnunar. 48 mæður, tvær á hverjum klukkutíma. Á fyrstu tveimur mánuðum átakanna höfðu fleiri blaðamenn verið myrtir í Palestínu en létust í seinni heimsstyrjöldinni.
Ísraelskir hermenn hafa tekið fólk af lífi án dóms og laga, í einu tilviki voru 11 karlmenn og ungir drengir úr sömu fjölskyldu skotnir fyrir framan ástvini sína.
Dánartíðni er svo há og hröð að fólk er grafið í fjöldagröfum, oft án þess að búið sé að bera kennsl á það. Um 7.800, þar af 4.700 konur og börn, eru föst undir húsarústum þar sem þau deyja hægfara dauðdaga eða rotna á götum úti. Þeir sem eftir lifa grafa ástvini sína upp með berum höndum.
Á þessu litla svæði eru tæplega tvær milljónir á vergangi, eða um 85 prósent íbúa. Um 70 þúsund íbúðarhús verið lögð í rúst og 290 þúsund til viðbótar eru töluvert illa farin. Gervihnattamyndir frá svæðinu sýna breytinguna. En ekki örvæntinguna. Lokað hefur verið á allar helstu nauðsynjar, hungursneyð ríkir, en um 90 prósent barna undir tveggja ára aldri neytir aðeins eins eða tveggja fæðuflokka, fólk er vannært og skortur á hreinu vatni leiðir til sjúkdóma og aðeins fáir spítalar eru enn starfandi, nú þegar um 60 þúsund eru slasaðir eftir árásirnar.
Í viðtali við Pressu, þjóðmálaþátt Heimildarinnar, sagði norskur læknir: „Á mínum 27 ára ferli, starfandi á stríðssvæðum, hef ég aldrei séð svona hrikalegar aðstæður.“ Flestir sem þekkja til taka undir þessi orð. „Fólk sem hefur sinnt mannúðarstörfum á stríðs- og hamfarasvæðum víða um heim, fólk sem hefur séð allt, segist aldrei hafa séð neitt í líkingu við það sem þeir sjá á Gaza í dag,“ sagði framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Lærdómur sögunnar
„Höfum við Íslendingar mannslíf á samviskunni?“
Dómur sögunnar er harður. Spurningin er svo óþægileg að það er auðvelt að hrista hana af sér, þetta var annar tími, annar tíðarandi. Ekki á okkar ábyrgð. Helförin er afstaðin og endurtekur sig vonandi aldrei.
En höfum við lært af sögunni?
Gyðingar voru sendir út í opinn dauðann. Í dag vitum við ekkert um afdrif þeirra sem vísað er á brott. Enn í dag er fólk flutt úr landi í lögreglufylgd, oftar en ekki í skjóli nætur.
Nú neitum við fólki frá Palestínu um vernd, vísum því á brott, fullorðnum karlmönnum, átta barna mæðrum og börnum. Jafnvel þegar fjölskyldusameningin fæst samþykkt fer hún ekki fram. Á meðan deyja börnin í Palestínu.
Maðurinn kallaði í örvæntingu út í tómið, eftir vernd fyrir fjölskylduna, en nú er það orðið of seint. Fjölskyldan lést í sprengjuárás.
Minnst fimm börn eru nú látin, á meðan ástvinir þeirra á Íslandi biðu eftir fjölskyldusameiningu.
Þetta er að gerast á sama tíma og Ísrael verst ásökunum um þjóðarmorð fyrir Alþjóðadómstólnum.
Á tímum helfararinnar var það ekki ákvörðun þjóðarinnar að vísa gyðingum frá, heldur valdhafa. Rétt eins og í dag, er það ekki ákvörðun þjóðarinnar að vísa Palestínumönnum á brott.
Viðbrögðin við færslu utanríkisráðherra benda til þess að meirihluti Íslendinga sé ekki samþykkur slíkum málflutningi, vilji standa vörð um mannréttindi og vera réttum megin sögunnar. „Ég hefði haldið að þú byggir yfir meiri samkennd en þetta. Fánarnir eru ekki settir upp til að móðga einn né neinn heldur til að minna á hryllinginn sem á sér stað í Palestínu og stöðu flóttafólks þaðan,“ var vinsælasta athugasemdin við færslu utanríkisráðherra um tjaldbúðir flóttamanna frá Palestínu. Hátt í 900 manns tóku undir.
Við getum lært af sögunni og sárri reynslu fyrri tíma. Við vitum nú að allar afsakanir um atvinnuleysi, innviði og neyð Íslendinga munu til óhjákvæmilega hljóma hálfhjákátlega í samanburði við hörmungarnar sem íbúar Palestínu þurfa nú að þola.
Ekkert stendur í vegi fyrir því að rétta þeim hjálparhönd.
Það er bara ákvörðun.
Þetta var faðir Önnu Frank, Ottó Frank.