Á göngu um borgina blasa við byggingar og önnur mannvirki sem bera körlum vitni, sem ýmist áttu þau, byggðu þau eða höfðu einhverja aðkomu að þeim. Framlag kvenna er ekki eins sýnilegt. Það sem þær hafa gert hefur gjarnan verið borðað, því slitið eða það notað og er ekki til lengur. Á þetta benti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir eitt sinn.
Á tíu ára tímabili, frá 1980 til 1990, gjörbreyttu íslenskar konur samfélaginu þegar þær ruddu sér leið inn í opinbert rými, sem hafði fram til þess verið ætlað körlum. Kona varð forseti og í kjölfarið spruttu fram kvennaframboð í Reykjavík og á Akureyri og loks Kvennalistinn. Konur tóku höndum saman til að berjast gegn launamisrétti með Samtökum kvenna á vinnumarkaði. Kvennakraftur færði okkur líka Kvennaráðgjöf, Kvennaathvarfið og Stígamót. Nokkrum árum síðar, 1993, var Neyðarmóttaka vegna nauðgana opnuð á Landspítalanum.
Þessar konur breyttu ekki ásýnd borgarinnar með nýju ráðhúsi eða veitingastað sem snýst ofan á hitaveitutönkum. Hallirnar sem þær reistu eru ekki öllum sýnilegar. En þær byggðu skjól fyrir brotaþola kynbundis ofbeldis. Það er gæfa fyrir þá sem á eftir koma að þegar þeir verða fyrir alvarlegum áföllum geta þeir leitað í úrræði sem grípa þá. Og á þessum árum sem nú eru liðin hafa 33.242 brotaþolar leitað til neyðarmóttöku, Stígamóta og Kvennaathvarfs.
„33.242 brotaþolar hafa leitað til neyðarmóttöku, Stígamóta og Kvennaathvarfs“
Ekkert af þessu hefði orðið ef ekki hefði verið fyrir samstöðu kvenna, fjölmenna hreyfingu kvenna sem tóku höndum saman um að gjörbreyta íslensku samfélagi, setja á dagskrá málefni sem fram að þessu höfðu ýmist legið í þagnargildi eða verið afgreidd sem kerlingarvæl, og berjast fyrir bættum hag kvenna og barna í samfélaginu. Sú barátta krafðist fórna og undir voru einstaklingar. Oftar en ekki mættu þeir miklu mótlæti á þessari vegferð.
Þegar þögnin var rofin
Stundum er talað um Ísland sem jafnréttisparadís. Þótt hægt sé að benda á að enn sé langt í land þar til raunverulegu jafnrétti verði náð, er víst að þau viðhorf sem ungar konur alast upp við í dag eru talsvert önnur en ríktu hér á landi fyrir fjörutíu árum síðan, þegar sérstaka herferð þurfti til þess að árétta það að nei þýðir víst nei, nauðgun er glæpur og þá sjaldan sem brotaþolar voru sýnilegir í íslensku samfélagi gengu þeir um klæddir svörtum kuflum frá toppi til táar. Sem betur fer.
Það er líka víst að það sem þegar hefur áunnist hefði aldrei orðið, nema vegna þess að samfélaginu bar gæfa til að eiga konur sem voru tilbúnar til þess að taka þessa slagi. Erfiða slagi, sem stundum voru nánast yfirþyrmandi, í einstaka tilfellum svo óbærilegir að konur báru þess merki um ókomna tíð.
Ein þeirra kvenna sem lagði sjálfa sig að veði og var alltaf tilbúin til að rísa upp fyrir hönd annarra, allt fram á síðasta dag, var Guðrún Jónsdóttir, fyrsti félagsráðgjafinn, oddviti Kvennaframboðsins og konan sem leiddi stofnun Stígamóta, auk annarra verka. Það var hún sem öðrum fremur rauf þögnina um sifjaspell og kallaði eftir samstöðu kvenna í baráttu gegn kynferðisofbeldi. Og fólki blöskraði að háskólakennari væri að ráðast að hornsteini samfélagsins, fjölskyldunni.
„Samfélagið stendur í þakkarskuld vegna óþrjótandi baráttu hennar“
Guðrún lést fyrr í vikunni, en nafna hennar og arftaki á Stígamótum kallaði eftir „þjóðarátaki gegn kynferðisofbeldi“ í minningu hennar. Samfélagið stendur í þakkarskuld vegna óþrjótandi baráttu hennar og framlags hennar verður seint fullþakkað.
Ein, en alls ekki sú eina
Guðrún var auðvitað ekki ein að verki. Hún var hluti af hreyfingu íslenskra kvenna sem vann saman að þessum breytingum. En það verður aldrei frá henni tekið að hún markaði ansi stór spor í þessari baráttu, spor sem erfitt verður að fylla.
Fyrst tekið er fram að hún hafi ekki verið ein að verki, heldur hafi verið um marga samverkandi þætti að ræða sem stuðluðu að breytingum, þá er vert að minnast þess að hún stóð stundum ein frammi fyrir aðstæðum sem enginn ætti að þurfa að upplifa, en allt of margar konur hafa gengið í gegnum.
„Hún var ein þegar samfélagið refsaði henni fyrir að eignast barn í lausaleik“
Hún var ein þegar áföll dundu á fjölskyldunni í æsku sem voru aldrei aftur rædd. Hún sat ein uppi með leyndina yfir kynferðisárás sem hún varð fyrir. Hún var ein þegar samfélagið refsaði henni fyrir að eignast barn í lausaleik. Skelfingu lostin ung kona, var hún skilin ein eftir í myrku herbergi á fæðingardeildinni. Hún stóð ein frammi fyrir sakadómi þar sem hún þurfti að lýsa samskiptum sínum við barnsföður sinn í smáatriðum fyrir körlum sem sátu þar og dæmdu. Hún var ein erlendis í námi, fjarri nýfæddri dóttur sinni og fjölskyldu. Og hún var ein þegar hún var send í hverja frjósemisaðgerðina á fætur annarri, án þess að nokkrum dytti í hug að kanna frjósemi eiginmannsins.
Frammi fyrir þessum aðstæðum stóð hún ein, en hún var svo sannarlega ekki sú eina sem þurfti að ganga í gegnum þetta. Þær eru allt of margar sem hafa þurft þess.
Stóð ein andspænis valdinu
Á starfsferlinum var hún eini félagsráðgjafinn þegar ekki var til íslenskt orð yfir fagið og enginn vissi hvað ætti að gera við hana. Eini barnaverndarfulltrúinn í braggahverfunum þegar það voru engin úrræði til önnur en að taka börnin og senda burt, stóð ein og algjörlega úrræðalaus frammi fyrir ömurlegum örlögum fólks sem bjó við sára neyð.
„Andstaðan við upprisu kvenna birtist meðal annars í því að karlkyns borgarfulltrúi káfaði stöðugt á líkama hennar“
Hún var ein á fundum borgarráðs þar sem karlasamstaðan birtist líkt og í bíómynd, í reykfylltum bakherbergjum. Eða þegar hún var stöðugt sett niður sem oddviti Kvennaframboðsins þegar konur sóttu í sig veðrið á vettvangi stjórnmála. Andstaðan við upprisu kvenna birtist meðal annars í því að karlkyns borgarfulltrúi káfaði stöðugt á líkama hennar, þar til hún kleip hann eins fast og hún gat, þegar öll önnur ráð höfðu brugðist.
Hún stóð líka ein þegar hún tók opinbera afstöðu með konum sem báru sakir á biskup og var fyrir vikið dregin í yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglunni þar sem hún sat fyrir svörum í margar klukkustundir, eins og það væri hún sem væri sek. Þegar hún fékk síðan bréf frá fag- og stéttarfélaginu sem hún hafði tekið þátt í að stofna og var beðin um að yfirgefa það vegna málsins. Var síðan ávítt af forvera Persónuverndar fyrir að hafa staðfest það sem hún sá og vissi vegna starfa sinna á Stígamótum, skikkuð til að þegja yfir vitneskjunni, til að hlífa hinum seku. Þegar nefnd á vegum ríkisins gerði raunverulega kröfu um að engar upplýsingar væru veittar um þolendur eða meinta fremjendur kynferðislegs ofbeldis. Eins og það sé rangt að segja sannleikann og refsa ætti þeim sem það gerðu. Og þeim var svo sannarlega refsað.
Refsað af samfélagi þagnar, meðvirkni og valdbeitingar. Konurnar sem báru sakir á biskup báru þess aldrei bætur. Þær voru þrjár, ein dró orð sín til baka eftir ómanneskjulegan þrýsting, hinar tvær sættu refsingu samfélagsins og létust langt fyrir aldur fram. Kirkjan gerði sem betur fer upp við þær áður en þær féllu frá, alveg eins og Félagsráðgjafafélag Íslands reyndi að bæta fyrir framgönguna gagnvart Guðrúnu með því að gera hana að heiðursfélaga og greiða fjárhæð í viðurkenningarskyni. Peningana lét hún renna óskipta til Stígamóta og voru þeir notaðir til að afhjúpa vændiskaup á Íslandi.
Það sem hefur breyst til batnaðar
Sem betur fer hefur margt breyst til batnaðar, meðal annars vegna baráttu hennar, og annarra sem hafa lagt lóð á vogarskálarnar. Hver einasta kona sem rís upp gegn misrétti upp skiptir máli. Allar standa þær einar frammi fyrir ógnandi aðstæðum, þótt sumar hafi síðan fundið styrkinn sem felst í því að tilheyra stærri hópi, hreyfingu sem berst fyrir sameiginlegri hugsjón um réttlátara samfélag.
Á meðal þess sem hefur breyst má til dæmis nefna að í dag er það ekki lengur liður í rannsókn lögreglu að meta lauslæti kvenna. Þá sjaldan sem kynferðisbrot fóru fyrir dóm á sínum tíma gat siðferðilegt mat dómara á líferni kvenna vegið þungt. Refsing við kynferðisofbeldi var vægari hafði konan ekki verið heiðvirð.
„Getur verið að konur sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku leiti í það ástand sem fullorðnar konur?“
Í dag þurfa konur ekki lengur að svara asnalegum spurningum á borð við: „Getur verið að konur sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku leiti í það ástand sem fullorðnar konur?“ eins og Guðrún neyddist til að gera í viðtali árið 1993, þegar hún þurfti að útskýra að „það er engin sem vill búa við ofbeldi“. Í sama viðtali var spurt: „Erum við þá ekki bara eins og apar sem taka hver annan í rassinn til að sýna vald sitt?“ og hún benti á að rannsókn á samfélagi apa sýndi að þar ríkti ákveðið skipulag og reglur. Þar leyfðist ekki að misnota afkvæmi sitt kynferðislega og önnur kynferðisleg samskipti sættu stífum reglum. „Svo ekki hafa menn þetta „eðli“ þaðan.“ Á starfsferli sínum vann hún stöðugt að því að leiðrétta ranghugmyndir og uppræta skaðleg viðhorf.
Samt er ekki svo langt síðan konur risu upp gegn drusluskömmun og umbreyttu merkingu orðsins drusla með því að eigna sér það með frasanum: „Ég er drusla.“ Drusluskömmun er enn haldið að íslenskum konum og reynt er að smána þær með margvíslegum hætti.
Það eru heldur ekki nema nokkur ár síðan brotaþolar fóru almennt að segja frá reynslu sinni af kynferðisglæpum undir nafni og mynd. Sá óheyrilegi fjöldi brotaþola sem hefur nú stigið fram hefur gert það að verkum að nú er orðið óhætt að tjá þá reynslu, þótt enn sé hættulegt að segja frá því hver framdi árásina.
Enn lýsa konur vantrú lækna og þeirri upplifun að ekki sé hlustað á þær. Líkaminn geymir allt, var ein mest selda bók síðasta árs, bók sem fjallar um það hvernig áföll sitja eftir í líkamanum. Vitund hefur sem betur fer vaknað um mikilvægi þess að ræða og vinna úr áföllum, þótt stuðningur við fólk sem þarf á því að halda sé enn lítill sem enginn.
Samkvæmt hegningarlögum er nauðgun einn alvarlegasti glæpur sem hægt er að fremja, en brotaþolum er gert að tjasla sér sjálfum saman á ný, án nokkurs stuðnings stjórnvalda.
Vinur, verndari og fyrirmynd
Við stofnun Stígamóta var byggt á þekkingu sem varð til í Kvennaráðgjöfinni, þar sem konur mættu konum sem jafningjum, en ekki sem sérfræðingar að ræða við skjólstæðinga og fengu í fyrsta sinn að heyra alla söguna. Það var þá sem frásagnir kvenna af kynbundnu ofbeldi og misrétti fóru að heyrast, allt það sem Guðrúnu hafði yfirsést og haldið hafði verið leyndu frá henni þegar hún nálgaðist fólk sem fulltrúi valdsins, sérfræðingur á vegum stofnana.
Hugmyndafræði Stígamóta byggði á því að þeir sem lifa af kynferðisofbeldi séu sérfræðingar í úrvinnslu áfallsins, að þolendur styðji aðra þolendur í átt að bata. Þannig nálgaðist hún fólk sem ráðgjafi Stígamóta, sem gerði henni meðal annars kleift að byggja upp raunveruleg tengsl og vináttu við þær sem þangað leituðu.
„Það þarf sterkan karakter til að bera með fólki þyngstu byrðar þess“
Þannig gerðist það meðal annars að hún skaut skjólshúsi yfir konur í húsnæðisvanda, eitt sinn missti kona sem var í viðtölum hjá Stígamótum húsnæðið og Guðrún bauð henni einfaldlega að búa hjá sér. Þar hlúði hún að henni og nærði. Þetta var Kristín Gerður Guðmundsdóttir, sem vakti samfélagið til vitundar um vændi. „Guðrún hlustaði ekki bara heldur blés í hana lífi aftur. Hún varð vinur, verndari og fyrirmynd,“ skrifaði systir Kristínar Gerðar við andlát Guðrúnar. „Það þarf sterkan karakter til að bera með fólki þyngstu byrðar þess og Guðrún gerði það ekki einungis fyrir hana heldur með okkur sem elskuðum hana og gátum ekki farið inn í myrkrið með henni að fullu, því það var óbærilegt.“
Mikilvægi þess að eiga skjól
Sjálf var Guðrún kona uppfull af andstæðum, kona sem naut sín best í aktívisma en var líka fyrirmyndar húsmóðir og hæfileikakona í handavinnu. Hún gat verið svo húmorísk og beitt í sínum aðgerðum að það verkjaði undan, en sjálf var hún samt svo afskaplega blíð. Öfgafullur femínisti sem gaf hvergi afslátt af hugsjónum og var fyrir vikið stimpluð af samfélaginu sem karlhatandi kvenremba, þegar þeir sem til hennar þekkja vissu vel hvað hún var ástrík eiginkona, móðir og amma.
Eitt af hennar síðustu verkum var útgáfa ævi- og baráttusögu hennar, þar sem hún lagði sjálfa sig enn á ný að veði, til að miðla sögu sinni, lærdóm og þekkingu til samfélagsins, ekki síst yngri kynslóða.
Þar er haft eftir eiginmanni hennar að hún sé rómantísk og hún svarar:
„Ég hef aldrei kveikt á kertum til að horfast í augu við þig.“
„Það er rétt. Það birtist öðruvísi.“
„Hvernig?“
„Við ræðum það ekki.“
Samband hennar við eiginmanninn Ólaf Thorlacius einkenndist alla tíð af gagnkvæmri virðingu. Sjálf sagði hún að sér hefði reynst um megn að taka þessa erfiðu slagi ef hún hefði ekki átt skjól heima fyrir. Á endanum var saga eins þekktasta femínista landsins áminning um hversu mikilvægt er að búa við virðingu, ást og umhyggju – og veita öðrum slíkt hið sama.
Eitt sinn sagði Jón Gnarr að friður í heiminum byrjaði heima. „Við eigum mjög fallegt orð yfir það á íslensku; heimilisfriður.“
Biðlaði til kvenna að halda baráttunni áfram
Í ævisögu Guðrúnar, Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg, eftir höfund þessa pistils, birtist ákall Guðrúnar um áframhaldandi baráttu fyrir jafnrétti. Kaflinn er birtur hér á eftir:
Fram undan er ný orrusta í stríðinu gegn konum. „Nú þarf að ná saman stórum hópi kvenna sem beinir öllum sínum kröftum að tveimur þáttum, baráttunni gegn launamisrétti og baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Þessa baráttu þarf að nálgast sem alvöru stríð,“ segir Guðrún.
„Fram til þessa hafa ekki náðst neinar verulegar breytingar, aðeins lítil skref í átt að breytingum, áfangasigrar.“ Guðrún segir einkennandi fyrir kvennabaráttuna hvernig þráðurinn sem heldur öllu saman slitnar. Þekking og reynsla færist ekki á milli kynslóða, svo að allt of mikil orka fer í endurtekningar, með örlitlum breytingum á orðavali eða framkomu.
Enn er einkennandi hvað baráttan hvílir á herðum fárra einstaklinga. „Það er þreytandi að taka alla slagi, þannig að konur sem standa í fremstu víglínunni brenna út. Því þarf að nálgast baráttuna sem alvöru stríð. Í stríði leggja herforingjar upp með heri þannig að það komi maður í manns stað, þar eru baksveitir og framvarðarsveitir. Af hverju ættu konur ekki að nota kerfi sem búið er að sannreyna að virkar? Með því að skapa slíkt kerfi þyrftu sömu konurnar ekki að taka alla slagi. Konur gætu stigið inn og út úr baráttunni. Þegar ein væri búin með vaktina tæki önnur við. Á meðan gæti hún farið í sund og gufu, borðað góðan mat og drukkið vín, og komið endurnærð í næsta slag.“
„Það þarf að finna kómísku hliðina á misréttinu“
Stóri lærdómurinn sem Guðrún hefur dregið af eigin baráttu er mikilvægi þess að halda í gleðina. „Það þýðir ekkert að æða fram á vígvöllinn með steytta hnefa. Enginn kann hnefaleika betur en karlarnir. Það þarf að finna kómísku hliðina á misréttinu og hafa gaman af baráttunni. Ef hægt er að draga upp mynd af fíflum og hlæja þá nærðu yfirhöndinni. Karlar kunna að beita pólitík til að kljúfa samstöðu kvenna, þannig að konur þurfa að finna gleðina í samstöðunni.“
Innra með Guðrúnu brennur eldur. Eftir allt sem á undan er gengið getur hún ekki hugsað þá hugsun til enda að afkomendur hennar þurfi að berjast fyrir rétti sínum til að lifa lífinu að vild. Hún er því hugsi yfir samfélaginu, hefur áhyggjur af því að umræðan hjaðni þegar þær sem standa fremst í víglínunni þreytast og óttast að smávægilegir áfangasigrar dugi til að fólk fari að láta eins og allt sé í lagi. „Fólk verður svo dofið að það hættir að finna fyrir óréttlætinu eða leiðir það hjá sér. Þar til það kemur að því að fólk fær nóg og baráttan hefst á ný. En þá þarf að byrja aftur á núllpunkti. Best væri að það myndi takast að mynda breiðfylkingu kvenna sem væru tilbúnar að berjast fyrir málstaðinn og konur myndu ekki linna látum fyrr en búið væri að uppræta vandann.“
Athugasemdir (1)