British Museum í London er eitt stærsta og virtasta menningar – og minjasafn veraldar. Safnið var opnað árið 1759 og var fyrsta safnið í heiminum sem opið var almenningi, það hefur að geyma rúmar átta milljónir gripa. Einhverjir myndu kannski segja að þótt safngripunum hafi fækkað um tvö þúsund sjái ekki högg á vatni. En hver einasti hlutur, stór eða smár, er einstakur og hefur sögu að segja og því ómetanlegur.
Í ágúst síðastliðnum greindu breskir fjölmiðlar frá því að fjölmargir gripir, líklega á bilinu 1-2 þúsund, í eigu British Museum væru horfnir. Fréttirnar vöktu athygli en eftir viðtal fréttastofu Sky sjónvarpsstöðvarinnar við danskan list- og fornmunasala rataði málið í fjölmiðla um allan heim. Tveim dögum eftir að viðtalið birtist sagði safnstjórinn Hartwig Fischer af sér og það gerði einnig aðstoðarsafnstjórinn Jonathan Williams.
List- og fornmunasalinn
Maðurinn sem varð til þess að þjófnaðurinn í safninu komst upp heitir Ittai Gradel, 58 ára gamall Dani. Eftir að hafa lokið jarðfræðinámi við háskólann í Árósum sneri hann sér að sagnfræði og lauk doktorsgráðu frá Oxford með áherslu á trúarbrögð í Rómaveldi hinu forna. Hann vann síðan að rannsóknum og kennslu við danska og breska háskóla.
Árið 2008 sneri Ittai Gradel við blaðinu, settist að í Rudkøbing á Langalandi og starfar nú þar sem list- og fornmunasali. Hann rekur ekki verslun í eiginlegum skilningi en selur í gegnum viðskiptasambönd, er þekktur í „bransanum“ og nýtur mikils álits. Hann starfar einnig sem ráðgjafi varðandi kaup og sölu á list-og fornmunum.
Kannaðist við agat kristal sem boðinn var til sölu
Ittai Gradel hefur árum saman fylgst náið með antikmarkaðnum og árið 2016 sá hann á netsíðunni eBay mynd af agat kristal sem honum fannst hann kannast við. Eftir skamma leit í bókahillunni á skrifstofunni fann hann mynd af þessum sama kristal í bæklingi frá British Museum, frá árinu 1926. Kristalinn hafði safnið keypt árið 1814 ásamt mörgum öðrum munum úr safni Charles Townley (1737 – 1805) sem var þekktur safnari. Þegar Ittai Gradel spurðist fyrir um kristalinn sagðist seljandinn hafa erft hann eftir afa sinn, sem lést árið 1952. Mynd af kristalnum hafði birst í bæklingi frá British Museum, sú mynd var tekin löngu eftir 1952. Sagan um afann var uppspuni. Nú voru grunsemdir Ittai Gradel vaknaðar. Hann hafði reyndar sjálfur keypt, árið 2010 eða 2011, smáhlut af þessum sama seljanda fyrir 15 pund (2600 krónur íslenskar). Seljandinn sagði að þetta væri eftirlíking en Ittai Gradel sá strax að hluturinn var frá 3. öld eftir Krist. „Ég seldi svo þennan hlut fyrir 2 þúsund pund (350 þúsund íslenskar). Það var greinilegt að seljandinn þekkti lítt til forngripa“ sagði Ittai Gradel. Þessi tiltekni hlutur var ekki kominn frá British Museum.
Ittai Gradel fór nú að velta fyrir sér hvort verið gæti að fleiri hlutir frá British Museum væru á markaðnum, ef svo mætti að orði komast. Og hann þurfti ekki að leita lengi áður en hann fann hlut sem kunningi hans sem líka var forngripasali hafði keypt af sama seljandanum og hafði auglýst agat kristalinn. Kunninginn átti hlutinn enn og sendi hann strax til British Museum. Hann átti enn kvittunina og Ittai Gradel átti líka kvittun fyrir hlut sem hann hafði keypt, kvittanirnar voru frá sama seljanda. Og það sem meira var, allt benti til að seljandinn væri starfsmaður British Museum.
Safnið vísaði öllu á bug
Árið 2021 skrifaði Ittai Gradel aðstoðarsafnstjóra British Museum og vakti athygli á að svo virtist sem tiltekinn starfsmaður safnsins hefði auglýst og selt muni, sem augljóslega væru komnir úr geymslum safnsins. Ittai Gradel tilgreindi munina.
Ekkert svar barst og þremur mánuðum síðar skrifaði Ittai Gradel annað bréf, að þessu sinni til safnstjórans. Ekki kom svar við því bréfi en skömmu síðar barst svar frá aðstoðarsafnstjóranum. Þar sagði að safnið hefði farið ítarlega yfir málið og komið hefði í ljós að allir þeir munir sem Ittai Gradel hefði nefnt væru á sínum stað. „Á kurteisislegan hátt sagði aðstoðarsafnstjórinn mér að fara í rass og rófu“ sagði Ittai Gradel.
Nú fóru hjólin að snúast
Ittai Gradel er ekki maður sem leggur árar í bát. Seint og um síðir komst hann í samband við stjórnarformann British Museum. Það gerðist þó ekki fyrr en Ittai Gradel hafði hótað að fara með málið í fjölmiðla. Eftir fund þeirra krafðist stjórnarformaðurinn skýringa frá forstjóra safnsins. Forstjórinn brást við með tilkynningu þar sem fram kom að starfsmaður safnsins hefði verið rekinn vegna gruns um að hann hefði stolið munum úr geymslum safnsins. Af tilkynningunni mátti ráða að það hefði verið safnið sjálft sem uppgötvaði stuldinn.
Þetta fór ekki vel í Ittai Gradel sem sagði í viðtölum við breska fjölmiðla að yfirstjórn safnsins hefði reynt að drepa málinu á dreif, en safnstjórinn sakaði Ittai Gradel um að halda upplýsingum leyndum. „Þá var mér nóg boðið“ sagði Ittai Gradel sem sagðist hafa lagst í símann og talað í þrjá daga við breska fjölmiðla. Svo fór að safnstjórinn sagði upp og aðstoðarsafnstjórinn er kominn í leyfi. Þá var komið í ljós að í geymslu sem í áttu að vera 942 óskráðir munir úr safni Charles Townley voru aðeins 7 hlutir.
Heilu fjöllin af óskráðum munum
Í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC, sagði Ittai Gradel að í geymslum British Museum væru heilu fjöllin (hans orðalag) af óskráðum munum. Sumir þeirra, eins og safn Charles Townley, hefðu legið í geymslum safnsins í 200 ár. „Þetta býður hættunni heim“ sagði Ittai Gradel. Hann sagði ennfremur engan vafa leika á að þetta mál hafi þegar skaðað orðstír safnsins og sumir vildu kannski kenna honum um. „Ef ég hefði ekkert sagt hefði þetta kannski aldrei komist upp. En samviska mín kom í veg fyrir að ég léti kyrrt liggja.“
Þess má í lokin geta að skipuð hefur verið opinber rannsóknarnefnd sem þegar hefur tekið til starfa. Fyrsta verk nefndarinnar var að ræða við Ittai Gradel.
Athugasemdir