Árið sem senn tekur enda einkenndist af stríðsátökum, við horfðum á blóðugt stríð, barnamorð og neituðum að taka afstöðu, sátum hjá. Börn þurftu að deyja og þúsundir barna, áður en Ísland tók loks afgerandi afstöðu á alþjóðavettvangi með kröfu um tafarlaust vopnahlé.
Blóðrauður himinn og blóðugar hendur þeirra sem taka ekki afstöðu gegn því þegar ráðist er á saklausa borgara og börn.
Svo erum við hissa á að börnin skorti samkennd. Börnin sem gengu fylktu liði að kærunefnd útlendingamála til að krefjast réttlætis fyrir skólasystur þeirra sem átti að senda úr landi. Börnin sem tileinkuðu henni síðustu leiksýninguna sína, söfnuðu fyrir fjölskylduna hennar og standa árlega fyrir söfnunarátaki fyrir fólk í neyð.
Horfa síðan á Útlendingastofnun vísa hverju barninu á fætur öðru burt. Nú síðast átti að vísa burt ungum strákum frá Palestínu, sem komu svo tættir til landsins að annar þeirra kastaði reglulega upp, fékk taugakippi við óvænta snertingu eða hljóð og martraðir á næturnar. Þar áður var átta barna móður frá Palestínu hent úr landi með börnin.
Á sama tíma rignir sprengjum yfir Palestínu, foreldrar og börn liggja grafin undir rústum heimila sinna. Hvergi annars staðar verða jafnmörg börn, á jafnskömmum tíma, munaðarlaus, slasast og deyja.
Að fórna náttúrunni – og sálinni
Við vísum börnunum burt, en förum í hvert markaðsátakið á fætur öðru til þess að laða útlendinga að landinu. Því fleiri ferðamenn, því betra, virðist vera hugsunin. Þar til ofgnóttin kæfir okkur og Ísafjörður verður orðinn svo stappfullur af skemmtiferðaskipum að ferðamenn flækjast hver fyrir öðrum og heimamenn láta sig hverfa. Þar til hér verða allir firðir, allir litlir bæir og smáþorp full af ferðamönnum, ekkert verður eftir nema lundabúðir, ekkert eftir af okkar eigin karakter, okkar hefðum og venjum, okkar sál.
Við erum og verðum búin að umbreyta hálendinu í ferðamannasvæði svo það verður nánast ónáttúrulegt, ýmist fótum troðið og skítugt eða rándýrt lúxussvæði fyrir hina ríku.
Skammlaust er síðan reynt að sannfæra þá um að hér sé ekkert að óttast þótt landið skjálfi undir fótum þeirra og jarðfræðingar hafi varað við eldgosahættu. Frammi fyrir eldgosavá er hótelum ekki lokað fyrr en gestir eru farnir að flýja sjálfir af vettvangi að næturlagi.
Sár eru grafin í fjöll fyrir lúxuslaugar, dýrmætt landsvæði er lagt undir bílastæði og líklega yrði enginn hissa ef einhvern tímann kæmi að því að reisa lúxusvatnsrennibraut niður Gullfoss.
Fossinum sem eitt sinn átti að fórna fyrir virkjanir, rétt eins og öðrum fossum sem hér hefur verið drekkt og landsvæði sem hefur verið sökkt til að hægt sé að selja útlendingum hreina orku á gjafverði.
How do you like Iceland, við þráum viðurkenningu útlendinga og bjóðum þá velkomna til landsins, en samt ekki alla. Ekki þá sem helst þyrftu á því að halda að komast í skjól. Þá rekum við burt.
Við erum svo háð velvild þeirra að við skiptum nöfnum íslenskra staðhátta út fyrir ensk heiti og hamborgara er varla hægt að panta lengur á íslensku. Svo fáum við niðurstöður úr Pisa-könnuninni og skiljum ekki af hverju börnin okkar geta hvorki lesið íslensku né skilið spurningarnar.
Að fórna menntuninni – og framtíðinni
Börnin sem eiga hvergi skjól eftir að fæðingarorlofi foreldra þeirra lýkur, komast ekki fyrr en seint og um síðir á leikskóla, lenda í mygluðum grunnskólum og enda í skrifstofuhúsnæði í Ármúla, þar sem skólalóðin samanstendur af örfáum bílastæðum fyrir utan og matreiðslukennslan er bókleg því það er ekkert eldhús á staðnum.
Sífellt fleiri skólar skera niður í eldhúsinu og panta aðkeyptan bakkamat og aðalnámskráin er orðin svo léleg að færni íslenskra grunnskólanemenda hefur hrunið eftir að hún tók gildi.
Börnin sem eru að gera sitt besta og keppast við að fá blátt - eða framúrskarandi - í þeim fáu prófum sem enn eru lögð fyrir, því hér eru ekki lengur gefnar einkunnir, þótt varla sé hægt að æfa íþróttir án þess að stefna á atvinnumennsku eða spila á hljóðfæri án þess að ætla að sigra heiminn.
En við getum ekki einu sinni kennt börnunum okkar að lesa eða reikna. Skilja texta sem inniheldur óvæntar hugmyndir. Eða fjármál, verðtryggð fasteignalán eða snarhækkandi stýrivexti.
Okkur var kannski brugðið þegar við sáum niðurstöður Pisa-könnunar, en það voru ekki börnin sem brugðust okkur, heldur við sem brugðumst þeim.
Að fórna baráttunni – og hugsjóninni
Ef við ætlumst til þess að börn læri þá þurfum við að leggja metnað í menntun þeirra og aðbúnað.
Þetta eru börnin sem biðluðu til okkar að huga að framtíð þeirra, á hverjum einasta föstudegi, mánuðum saman, þegar þau tóku sér stöðu frammi fyrir Alþingi til að vekja ráðamenn til vitundar og krefjast aðgerða gegn loftslagsbreytingum.
Heyrir þú í mér? kallaði Greta Thunberg og mætti tóminu í augum auðugra valdhafa, sem vildu halda gróðanum gangandi.
Þetta eru börnin sem risu upp gegn kynferðisofbeldi með byltingu í menntaskólum og víðar. Beauty-Tips byltingin, Höfum hátt og Öfgar. Allt er þetta sprottið upp úr grasrótarstarfi og samstöðu ungra kvenna, sem fylltust óþoli fyrir nauðgunarmenningu, kyrrstöðu í þessum málaflokki og kröfðust réttlætis fyrir brotaþola.
Ef við ætlumst til þess að ungt fólk taki sig alvarlega, þá þarf að hlusta, hlúa að þeim og tryggja velferð þeirra.
Að fórna velferðinni – og örygginu
Nú standa börnin frammi fyrir breyttum veruleika. Árið einkenndist af stríðsátökum, raunverulegum stríðsátökum í Evrópu, nær en nokkru sinni fyrr á þeirra lífsleið. Og í Palestínu, þar sem fleiri börn hafa látist en nokkru sinni fyrr.
Árið einkenndist einnig af harðari lífsbaráttu Íslendinga vegna vaxtahækkana og kaupmáttarrýrnunar. Sífellt erfiðara verður að ná endum saman og greiða af fasteignalánum. Samkvæmt nýrri skýrslu Unicef, sem spannar sjö ára tímabil, hefur fátækt barnafjölskyldna aukist næstmest hér á landi af þeim 40 löndum sem skýrslan nær til. Á meðan vaxtabætur skerðast heldur ríkasta 0,1 prósentið áfram að græða, alls 28 nýja milljarða í fyrra, að meðaltali 115 milljónir á fjölskyldu. Þessi hópur greiðir síðan lægri skatta af fjármagnstekjum heldur en aðrir greiða af launatekjum. How do you like Iceland?
Flestir Íslendingar eiga aðeins eina íbúð, sem þeir búa í og er eina raunverulega eignin sem þeir eiga. Fjársterkir aðilar hafa hins vegar verið að kaupa upp markaðinn. Á tíu ára tímabili fækkaði hlutfallslega leiguíbúðum á markaði og íbúðum fjölgaði sem stóðu auðar. Leiguverðið rauk auðvitað upp. Þetta eru börnin sem hrekjast á milli heimila, jafnvel hverfa, því það er ekki hægt að tryggja öryggi þeirra á þessum markaði.
Og nú er heilt bæjarfélag á flótta vegna náttúruhamfara í aðdraganda jóla. Ekkert er fyrirséð um hvenær fólk kemst aftur heim eða í hvaða ástandi heimili þeirra og heimabær verður. Eins og alltaf standa útlendingarnir verst, eins og hjónin sem flúðu frá Venesúela til Íslands og eru nú á flótta frá Grindavík. Með vikugamalt barn halda þau til í húsnæði á vegum Vinnumálastofnunar, þar sem þeim er meinað að taka á móti blaðamönnum til að segja sögu sína.
Að fórna samstöðunni – fyrir glimmerið
Í gegnum tíðina hafa Íslendingar oft staðið þétt saman og verið stoltir af. En samstaðan virðist stundum vera valkvæð og samkenndin sömuleiðis. Eins og það skipti máli hver þú ert. Kannski einhver arfur frá því í gamla daga þegar litið var niður á fólk í neyð.
Nú síðast áttum við auðveldara með að taka afstöðu gegn árásum Rússa á Úkraínumenn, en þegar látlaust er ráðist á Palestínumenn eigum við að skemmta okkur með Ísraelsmönnum í Eurovision, eins og ekkert sé.
Allir í pallíetturnar, sáldrum rauðu glimmeri.
Árás spyr utanríkisráðherra hissa á spurningu erlends fréttamanns um sprengjuárás á flóttamannabúðir og færir fram réttlætingar. Árás, hrópar hann svo yfir sig hneykslaður, þegar mótmælendur sýndu hug sinn í verki með því að kasta yfir hann rauðu glimmerregni. Fólk sem gat ekki réttlætt sprengjuregn fyrir sjálfu sér, eða setið þögult hjá þegar stjórnvöld gerðu það.
Ekki í okkar nafni.
Blóðrauður himinn blasti við borgarbúum og með blóðrauðum höndum skerum við hamborgarhrygginn á jólunum. Eldur rís úr jörðu og eldi er varpað á innilokað fólk.
Okkar framlag má ekki felast í því að vísa börnum þaðan á brott.
Það eru að koma jól, rauð jól.
Farið vel með ykkur, hlúið vel að ástvinum og sýnið samkennd. Ef við ætlumst til þess að börnin búi yfir samkennd, þá verðum við að sýna hana sjálf. Ekki í orðum heldur gjörðum. Ekki valkvætt heldur algilt.
Það er aldrei hægt að réttlæta barnamorð.
Athugasemdir (4)