Fyrir allmörgum árum var skrifari þessa pistils í París og lagði þá leið sína í safn sem heitir Musée de la Contrefacon, eftirlíkingasafnið. Í anddyri safnsins blasti við teikning, sem sýndi mann sem var með þrjá asna til sölu og einnig var á myndinni maður sem gekk framhjá, með hest í taumi. Við hlið asnanna var skilti sem á stóð „varist eftirlíkingar“.
Eins og heiti safnsins gefur til kynna eru sýningargripirnir eftirlíkingar. Safn þetta var stofnað árið 1872 og stofnendurnir voru einkum framleiðendur og hönnuðir. Tilgangurinn með stofnun safnsins var að vekja athygli á þeim ókjörum ólöglegs eftirlíkingavarnings sem þá var í boði. Ekki til að auka söluna á eftirlíkingavarningi en þvert á móti til að vara við slíkum vörum.
Framboðið hefur margfaldast
Á þeim rúmlega 150 árum sem liðin eru frá stofnun safnsins hefur framboð á hvers kyns varningi margfaldast. Þetta á líka við um eftirlíkingarnar. Skrifari hefur komið í verslanir í fjarlægri heimsálfu þar sem eingöngu voru til sölu eftirlíkingavörur. Úr, skartgripir, ferða- og handtöskur, málverk, tískufatnaður á konur og karla, gleraugu, lampar og ljós svo fátt eitt sé nefnt. Úrvalið hreint ótrúlegt.
Eftirlíkingaframleiðendur lögðu lengi vel einkum áherslu á þekkt vörumerki þar sem „orginalinn“ kostar umtalsverða peninga. Marga dreymir ef til vill um að eignast, svo dæmi sé tekið, tösku eða úr frá þekktum framleiðanda en eru ekki fúsir að borga „himinhátt“ verð fyrir hlutinn.
Öðru máli gegnir ef nákvæmlega eins hlutur frá eftirlíkingaframleiðanda er í boði, á miklu lægra verði. Verðið er sem sé það sem ræður. Mörgum er nákvæmlega sama hvort taskan eða úrið er ekta, aðrir myndu aldrei láta sjá sig með eftirlíkingu.
Hvað með gæði eftirlíkinga?
Þessari spurningu er fljótsvarað, þau eru misjöfn. Eftirlíkingar eru oft vel gerðar og erfitt, eða illmögulegt fyrir aðra en sérfræðinga, að sjá hvort tiltekinn hlutur sé „ekta“ eða ekki. Mörg dæmi eru um hluti sem fólk hefur keypt í þeirri trú að um sé að ræða eftirlíkingu (og borgað lítið fyrir) en hefur við nánari athugun komið í ljós að er „ekta“.
Sömuleiðis hefur oft komið í ljós að hlutur sem keyptur er sem „ekta“ reynist þegar betur er að gáð vera eftirlíking, viðkomandi hefur keypt köttinn í sekknum. Mörg dæmi eru líka um hluti sem merktir eru með þekktu nafni en eru ekki eftirlíkingar. Þá er heiti þekkts framleiðanda notað til að auka sölumöguleikana. Armbandsúr eru gott dæmi um þetta, nafn þekkts framleiðanda má lesa á úrskífunni og bakhliðinni en „ekta“ framleiðandinn hefur aldrei framleitt úr með þessu útliti.
Viðskiptin hafa aukist mikið
Sala á netinu hefur margfaldast á síðustu árum og í dag er nánast hægt að kaupa hvað sem er í gegnum tölvuna heima. Mörgum þykir það þægilegur verslunarmáti að geta gert nánast öll sín innkaup á netinu og fá vöruna heim að dyrum eða á pósthúsið. Margir kaupmenn voru seinir að tileinka sér þessa breytingu og sögðu eitthvað sem svo að „fólk vildi nú alltaf fara í búðir og handfjatla hlutina“. Um síðir áttuðu þeir sig á að þetta reyndist ekki allskostar rétt.
Eftirlíkingaframleiðendur og sölumenn slíks varnings hafa sannarlega kunnað að notfæra sér netið og viðskiptin aukast ár frá ári. Danska útvarpið, DR, hefur að undanförnu fjallað talsvert um þessi mál og þar kom fram að á fyrri hluta þessa árs sendi danska tollgæslan 40 þúsund eftirlíkingar af ýmsu tagi til eyðingar í „Sorpu“. Þar var um að ræða vörur sem talið var að gætu verið hættulegar heilsu fólks, einkum snyrtivörur af óljósum uppruna, eða augljóst að vörurnar væru ætlaðar til sölu. Áðurnefndir 40 þúsund hlutir eru aðeins brot eftirlíkingafjallsins (orð dansks tollvarðar) því ekki er óheimilt að kaupa og flytja inn til Danmerkur eftirlíkingar til eigin nota. Hins vegar er með öllu óheimilt að selja eftirlíkingavarning í Danmörku og getur slíkt athæfi kostað allt að 6 ára fangelsi.
Í umfjöllun danska útvarpsins kom fram að á Þorláksmessu í fyrra var danskur maður dæmdur fyrir að koma með ýmsar vörur, einkum töskur, ilmvötn og varaliti fyrir upphæð sem jafngildir 6 milljónum íslenskra króna. Þegar tollverðir stöðvuðu manninn (skömmu fyrir jól 2021) sagði hann að varningurinn væri ætlaður til gjafa handa öllum í fjölskyldunni. „Miðað við frásögn þína eru dömutöskur og varalitir jólagjafirnar í þinni fjölskyldu og athyglisvert að þar fyrirfinnst ekki einn einasti karlmaður“ sagði yfirtollvörðurinn léttur í bragði. Varningurinn var að mati tollsins augljóslega ætlaður til sölu. Dómurinn hljóðaði uppá sekt, jafngildi 6 milljóna íslenskra króna og þar að auki bar manninum að greiða málskostnaðinn en varningurinn sendur til eyðingar. „Þessi jólagjafaleiðangur var ekki ferð til fjár“ sagði í niðurlagi fréttar danska útvarpsins.
Erfitt að greina hvað er ekta og hvað ekki
Eins og nefnt var í upphafi þessa pistils aukast viðskipti með eftirlíkingavarning sífellt. Sérfræðingar evrópsku vörumerkjasamstakanna EUPO telja ástæður þessarar stöðugu aukningar megi rekja til sífellt meiri netverslunar þar sem erfitt sé að fullvissa sig um hvaðan varan komi. Einnig verði eftirlíkingarnar sífellt betur gerðar og því erfiðara að greina hvað sé ekta og hvað eftirlíking.
Á dönsku vefsíðunni jegvaelgeraegte.dk er bent á nokkur atriði sem vert er að huga að ef grunur leikur á að verið sé að selja eftirlíkingar. Til dæmis notist margir eftirlíkingasalar við vélþýðingar og þá verði stafsetningin oft undarleg. Ef verðið er einkennilegt, t.d. kr. 245.87 þykir það grunsamlegt. Ef verðmunur á tilteknum hlut sem verið er að skoða er mjög mikill samanborið við verðið hjá „ekta“ framleiðandanum er það grunsamlegt. Stundum verðleggja eftirlíkingasalar vörur sínar sem næst ekta vörunum og reyna með því móti að láta líta svo út að varan sé ekta.
Á vefsíðum netverslana eru oftast upplýsingar um fyrirtækið, sögu þess, símanúmer og fleira. Ef engar slíkar upplýsingar eru á síðunni vekur það grunsemdir. Öruggast er að borga fyrir vörur með alþjóðlegu greiðslukorti, þá getur bankinn bakfært peningana ef svo færi að varan skilaði sér ekki.
Eftirlíkingar grafa undan hönnuðum og verslunum
Eins og áður var nefnt stækkar eftirlíkingamarkaðurinn ár frá ári, salan eykst og það gerir úrvalið líka. Þegar þessar línur eru settar á blað er hinn svonefndi svarti föstudagur nýafstaðinn og skammt til jóla. Þessi tími er annasamur og fjöldi pakkasendinga margfaldast. Eftirlíkingaflóðið nær sömuleiðis hámarki á þessum tíma að sögn tollvarða.
Barbara Suhr – Jessen deildarstjóri hjá dönsku Einkaleyfa - og vörumerkjastofunni sagði í viðtali við danska útvarpið að margir gerðu sér ekki grein fyrir að með því að kaupa eftirlíkingavörur væri í mörgum tilvikum verið að styðja og styrkja glæpastarfsemi. „Í mörgum tilvikum eru það glæpasamtök sem standa að baki framleiðslunni og sölunni á eftirlíkingunum og tekjurnar af sölunni notaðar til alvarlegri afbrota. Sala eftirlíkinga hefur líka mikil áhrif á verslanir sem selja ekta vörurnar og sömuleiðis hönnuðina sem verða af tekjum.“
Geta boðið hættunni heim
Áðurnefnd Barbara Suhr – Jessen benti í viðtali við danska útvarpið á að eftirlíkingar gætu beinlínis verið hættulegar. Nefndi sérstaklega rafmagnstæki, bílavarahluti og leikföng. Þessar vörur og margar aðrar færu ekki í gegnum gæðaeftirlit eins og skylt væri.
Barbara Suhr – Jessen sagði í viðtali við danska útvarpið að margar eftirlíkingar væru svo vel gerðar að ekki væri á færi annarra en kunnáttumanna að greina á milli ekta hlutar og eftirlíkingar. Kim Haggren aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka danskra iðnfyrirtækja tók í sama streng og sagði að strangt tollaeftirlit og sektir væru kannski áhrifaríkustu vopnin í baráttunni við eftirlíkingarnar.
Hvernig eru þessi mál á Íslandi?
Á árunum eftir síðustu aldamót jókst innflutningur á eftirlíkingum þekktra hönnunarvara, einkum húsgagna verulega. Stærstur hluti þessara húsgagna kom frá Kína. Margir keyptu hlutina sjálfir á netinu og borguðu tilskilin gjöld vegna innflutningsins. Á árunum 2005 og 2006 féllu tveir dómar vegna eftirlíkingahúsgagna. Í bæði skiptin var um að ræða innflutning sem ætlunin var að selja í verslunum. Árið 2006 voru það Alpha barnastólar sem BYKO flutti inn og seldi. Þeir líktust mjög norska Tripp Trapp barnastólnum sem kom á markaðinn 1972. BYKO var gert að greiða framleiðandanum, Stokke, og hönnuðinum Peter Opsvik skaða- og miskabætur, auk málskostnaðar. Hinn dómurinn sem er frá árinu 2005 snerist um eftirlíkingar af barstól, nefndur Bombo frá fyrirtækinu Magis Spa, hönnuður stólsins er Ítalinn Stefano Giovannoni.
Einkahlutafélag sem flutti eftirlíkingastólinn til landsins var dæmt til að greiða skaðabætur og birgðir af stólnum voru gerðar upptækar og þeim fargað. Bombo dómurinn mun vera sá fyrsti sem fallið hefur hér á landi vegna höfundarréttar á nytjalist.
Árið 2013 féllu tveir dómar varðandi brot á hugverkaréttindum, annar í Héraðsdómi Reykjaness og hinn í Héraðsdómi Reykjavíkur. Annað málið varðaði eftirlíkingar á þekktum ítölskum lampa, Arco, hitt málið snerist um eftirlíkingar á þekktum dönskum stól, Svaninum, sem Arne Jacobsen hannaði fyrir SAS hótelið í Kaupmannahöfn árið 1958.
Mörgum er kannski í fersku minni mál sem kom upp árið 2014. Þá kom í ljós að húsgögn sem keypt höfðu verið í Ráðhús Reykjavíkur voru eftirlíkingar. Um var að ræða stóla og sófa hins heimsþekkta hönnuðar Le Corbusier. Ekki kom til málaferla því borgin viðurkenndi að hafa keypt köttinn í sekknum og lét eyða eftirlíkingunum sem verið höfðu í Ráðhúsinu frá opnun þess árið 1992.
Um innflutning hluta sem njóta hugverkaréttinda er fjallað í tollalögum, grein 132.
Sérstaklega með allar barnavörur væri ég afar tortrygginn enda vænt um afkvæmin mín. T.d. mundi ég aldrei kaupa bílstól frá ónefndri útlenskri netverslun.