Þessi grein birtist fyrir rúmlega 12 mánuðum.

Heimur Asil rifnaði í sundur

Asil Al Masri, sautján ára stúlka sem slas­að­ist al­var­lega í loft­árás Ísra­els­hers seg­ir í sam­tali við Heim­ild­ina að það sé eins og heim­ur­inn henn­ar hafi rifn­að í sund­ur. For­eldr­ar henn­ar, eldri syst­ir, mág­ur og fimm ára frændi henn­ar dóu í árás­inni. Barn­ung­ir syst­ur­syn­ir henn­ar slös­uð­ust. Asil er á spít­ala í Egyptalandi en Su­leim­an Al Masri, bróð­ir henn­ar sem býr á Ís­landi, vill fá hana hing­að.

Heimur Asil rifnaði í sundur
Asil Al Masri missti foreldra sína, systur, mág og lítinn frænda í loftárásinni. Hún segist lifa í hreinni martröð en hún er alvarlega slösuð á sjúkrahúsi í Kaíró í Egyptalandi.

Skömmu eftir að loftárásir Ísraelshers hófust í byrjun október var Asil Al Masri og foreldrum hennar, þeim Jihad Al Masri og Andera abu Swiss, ráðlagt að yfirgefa heimili sitt sem er nálægt landamærum Ísraels. Suleiman Al Masri, bróðir Asil, sem býr á Íslandi segir við Heimildina að þau hafi flúið daginn sem loftárásirnar hófust og leitað skjóls í húsi vinafólks sem er skammt frá bænum Khan Younis. 
„Þeim var sagt að það ætti að vera öruggt svæði,“ segir Suleiman.

Sagt að þau yrðu örugg í húsi vinafólks 

Hann segir að foreldrar sínir hafi strax haft samband við elstu dóttur sína og beðið hana að koma með fjölskyldu sína í húsið sem þeim var sagt að þau ættu að vera örugg í. Dóttir þeirra sem var þrítug þegar hún dó hét Asmaa og bjó ásamt eiginmanni sínum og þremur sonum á aldrinum tveggja til sjö ára í Rafah. 

Fjölskyldan Foreldrar Asil og Suleiman ásamt dóttursonum sínum. Amir er þarna í fangi ömmu sinnar en þau og pabbi Asil og Suleiman dóu öll í loftárás Ísraelshers 17. október.

Níu dögum síðar gerði Ísraelsher loftárás á hverfið. Það var 17. október síðastliðinn. Foreldrar Suleiman og Asil, stóra systir þeirra, mágur og fimm ára systursonur þeirra, Amir, dóu öll í árásinni. Mamma þeirra var 58 ára, pabbi þeirra 61 árs og systir þeirra þrítug. Asil og systursynir hennar tveir, þeir Salem sem er sjö ára og Ayham sem er tveggja ára, slösuðust í árásinni. 

 „Ég lifi í hreinni martröð“

Heimildin náði í dag tali af Asil Al Masri þar sem hún er á sjúkrahúsi í Kaíró í Egyptalandi. Ég lifi í hreinni martröð. Það er eins og heimurinn minn hafi rifnað í sundur. Það gerðist þennan dag,“ segir Asil en sem fyrr segir er hún 17 ára.


Hún segir að árásin hafi verið gerð án nokkurs fyrirvara. „Ég var að fara út þegar þeir sprengdu húsið. Ég man ekki mikið en þó það að ég tókst allt í einu á loft og svo man ég öskur. Ég var að öskra og ég hélt að ég hefði heyrt systur mína öskra. Ég komst til hennar og hélt áfram að öskra. Ég var að kalla eftir aðstoð. Svo greip mig einhver og sagði mér að systir mín væri dáin. Síðan var ég allt í einu komin út á götu og litlu frændur mínir voru þar og þeir voru líka slasaðir.“    

Ayham sem er tveggja ára slasaðist í árásinni

Systursynir hennar sem lifðu árásina af en slösuðust eru tveggja og sjö ára.  

Frændi okkar fór með þá á spítala en þeir misstu mömmu sína. Pabbi þeirra hefur ekki fundist en hann er talinn af.“

Asil segir að sjúkrabílar hafi komið eftir um fimmtán mínútur.  „Ég man eftir gríðarlegum sársauka og vissi að ég var lífshættulega særð.“

Asil var flutt á spítala í Khan Younis á Gaza. Þar fór ég beint í aðgerð. Það þurfti að taka af mér vinstri fótinn fyrir ofan hné. Það var gert í aðgerðinni. 

Salem sem er sjö ára missti foreldra sína og fimm ára bróður í árásinni

Nokkrum dögum seinna var Asil flutt á sjúkrahúsið í Kairó þar sem hún er enn. Þegar ég kom hingað kom í ljós að nokkur bein voru brotin í hægri fæti og líka í vinstri hendi. Þannig að ég fór í aðra aðgerð.“

Suleiman, bróðir Asil segir að systir sín sé algerlega ein og til standi að senda hana aftur til Gaza þegar bráðameðferð er lokið. Þar á hún engan að.
Frændi okkar sem tók litlu systursyni okkar að sér fór með þá til Sameinuðu arabísku furstadæmanna og þeir eru þar á spítala. 

Móðir Ayham lést í árásinni og pabbi hans hefur ekki fundist en hann er talinn af.


Það er búið að jafna fjölskylduhúsið okkar við jörðu, hún á ekkert á Gaza,“ segir Suleiman sem flúði frá Gaza árið 2017 og hefur búið á Íslandi síðan þá. „Ég get ekki farið aftur til Gaza. Ég á engan að þar. Ég er alvarlega þunglynd, ég er einmana og hrædd. Ég lifi í martröð,“ segir Asil. 

„Svo greip mig einhver og sagði mér að systir mín væri dáin“
Asil Al Masri

Ekkert verið hugað að geðheilsu Asil

Spurð hvort hún hafi fengið áfallahjálp eða annars konar sálræna fyrstu hjálp á spítalanum segir hún svo ekki vera. ,,Það er ekkert hugað að geðheilsu minni hér.“ Hún segist ekki vita hvenær hún verði útskrifuð af spítalanum. ,,Ég hef ekki fengið nein svör varðandi það en ég er enn með mikla verki um allan líkama. Ég finn meira að segja til í þeim hluta fótarins sem var tekinn af.  Læknir hér sagði að þetta séu draugaverkir.“  

Asil Al Masri með pabba sínum Jihad Al Masri, pabbi Asil og Suleiman var prófessor í sagnfræði. Suleiman segir söguna vera að endurtaka sig því faðir hans hafi misst fjölskyldu sína í árás Ísraelshers þegar hann var ungur maður.

Suleiman segir að sagan sé að endurtaka sig. Pabbi þeirra sem var prófessor í sagnfræði við háskóla í Khan Younis, hafi misst alla fjölskyldu sína í árás Ísraelshers árið 1967. ,,Hann missti alla fjölskylduna sína og heimilið. Hann bjó þá í Beer Sheva sem nú er á ísrelsku yfirráðasvæði og flúði eftir árásina til Gaza.“  

Suleiman segir að það eina sem geti bjargað systur hans núna sé að hún fái að flytja til hans. Undirskriftasöfnun er hafin þar sem skorað er á íslensk stjórnvöld að flýta meðferð máls systkinanna þannig að hægt sé að sameina þau á Íslandi sem fyrst. Þar segir meðal annars að þrátt fyrir að Asil þurfi langa endurhæfingu fái hún aðeins að dvelja til skamms tíma á spítalanum í Egyptalandi ,,að bráðameðferð lokinni verður hún send aftur að landamærum Gaza; munaðarlaust, heimilislaust, fatlað barn. Ljóst er að bregðast þarf skjótt við áður en að þessu kemur.“  

Kjósa
28
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (8)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • IHÁ
    Ingvar Helgi Árnason skrifaði
    Gleymun ekki að við eigum fyrirmyndarfyrirtækið Össur hf.
    Þeir gætu vonandi lagt þessari stúlku lið.
    0
  • Jón Baldur Þorbjörnsson skrifaði
    Hvar finnur maður undirskriftalistann?
    0
    • María Lilja Ingveldar Þrastardóttir Kemp skrifaði
      https://island.is/undirskriftalistar/79096027-4c05-4b87-a917-66cc1804ddfc
      0
  • Gudrun Finnbogadottir skrifaði
    Ef við neitum þessari stúlku um hjálp, erum við aumingjar.
    0
    • María Lilja Ingveldar Þrastardóttir Kemp skrifaði
      https://island.is/undirskriftalistar/79096027-4c05-4b87-a917-66cc1804ddfc
      0
    • R
      ruthogthrainn skrifaði
      Er einhver sem man nú erið á söfnunarreikningum?
      0
  • Edda Ögmundsdóttir skrifaði
    Hryllingur! Íslensk stjórnvöld, gerið eitthvað fyrir þetta fólk sem biður um hjálp.
    1
    • María Lilja Ingveldar Þrastardóttir Kemp skrifaði
      https://island.is/undirskriftalistar/79096027-4c05-4b87-a917-66cc1804ddfc
      0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár