Þessi grein birtist fyrir rúmlega 12 mánuðum.

Svik á Gasa

Síð­asti af­kom­andi hins mikla soldáns Sala­díns var svik­inn í hend­ur Mong­óla í Gasa­borg.

Svik á Gasa

Árið er 1260. Á Íslandi er Sturlungaöld að ljúka. Helstu höfðingjar hafa gengið fram af sér í valdapoti, erjum og slagsmálum. Alþýðan stynur undan. Dugar nokkuð annað en kónginn í Noregi til að stilla til friðar?

En í Gasaborg í rúmlega 5.000 kílómetra fjarlægð gengur lífið sinn vanagang. Við höfnina koma skip og fara og í borginni sjálfri taka kaupmenn byrðar af úlföldum sem komnir eru yfir eyðimörkina frá Egiftalandi og hlaða á aðrar lestir sem eiga að halda með varninginn norður til Sýrlands og kannski krossfararíkjanna við ströndina. Bændur huga að ólífutrjám sínum og ökrum. Í fjarska má sjá til litskrúðugra hirðingja af ætt Bedúína gæta kvikfjár síns.

En uppi á múrum virkisborgarinnar sjálfrar, spölkorn upp að ströndinni, eru varðmenn með varann á sér og óstyrkir nokkuð. Daginn áður hafði lítill en fríður flokkur reiðmanna komið á þeysireið á löðursveittum hestum að norðan og íbúar á Gasa lyft brúnum er þeir fréttu hver þar var á ferð ásamt fylgdarliði.

Af ætt Saladíns

Þarna var kominn enginn annar en An-Nasir Yusuf emír norður í Sýrlandi, síðasti afkomandi og arftaki þess volduga soldánaveldis sem hinn mikli Saladín hafði reist tæpri öld áður. Það hafði kvarnast mikið úr því veldi síðustu árin svo um skeið hafði emírinn aðeins ráðið Aleppo og næsta nágrenni en sonarsonarsonur Saladíns var samt í sjálfu sér stórmenni á þessum slóðum og því vakti koma hans athygli, ekki síst af því hvílíkt flaustur var á honum. Og brátt fréttist að hann væri á flótta undan ókunnum her svo grimmum og framandlegum að enginn þar um slóðir kunni á þeim hermönnum minnstu deili.

Þetta voru lágir og riðvaxnir riddarar sem sátu lítil en sérlega þolgóð hross, þeir ruddust fram eins og engisprettuplága, sögðu An-Nasir Yusuf og menn hans, alveg óstöðvandi, klæddir léttum brynhlífum hið efra en treystu þó fyrst og fremst á hraða bæði í sókn og vörn, með sverð og spjót á lofti og boga sem þeir skutu hiklaust af, jafnvel á stökki. Og sveitir emírsins í Aleppo höfðu engan veginn haft roð við þessum ókunna her, þær voru sigraðar á svipstundu og í fimm daga hafði hinn aðkomni her dundað við að ræna borgina öllu steini léttara og drepa jafnt mann sem mús er þar fannst.

Emírinn hafði verið utan borgarmarkanna þegar plágan skall á svo hann komst lífs af en ríki hans var rjúkandi rúst og allur jarðvegur innan borgarmúranna gegnsósa í blóði.

Á flótta til Mamlúka

Nú sagði emírinn borgaryfirvöldum í Gasa að hann væri á leið til Egiftalands til að hvetja Mamlúka, sem þar réðu, til þess að leggja sér lið við að endurheimta Aleppo. Emírinn og Mamlúkar höfðu oft eldað mjög grátt silfur en nú hlytu þeir að snúa bökum saman gegn svo hættulegum óvini sem var bersýnilega kominn langa leið en sýndi engin merki þess enn að nema staðar. Hann og menn hans og hestar þyrftu aðeins að fá að hvílast í Gasa nokkra daga, svo myndu þeir halda áfram til Kæró og ganga fyrir Mamlúka. Hinn grimmi her myndi eflaust láta sér duga að kjamsa á Aleppo næstu vikurnar og því tóm til að bæði gráta þá fögru borg en líka safna liði.

Nema hvað – varðmennirnir á múrunum umhverfis Gasa taka allt í einu eftir rykskýi í norðri nálgast og fer hratt. Þeir skima og píra augun og sjá að rykskýið stækkar ört og allt í einu er ekki um að villast.

Innrásarherinn hefur náð ótrúlegum hraða að vera mættur til Gasa aðeins degi á eftir emírnum af ætt Saladíns. Varðmennirnir sjá fyrr en varir veifur og gunnfána hafna á loft og blika á kesjur. Og heyra hinn þrotlausa hófadyn sem ævinlega fylgir þessum óstöðvandi her.

Eftir 6.000 kílómetra ferð á örfáum áratugum eru hinir óttalegu Mongólar komnir til Gasa.

Perla á svæðinu

Síðustu grein um sögu hins hrjáða Gasasvæðis lauk árið 332 FT þegar Alexander mikli náði virkisborginni við hafið af Persum, stráfelldi varnarliðið og seldi hverja konu og hvert barn í þrældóm. Gasa byggðist þó brátt aftur, því svo vel var hún í sveit sett, og næstu tvær aldir byggðist upp blómleg byggð þar að nýju, miðstöð verslunar og þeirrar hellensku eða grískættuðu menningar sem hvarvetna kom í kjölfar Alexanders og arftaka hans. Þótti Gasaborg sannkölluð perla á svæðinu lengi vel og gilti einu hvort ríki Ptolemeia í Egiftalandi eða Selevkída í Sýrlandi réðu svæðinu, menning og samfélag breyttust ekki og verslun og mannlíf blómstruðu.

Árið 96 FT reið yfir nýtt áfall: ofsatrúaðir Gyðingar sem kölluðust Makkabear náðu þá borginni þegar Ptolemeiar og Selevkídar voru orðnir helstil slappir, og Gasa var brennd til grunna og enn blandaðist rykborinn jarðvegurinn blóði. Rómverjar mættu hins vegar brátt til leiks og unnu svæðið og Gasa var eitt þeirra svæða sem blómstruðu undir þeirra stjórn – aftur dafnaði borgin og auðgaðist, varningur var fluttur þangað sjóleiðina og svo dreift til Júdeu eða Egiftalands, enn og aftur höfðu úlfaldalestir viðkomu í bænum, Bedúínarnir komu út úr Negeveyðimörkinni og seldu fénað á fæti.

Hellensk borg

Íbúarnir í Gasa voru enn miklu frekar Hellenar en Gyðingar, enda höfðu Rómverjar bælt niður ríki og menningu Gyðinga í Júdeu á annarri öld ET þegar þeir gerðust þreyttir á mótspyrnuhvöt þeirra og sjálfstæðisþrá.

Þegar Rómaveldi varð kristið þá tóku Gasa kristni líka. Það munu hafa verið átta hof í Gasaborg sem biskupinn Porfírí lét mölva þegar kristnin hóf innreið sína. Fjöldinn í ekki stærri borg bendir til þess að Gasamenn hafi verið trúaðir vel en þeir létu trúskiptin yfir sig ganga, kirkjur voru reistar í stað hinna heiðnu rómversk- eða grískættuðu hofa og sálmasöngur barst um þröngar og líflegar göturnar á sunnudögum.

Árið 635 ET bar enn nýrra við. Ný trúarbrögð höfðu verið að mótast suður í Arabíu og þeirra varð eflaust snemma vart í Gasa því úlfaldalestir frá Mekka og Jaþrib höfðu þar áfangastað. Spámaður hinnar nýju trúar, Múhameð, var raunar af miklum kaupmannaættum og haft er fyrir satt að langafi hans – kaupmaður líka – sé grafinn í Gasa. Því var það að þegar hersveitir frá Arabíu komu brunandi að sunnan með hina nýju trú í farteskinu, þá var Gasa þyrmt og höfðingjar Araba lögðu sig fram um að sýna íbúunum mildi og vinsemd.

Ekki brann Gasa í það sinn.

Menningu umturnað

Hins vegar umturnaðist menningin á nokkrum áratugum. Kirkjur voru aflagðar og moskur komu í staðinn. Mínarettur hófust til himins í stað klukkuturna. Og arabíska ýtti brátt úr sessi hinu gríska móðurmáli flestra Gasabúa.

En þrátt fyrir mildi hinna arabísku innrásarmanna á sjöundu öld tók Gasa nú að hnigna. Þótt við hneigjumst til að sjá ríki múslima á miðöldum fyrir okkur sem einsleita blokk þá fór því í raun fjarri. Sífelldar erjur og stríð voru milli svæða og ættarvelda og Gasa varð nú sem fyrr í skotlínu stríðandi fylkinga í Egiftalandi og Sýrlandi. Ferðalangur á 10. öld lýsir fagurri mosku, blómlegum vínekrum og litríku mannlífi en það var skammvinnt blómaskeið á löngum hnignunartíma.

Árið 1100 var enn enn öllu steypt á hvolf á Gasa þegar kristnir krossfarar komu þangað frá Evrópu og brytjuðu niður íbúana að sínum hætti og reistu kirkjur fyrir þá sem eftir lifðu en að vonum hrakaði borginni enn. Eftir tæp 100 ár undir einkar misviturri stjórn krossfara kom svo hinn mikli Saladín og hrakti þá burt. Sumir sigldu heim til Evrópu með síðustu vestrænu skipunum í höfninni, aðrir flýðu norður til kastala þeirra sem krossfarar héldu enn á ströndinni.

Kristinn Mongóli

Íbúar Gasa þurftu nú enn að byrja endurbyggingu á borg sinni og samfélagi. Og sú tilraun hafði staðið í rúm 60 ár þegar allt í einu birtist ægilegasta ógnin undir borgarmúrunum, óvígur blóðþyrstur her Mongóla undir stjórn herforingjans Kitbuqa, sem var að vísu kristinn en hafði þó síður en svo tilteinkað sér kærleiksboðskap frelsarans frá Palestínu. Hann hafði verið í herliðinu sem murkaði lífið úr íbúum Aleppo og á þeysireiðinni til Gasa hafði hann enn fremur náð að hertaka Damaskus og drepa heilmikið þar.

Íbúum Gasaborgar féllust hendur þegar þeir sáu Mongólaherinn sem An-Nasir Yusuf hafði leitt til borgarinnar. Þeir fóru þegar á fund emírsins sem var að búast til að halda áfram flótta sínum til Egiftalands. Og þvert ofan í öll arabísk lög, gestrisni og samheldni trúbræðra, þá tóku þeir emírinn höndum og fóru með hann til Kitbuqa og sögðu honum að gera við þennan mann það sem honum sýndist.

Hann væri kannski sonarsonarsonur Saladíns en þeir ætluðu ekki að deyja fyrir hann.

Svo opnuðu þeir borgarhlið Gasa upp á gátt fyrir Mongólum.

Kjósa
18
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár