Þessi grein birtist fyrir rúmlega 11 mánuðum.

Þegar rafvirki breytist í prest

Í Dan­mörku er til­finn­an­leg­ur skort­ur á prest­um og út­lit fyr­ir að ástand­ið versni til muna á næstu ár­um. Þá verð­ur iðu­lega að grípa til annarra úr­ræða til að ekki verði messu­fall. Dansk­ir kven­prest­ar hafa þó ástæðu til að gleðj­ast.

Löngum var ég læknir minn,

lögfræðingur, prestur,

smiður, kóngur kennarinn, 

kerra, plógur, hestur.

Í þessari kunnu vísu sem ber heitið Baslhagmennið lýsir skáldið Stephan G. Stephansson (1853–1927) sumum þeirra fjölmörgu starfa sem einyrkinn varð að takast á hendur í búskaparbaslinu vestan hafs.   

Hlutverkin sem Klettafjallaskáldið, eins og Stephan var iðulega kallaður, varð að bregða sér í voru hugsanlega fleiri þótt ekki sé á þau minnst í þessari ferskeytlu. Ekki fer sögum af því að Stephan hafi brugðið sér í hlutverk rafvirkja enda notkun rafmagnsins, eða rafurmagnsins, ekki jafnútbreidd á hans dögum og síðar varð. En ef marka má vísuna sinnti skáldið hlutverki prests, eins og danskur rafvirki gerði áratugum síðar, og nánar verður fjallað um síðar í þessum pistli.

Gömul kirkja og aldraður prestur

Þegar íbúarnir í Sønder Broby á Fjóni mæta til messu í sóknarkirkjunni þurfa þeir ekki að hafa áhyggjur af að presturinn kunni ekki til verka. Klerkurinn, sem messar þar um þessar mundir, heitir Einar Fog-Nielsen, hann er 81 árs að aldri og hefur verið prestur í meira en 50 ár, lengst af í Faaborg á Fjóni. Hann fór reyndar á eftirlaun árið 2008 og sagðist í viðtali hafa verið að velta fyrir sér hvað hann ætti að gera við hempuna þegar hann kom heim að lokinni síðustu guðsþjónustunni.

Þær vangaveltur voru ótímabærar því Einar Fog-Nielsen hefur haft meira en nóg að gera þau 15 ár sem liðin eru síðan hann ætlaði að setjast í helgan stein (eins og hann orðar það sjálfur). Fyrsti eftirlaunadagurinn var ekki að kvöldi kominn þegar byrjað var að hringja til að spyrja hvort hann gæti ekki tekið að sér að vera íhlaupaprestur. Einar Fog-Nielsen sagði já við beiðninni en sagði að sig hefði ekki grunað að hann yrði enn að messa og þjónusta 15 árum síðar. Hann hefur gert samning við sóknarnefndina um að annast guðsþjónustur og önnur embættisverk fram yfir næstu páska. Í viðtali við danska útvarpið, DR, sagðist Einar Fog-Nielsen vera við góða heilsu og hafa gaman af að þjóna söfnuðinum en auðvitað væri æskilegast að fá fastan prest til starfa „en prestar eru ekki gripnir upp af götunni“ sagði Einar Fog-Nielsen, sem hafði lög að mæla.

Prestaskortur blasir við

Um nokkurra ára skeið hefur blasað við að ef ekkert yrði að gert væri fram undan mikill skortur á prestum. Meðalaldur danskra presta er hár og árið 2029 mun, að óbreyttu, vanta tugi presta til starfa. Árið 2018 lagði sérstök nefnd á vegum kirkjunnar til að fólki með háskólamenntun í tilteknum greinum yrði gefinn kostur á styttra námi en hefðbundinni guðfræðimenntun og gæti að því loknu starfað sem prestar.

„Lars rafvirki féllst á að taka verkefnið að sér, hann hafði margoft sótt messu og vissi vel hvernig venjulegar sunnudagsmessur fara fram“

Frumvarp um þetta var samþykkt á danska þinginu og lögin gilda til ársins 2030. Miðað er við að námið taki tvö og hálft ár og að því loknu geti viðkomandi sótt um prestsembætti. Á síðasta ári byrjuðu 70 nemendur í þessu „sérnámi“ eins og það er kallað á vef kirkjumálaráðuneytisins, en samtals eru um 2.400 prestar starfandi í Danmörku. Prestaskorturinn er nú þegar umtalsverður en til að ekki þurfi að fella niður auglýstar guðsþjónustur er gripið til leikmanna ef ekki tekst að útvega afleysingaprest. 

Rafvirki hleypur í skarðið

Á fimmtudagskvöldi fyrir tveimur vikum hringdi síminn hjá Lars Prier Andreasen rafvirkja, sem býr í Roslev á Norður-Jótlandi. Í símanum var formaður sóknarnefndar Salling prófastsdæmis en áðurnefndur Lars á sæti í sóknarnefndinni. „Nú er illt í efni, það á að messa á sunnudaginn, presturinn er veikur og það er enginn afleysingaprestur fáanlegur, þeir eru eins og presturinn, allir með Covid eftir ferð til Finnlands,“ sagði sóknarnefndarformaðurinn. „Já,“ sagði Lars rafvirki, „og hvað á ég að gera í því?“ „Það sem þú átt að gera í því er að messa á sunnudaginn,“ var svarið. Lars rafvirki féllst á að taka verkefnið að sér, hann hafði margoft sótt messu og vissi vel hvernig venjulegar sunnudagsmessur fara fram.

Hann fékk jafnframt að vita að hann mætti ekki taka til altaris, ekki skíra og ekki fara með blessunarorð. „Hvað með hempu?“ spurði Lars rafvirki. „Nei, mátt ekki skrýðast hempu, verður að láta jakkaföt duga,“ sagði sóknarnefndarformaðurinn. Skemmst er frá því að segja að guðsþjónustan fór fram á tilteknum tíma, fremur fámennt var í kirkjunni þennan dag en Lars rafvirki sagði að kirkjugestir hefðu klappað sér á öxlina að athöfninni lokinni, nokkrir hefðu reyndar sagt að hann mætti gjarnan æfa sig meira.

Þessi frásögn af rafvirkjanum sem hljóp í skarðið fyrir prestinn er dæmigerð fyrir ástandið í dönsku kirkjunni, sem æ oftar þarf að leita á náðir leikmanna til að messa.  

Áratuga barátta danskra kvenpresta ber loks árangur

Í grein sem birtist í Kjarnanum fyrir rúmu ári, 4. september 2022, undir yfirskriftinni „Ekki allir þjónar jafnir í dönsku guðshúsunum“, var fjallað ítarlega um baráttu kvenpresta fyrir jafnrétti til starfa. Ekki skal innihald þess pistils endurtekið hér en hann má finna á hlekknum hér fyrir neðan. Ástæða þess að þetta er nefnt hér er að í niðurlagi pistilsins áðurnefnda kom fram að Ane Halsboe-Jørgensen, þáverandi ráðherra kirkjumála, væri tilbúinn að skoða lagabreytingar varðandi skipan presta. Þetta var sem sé fyrir ári. Nú hefur það gerst að Louise Schack Elholm, sem nú er ráðherra kirkjumála, hefur ákveðið að lögum um skipan presta verði breytt. 

Breytingin er í stuttu máli að í jafnréttislögum frá 1978 var í gildi gömul undanþáguheimild (frá árinu 1919) varðandi embætti presta. Undanþágan fólst í því að að sóknarnefndir gátu ákveðið að ganga framhjá kvenkyns umsækjendum um prestsembætti. Nú verður þetta undanþáguákvæði afnumið. Einn þeirra kvenpresta sem beitt hefur sér hvað mest í þessu máli er Meghan Welsch Jakobsen sem réðst til starfa í Gudhjem á Borgundarhólmi. Þar mætti hún miklum fordómum og sagði á endanum upp og er nú prestur á Sjálandi. Í viðtali við danska útvarpið fyrir nokkrum dögum sagðist hún ákaflega glöð yfir að framvegis sætu kvenprestar við sama borð og karlar og ekki yrði lengur heimilt að synja kvenprestum um embætti á grundvelli kyns.           


Eftir að greinin hér að ofan fór í prent, og birtist í Heimildinni 24.11, hefur Troels Lund Poulsen nýkjörinn formaður Venstre gert breytingar á ráðherraliði flokksins. Morten Dahlin er nýr ráðherra sveitastjórna – og kirkjumála og ennfremur norrænnar samvinnu í stað Louise Schack Elholm sem ekki á lengur sæti í ríkisstjórninni. Stjórnmálaskýrendur telja að með þessari breytingu vilji Troels Lund Poulsen leggja aukna áherslu á málefni landsbyggðarinnar og bænda.
Kjósa
22
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár