Landspítalinn brást konu sem leitaði til bráðamóttökunnar vegna áverka af völdum heimilisofbeldis, segir Hjalti Már Björnsson yfirlæknir, um leið og hann biðst afsökunar fyrir hönd spítalans. Konan greindi frá reynslu sinni af spítalanum með bréfi sem birt var í leiðara Heimildarinnar þann 20. október.
Varhugaverð viðbrögð
Í frásögn konunnar kom fram að hún hafði strax við komuna á spítalann tilkynnt heimilisofbeldi, en hún þurfti engu að síður að bíða lengi eftir viðtali við lækni. Óskað var eftir aðkomu lögreglu áður en læknisskoðun fór fram, en læknir sagði ranglega að slíkt væri ekki gert og framkvæmdi skoðunina án þess að kalla lögreglu til.
Að skoðun lokinni sagði læknirinn að áverkarnir, meðal annars eftir kverkatak, væru ekki nógu alvarlegir til að það tæki því að taka ljósmyndir af þeim. Eftir að hafa heyrt atvikalýsinguna brást læknirinn síðan við með því að segja að það þyrfti að tilkynna konuna til barnaverndaryfirvalda.
Athugasemdir