Þessi grein birtist fyrir rúmlega 12 mánuðum.

Þúsundir fjölskyldna neyddar til að flytja úr dönskum „vandræðahverfum“

Á næstu ár­um verða þús­und­ir fjöl­skyldna bú­sett­ar í svo­köll­uð­um „gettó­um“ nokk­urra borga Dan­merk­ur neydd­ar til að flytja. Þetta er ákvörð­un dönsku rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem vill upp­ræta ,„vand­ræða­hverf­in“.

Allvíða í Danmörku hafa á undanförnum áratugum orðið til hverfi þar sem hlutfall innflytjenda og afkomenda þeirra er mun hærra en í öðrum hverfum. Iðulega spunnust um það umræður í fjölmiðlum og á þingi að óæskilegt væri að í borgum og bæjum væri að finna einskonar  hliðarsamfélag eða vandræðahverfi, eins og komist var að orði.

Í áramótaræðu árið 2004 fór Anders Fogh Rasmussen mörgum orðum um þá óheillaþróun, eins og hann orðaði það, að slík hliðarsamfélög festust í sessi í Danmörku „hér eiga allir að tilheyra sama samfélaginu“. Í fjölmiðlum mátti lesa að margir væru þessu sammála en þrátt fyrir það hefur þessum hliðarsamfélögum fjölgað og þau jafnframt stækkað í hlutfalli við fjölgun innflytjenda sem komið hafa til landsins.

Gettó

Orðið gettó, sem fyrirfinnst í mörgum tungumálum, iðulega skrifað ghetto, er aldagamalt. Uppruninn er óljós en eitt elsta dæmi um slíkt hverfi er frá 11. öld, í Prag. Eftir miðja 15. öld varð til í Frankfurt hverfi gyðinga og slíkt hverfi varð til í Feneyjum árið 1516, gyðingum hafði fram til þess tíma ekki verið heimilt að búa í borginni en fengu nú heimild til að búa í sérstöku hverfi í borginni, með ströngum skilyrðum. Árið 1692 lagði lögreglustjórinn í Kaupmannahöfn til að sérstakt gyðingahverfi yrði til í borginni, sú hugmynd náði aldrei lengra. Á árum síðari heimsstyrjaldar stofnuðu þýsku nasistarnir fjölmörg gyðinga-gettó í löndum Austur-Evrópu.

Nú er notkun orðsins gettó ekki bundin við hverfi gyðinga, merkingin á við einskonar hliðarsamfélag, hverfi þar sem fólk af sama uppruna býr og mannlífið lýtur á ýmsan hátt öðrum lögmálum en annars gilda.

Fyrst notað í Danmörku árið 1964

Í grein sem birtist í dagblaðinu Berlingske Tidende árið 1964 sást orðið gettó (ghetoo) í fyrsta sinn á prenti í Danmörku. Greinin fjallaði um hverfi í Sviss, þar sem erlent verkafólk (gæstearbejdere) bjó. Í skýrslu sem unnin var fyrir stjórnvöld um aðstæður erlends verkafólks og birt var árið 1976 var sérstaklega talað um afmarkaða bæjarhluta á Austurbrú, Vesturbrú og Norðurbrú í Kaupmannahöfn.

Þar væri greinileg gettótilhneiging, húsaleiga lág og íbúðir litlar og iðulega í lélegu ástandi. Á síðustu tveimur áratugum síðustu aldar jókst notkun orðsins gettó um svæði þar sem hlutfall íbúa af erlendu bergi brotið var hátt, þetta átti ekki hvað síst við um hverfin vestan Kaupmannahafnar. 

Mistök

Um og eftir miðja síðustu öld fjölgaði útlendingum sem fluttu til Danmerkur í atvinnuleit, í þeim hópi voru Tyrkir fjölmennastir. Heppilegt þótti að innflytjendur af sama þjóðerni byggju á sama svæði, þannig gætu þeir hjálpað hver öðrum á meðan þeir væru að koma sér fyrir.

Fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur sagði í samtali við greinarhöfund, að þetta fyrirkomulag hafi verið mikil mistök, það hefði komið í ljós síðar. Með þessu fyrirkomulagi urðu til hverfakjarnar, þar sem íbúarnir umgengust nær enga aðra en landa sína, héldu sínum siðum og lærðu aldrei dönsku. Mörg dæmi eru um innflytjendur sem búið hafa í Danmörku í áratugi en tala varla stakt orð í dönsku.

Áætlun til að sporna gegn gettómyndun

Árið 2010 kynnti Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra hugmyndir og vilja ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn „gettómyndun“ eins og ráðherrann komst að orði. Ekki hafði fram að þessu verið til skilgreining á því hvað gettó væri en nú hafði ríkisstjórnin látið vinna slíka greiningu. Fimm atriði voru tilgreind og ef þrjú eða fleiri þeirra eiga við um tiltekið hverfi flokkist það sem gettó.

  1. Meira en 40 prósent íbúa á aldrinum 18 til 64 ára eru án atvinnu og stunda ekki nám.
  2. Hlutfall innflytjenda og afkomenda þeirra er meira en 50 prósent.
  3. Þrjú prósent íbúa, 18 ára eða eldri, hafa brotið lög um vopnaburð og eða lög um fíkniefni.
  4. Helmingur íbúa á aldrinum 30 – 59 ára er án lágmarksmenntunar.
  5. Laun fólks á aldrinum 15 – 64 ára, sem ekki stundar nám, ná ekki 55 prósentum meðallauna samsvarandi hóps á sama atvinnusvæði.

Þessi skilgreining hefur verið notuð, lítið breytt, í 23 ár. Árið 2021 var að mestu leyti hætt að nota orðið gettó, í staðinn notað „parallelsamfund“ (hliðarsamfélag) eða „udsat område“ (viðkvæmt svæði). Rökin fyrir þessari breytingu voru þau að í orðinu gettó fælist röng eða neikvæð merking. Stærstu hverfin sem falla undir þessar skilgreiningar eru í Kaupmannahöfn, Árósum og Óðinsvéum.

Flytja íbúa og rífa blokkir

Ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen féll í þingkosningum 2011 og við tók stjórn Helle Thorning-Schmidt. Eftir þingkosningarnar 2015 tók stjórn undir forystu Lars Løkke Rasmussen aftur við, sú stjórn sat til 2019.

UmdeiltLars Løkke Rasmussen og sjö ráðherrar í stjórn hans héldu fréttamannafund í Mjølnerparken á Norðurbrú í Kaupmannahöfn vorið 2018 þar sem þeir kynntu áætlun um róttækar aðgerðir til að uppræta hliðarsamfélög og hamla gegn því að ný slík verði til.

Á fyrsta degi marsmánaðar 2018 héldu Lars Løkke Rasmussen og sjö ráðherrar í stjórn hans fréttamannafund í Mjølnerparken á Norðurbrú í Kaupmannahöfn. Á fundinum kynntu ráðherrarnir áætlun um róttækar aðgerðir til að uppræta hliðarsamfélögin og hamla gegn því að ný slík verði til. Áætlunin var í 22 liðum.

Mesta athygli vöktu orð forsætisráðherrans um að hluta íbúa í hliðarsamfélögum yrði gert að flytja í annað hverfi og að hugsanlega þyrfti að rífa sumar íbúðablokkir og breyta öðrum. Þannig yrði unnt að lækka hlutfall íbúða í opinberri eigu, eða í eigu byggingarsamvinnufélaga (þar sem innflytjendafjölskyldur búa gjarna). Þetta myndi hafa í för með sér að þúsundir fjölskyldna yrðu að flytja, sumar gegn vilja sínum.

Danskir fjölmiðlar hafa kallað þessa áætlun „mestu þjóðfélagstilraun aldarinnar“. Gagnrýnendur sögðu þetta „þjóðfélagsstefnu með jarðýtu“. Einnig vakti mikla athygli sú tillaga stjórnarinnar að strangari refsing, nánar tiltekið tvöfalt strangari, liggi við brotum sem framin séu í hliðarsamfélögum eða á svæðum sem lögreglan tilgreinir, en í öðrum hverfum eða bæjarhlutum. Ekki skipti máli hvar sá brotlegi sé búsettur, heldur hvar brotið sé framið.  Þetta telja margir útilokað að geti staðist, refsing vegna brots sem framið sé í hliðarsamfélagi geti ekki verið strangari en vegna samskonar brots í hverfi sem ekki telst hliðarsamfélag. Á fundi ráðherranna í Mjølnerparken kom fram að verkefnið myndi taka nokkur ár, líklega allt til ársins 2030.

Þrjú þúsund íbúar Vollsmose þurfa að flytja

Stærsta hliðarsamfélag (gettó) Danmerkur er í Vollsmose hverfinu í Óðinsvéum. Árið 2020 bjuggu þar um 9 þúsund manns, 82 prósent íbúanna innflytjendur eða afkomendur þeirra og 76 prósent þeirra frá löndum utan Vesturlanda. Í hverfinu bjó fólk frá 80 löndum og 52 prósent íbúa á aldrinum 18- 64 ára voru hvorki í námi né vinnu.

Samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar verða um það bil eitt þúsund íbúðir jafnaðar við jörðu og þrjú þúsund manns þurfa því að flytja annað, sumir ef til vill tímabundið en aðrir fyrir fullt og allt. Í stað þeirra þúsund íbúða sem hafa verið í eigu hins opinbera eða íbúðasamtaka (almene boliger) verða byggð ný hús þar sem að minnsta kosti 60 prósent íbúða verða í einkaeigu. Það er samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar. Þegar þessar línur eru settar á blað hafa vel á fimmta hundrað íbúðir verið tæmdar og rifnar niður.

Líkt við kynþáttamisrétti

Margir hafa orðið til að gagnrýna „þjóðflutninga ríkisstjórnarinnar“ eins og sumir hafa komist að orði. Evrópudómstólnum hafa borist fjölmörg erindi, þar sem kærendur líkja ákvörðun ríkisstjórnar Danmerkur við kynþáttamisrétti.

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna hafa mælt með að dönsk stjórnvöld fari sér hægt í að neyða fólk til flutninga og selja húsin til niðurrifs. Nauðsynlegt sé að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort ákvarðanir stjórnvalda standist lög áður en lengra er haldið. Eins og áður sagði er niðurrifið í Vollsmose hafið og fjöldi fólks hefur þegar flutt annað.

Sumir fagna því að flytja en aðrir ekki

Danir eru ekki eina þjóðin sem glímt hefur við ýmis þau vandamál sem fylgja hliðarsamfélögum. Hvergi hefur þó verið gripið til viðlíka aðgerða og í Danmörku. Ákvarðanir dönsku ríkisstjórnarinnar hafa vakið athygli  og um þær fjallað í fjölmiðlum víða um heim. Bandaríska stórblaðið New York Times birti fyrir nokkrum dögum langa umfjöllun um málið undir yfirskriftinni „Denmark aims a Wrecking Ball at „Non Western“ Neighborhoods“ (Danmörk miðar brotkúlunni á útlendingahverfi).

Blaðamaðurinn Emma Bubola hitti fjölmarga íbúa í stærstu hliðarsamfélögum Danmerkur og innti eftir áliti þeirra á ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Svörin voru á marga vegu: Sumir lýstu ánægju með að flytja, sögðust ekki þora út fyrir hússins dyr eftir að skyggja tekur, aðrir voru ekki jafn ánægðir með að flytja.

Í viðtali við blaðamann New York Times sagði sonur konu sem flutti frá Austur- Þýskalandi fyrir tæpum 40 árum móður sína hafa verið mjög ósátta við að þurfa að flytja. Hjón sem flýðu frá Íran fyrir áratugum sögðu í viðtali að greinilegt væri að litið væri á fólk eins og þau sem vandamál. „Við höfum búið hér í Gellerup parken í Árósum, alið upp tvö börn og aldrei lent í einu né neinu.“

Í Gellerup parken eru um 1.800 íbúðir, stærstur hluti íbúanna innflytjendur eða afkomendur innflytjenda. Samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar verða 400 þessara íbúða rifnar. Í Toveshøjhverfinu, skammt frá Gellerup parken stendur til að rífa 200 íbúðir af þeim 624 sem í hverfinu eru. Í sumum hverfum sem skilgreind eru sem hliðarsamfélög, verður eignarfyrirkomulaginu breytt, þannig að í stað þess að íbúðir séu í eigu opinberra félaga verði þær seldar einstaklingum eftir tilteknum reglum.

Eins og nefnt var fyrr í þessari grein er gert ráð fyrir að verkefninu sem miðar að því að uppræta hliðarsamfélögin verði lokið árið 2030. Hvort það gengur eftir er ókomið í ljós. Úrskurður Evrópudómstólsins, þegar og ef hann kemur, getur líka haft mikil áhrif.

Kjósa
50
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár