Nóttin var löng fyrir Isaac Kwateng, vallarstjóra Þróttar, sem vissi að klukkan fimm um morguninn myndu lögreglumenn birtast og vísa honum úr landi. Fjórir af hans nánustu aðstandendum hér á landi voru með honum í nótt til þess að styðja hann þessar síðustu stundir á Íslandi – í bili.
Stundvíslega klukkan fimm í morgun bönkuðu lögreglumenn svo upp á heimili framkvæmdastjóra Þróttar þar sem Isaac var með sínum nánustu. Þeir voru óeinkennisklæddir en vingjarnlegir. Lögreglumennirnir spjölluðu við Isaac og aðstandendur hans um stund og svo var komið að því. Isaac var fluttur á brott í bifreið þeirra og er nú í flugvél á leið til Hollands hvaðan hann flýgur svo í lögreglufylgd til Gana.
Jón Hafsteinn Jóhannsson, þjálfari hjá Þrótti var með Isaac í nótt.
„Maður var alveg fram á síðustu stundu með von um að þetta yrði ekki,“ segir Jón Hafsteinn. „Maður upplifir ákveðinn tómleika. Mér finnst fjara aðeins undan því að maður sé stoltur Íslendingur. Mér finnst það mjög miður.“
Er áfram starfsmaður Þróttar
Isaac kom til landsins í janúarmánuði árið 2018. Hann fékk neitun um alþjóðlega vernd síðar sama ár og árlega síðan fékk hann símtal um að vísa ætti honum úr landi. Honum var hafnað um alþjóðlega vernd árið 2018 en aftur og aftur endurtók sama atburðarásin sig. Enginn kom og færði hann með valdi úr landi. Ekki fyrr en í morgun.
Fyrir tæpum tveimur árum var Isaac ráðinn sem vallarstjóri Þróttar og hefur síðan þá sinnt starfinu með mikilli prýði að sögn framkvæmdastjóra félagsins og annarra starfsmanna þess.
„Við verðum bara handlama hérna án hans,“ sagði María Edwardsdóttir framkvæmdastjóri við Heimildina í byrjun mánaðar. „Þetta mun koma sér mjög illa fyrir okkur.“
Þróttur hélt styrktarleik fyrir Isaac um helgina. Um 700 manns mættu og safnaðist nægt fé til þess að styðja við Isaac til að byrja með. Með sjóðnum hefur Þróttur keypt hótelgistingu fyrir Isaac í tvær vikur í Gana og mun starfsfólk hótelsins sækja Isaac á flugvöllinn þegar hann lendir þar í lögreglufylgd.
Þróttarar eru bjartsýnir á framhaldið. Þrjár umsóknir sem gætu tryggt veru hans hér á landi eru opnar í kerfinu: Umsókn um dvalar og atvinnuleyfi, umsókn um ríkisborgararétt sem tekin verður fyrir í desember og umsókn um atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk, en Isaac spilar knattspyrnu með SR, varaliði Þróttar.
„Nú er fókus okkar allra farinn á það að tryggja komu hans heim sem fyrst,“ segir Jón Hafsteinn og bætir við því að Þróttur horfi á fjarveru Isaacs eins og frí.
„Við lítum enn á það þannig að hann sé starfsmaður félagsins. Nú ganga aðrir að einhverju leyti í hans störf á meðan hann er ekki við. Hann á auðvitað rétt á sínu fríi, við horfum á það þannig að hann sé í fríi og núna hjálpast aðrir starfsmenn félagsins að.“
Og Isaac ætlar að nýta ferð sína til Gana, sem hann segist hafa yfirgefið í miklum flýti árið 2017 vegna árásar sem beindist að honum og vini hans, í að afla þeirra gagna sem hann þarf frá upprunalandinu.
„Nú er hann með dagskrá til að fara að redda þessum gögnum sem hann þarf þegar hann verður Íslendingur,“ segir Jón Hafsteinn bjartsýnn. „Hér er hann að stefna á að eyða sínu lífi og við ætlum ekki að hætta fyrr en svo verður.“
Isaac vinningur fyrir Þrótt
Fjarvera Isaacs mun hafa þau áhrif að þjónustan hjá Þrótti skerðist að einhverju leyti þar sem stefnan er ekki að ráða nýjan vallarstjóra, alla vega ekki strax.
„Það var náttúrulega algjör vinningur fyrir félagið að hafa fengið hann í starf fyrir félagið á sínum tíma. Auðvitað er gott fólk víða en ég efa það að það sé einhver eins og Isaac okkar,“ segir Jón Hafsteinn.
„Ég hugsa að það verði ekki einhver á hverjum morgni sem einhvern labbar um og tekur upp dótið sem krakkarnir týndu daginn áður og kemur því á góðan stað svo foreldrar og fleiri þurfa kannski að byrja á að leita óskilamuna úti á velli.“
Ætlaði varla að treysta sér á styrktarleikinn
Isaac leið illa í aðdraganda brottvísunarinnar enda er hann nú sendur til lands þar sem hann á ekki lengur neinn að, að eigin sögn, og ætlaði hann varla að treysta sér að taka þátt í styrktarleiknum í gær.
„Í upphafi dagsins var hann ekkert nema gráturinn en ég held að samt á endanum hafi það verið gott fyrir hann því þetta á endanum stappaði ákveðnu stáli í hann,“ segir Jón Hafsteinn.
Hver króna sem þar safnaðist verður nýtt í að aðstoða Isaac við að komast aftur til Íslands.
„Við hættum ekki fyrr en hann er kominn aftur til okkar þar sem hann á heima,“ segir Jón Hafsteinn.
Athugasemdir (2)