Á fyrri hluta yfirstandandi árs hafa heimili landsins greitt um 58,8 milljarða króna í vaxtagjöld. Á sama tímabili í fyrra greiddu þau 36,3 milljarða króna. Þar skeikar 22,5 milljörðum króna sem heimili landsins hafa þurft að reiða fram í vexti af lánum sem þau hafa tekið sem þau þurftu ekki að greiða á fyrri hluta árs í fyrra.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu Íslands um tekjuskiptingauppgjör heimilisgeirans sem birtar voru í dag.
Þar kemur líka fram að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila á mann hafi dregist saman um 5,2 prósent á öðrum ársfjórðungi ársins 2023, þrátt fyrir að tekjur þeirra hafi hækkað umtalsvert. Það þýðir að hann hefur lækkað fjóra ársfjórðunga í röð samkvæmt endurskoðum tölum Hagstofunnar. Kaupmátturinn hefur ekki lækkað svona mikið innan ársfjórðungs síðan undir lok árs 2010, þegar hann lækkaði um sjö prósent.
Ráðstöfunartekjur í krónum talið jukust um 3,8 prósent frá lokum júní í fyrra og fram á mitt ár 2023. Vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu, hækkaði hins vegar um 9,4 prósent á sama tímabili.
Vaxtagjöld upp um 61 prósent á einu ári
Ráðstöfunartekjur eru þeir peningar sem standa eftir þegar búið er að draga skatta og önnur gjöld frá launum viðkomandi og kaupmáttur þeirra lýsir því hvað hver getur keypt fyrir þær tekjur. Þegar kaupmátturinn dregst saman þá getur viðkomandi keypt minna fyrir krónurnar sem hann hefur til ráðstöfunar í hverjum mánuði.
Ástæða þess að íslensk heimili fá minna fyrir krónurnar sínar er sú að útgjöld þeirra hækka mun hraðar en tekjurnar um þessar mundir, enda verðbólga búin að vera mjög há og þrálát frá því snemma á síðasta ári. Það hefur leitt til þess að heildarútgjöld jukust um 17,2 prósent á öðrum ársfjórðungi 2023 sé miðað við sama fjórðungi á meðan að heildartekjur heimila jukust um tæplega 11,6 prósent.
Langstærsti hluti útgaldaaukningarinnar er vegna þess að heimilin eru að greiða miklu meira í vexti en áður. Um mitt ár í fyrra voru vegnir óverðtryggðir meðalvextir á íbúðalánum um 5,8 prósent. Í dag eru þeir um ellefu prósent, enda stýrivextir búnir að fara úr því að vera 4,75 í 9,25 prósent.
Hlutfallslega aukningin sem varð á vaxtagjöldum á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra er sú mesta á ársgrundvelli að minnsta kosti frá byrjun árs 2003, en tölur Hagstofunnar ná ekki lengra aftur en það.
Fyrra metið var sett í kjölfar bankahrunsins. Þá varð mesta hækkun vaxtagjalda á ársgrundvelli milli þriðja ársfjórðungs 2008 og sama tímabils ári síðar þegar vaxtagjöld heimilanna jukust um tæp 56 prósent á einu ári. Hækkunin sem varð á vaxtagjöldum heimila milli annars ársfjórðungs í fyrra og sama tímabils í ár var 61,3 prósent, en þau fóru úr 18,8 í 30,3 milljarða króna á tímabilinu.
Bankarnir græða
Þessi þróun hefur haft verulega jákvæð áhrif á uppgjör stóru viðskiptabankanna þriggja, Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka. Rekstrarafkoma þeirra hefur verið góð þrátt fyrir erfitt árferði. Þeir högnuðust samtals um 40,3 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum yfirstandandi árs.
Á fyrri hluta ársins námu hreinar vaxtatekjur stóru bankanna þriggja samtals 74,9 milljörðum króna. Það tæplega 15 milljörðum krónum meira en þeir þénuðu vegna slíkra á fyrri hluta ársins 2022. Um er að ræða næstum 25 prósent sameiginlegan vöxt.
Vaxtatekjurnar byggja á muninum á þeim vöxtum sem bankarnir borga fyrir að fá peninga að láni og þeim vöxtum sem þeir rukka fyrir að lána einstaklingum og fyrirtækjum fjármuni. Sá munur kallast vaxtamunur. Hann var 2,7 til 3,1 prósent á árinu 2022, sem er meiri munur en var árið áður, þegar hann var 2,3 til 2,8 prósent.
Á fyrri hluta yfirstandandi árs hélt hann áfram að aukast. Hann var kominn upp í 3,2 prósent hjá bæði Íslandsbanka og Arion banka en var 2,9 prósent hjá Landsbankanum.
Vaxtamunur íslensku bankanna er miklu hærri en hjá bönkum af sambærilegri stærð á hinum Norðurlöndunum þar sem hann er um 1,6 prósent. Hjá stórum norrænum bönkum er hann enn minni, eða um 0,9 prósent.
Fleiri að lenda í vanda
Það má gera ráð fyrir því að vaxtakostnaður heimila muni halda áfram að aukast. Verðbólga hefur reynst þrálát, stendur nú í átta prósentum og fer hækkandi. Frá miðju ári hafa stýrivextir hækkað um 0,5 prósentustig og flestir greiningaraðilar búast við því að þeir muni halda áfram að hækka, að minnsta kosti út þetta ár.
Í nýju fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands kom auk þess fram að fjölmörg heimili sjá fram á stóraukin kostnað vegna vaxta eða verðbóta. Alls munu óverðtryggð íbúðalán upp á 53 milljarða króna ljúka fastvaxtatímabili sínu á síðustu fimm mánuðum ársins 2023, lán upp á 128 milljarða króna bætast við á næsta ári og upp á 281 milljarð króna á árinu 2025. Við það munu vextir margra fara úr því að vera undir fimm prósent í að vera um ellefu prósent, og greiðslubyrði þeirra tvöfaldast. Ráði fólk ekki við þá auknu greiðslubyrði getur það fært sig yfir í verðtryggð lán og tekið aðlögunina út í gegnum verðbætur sem leggjast á höfuðstól lána á sama tíma og raunverð húsnæðis hefur lækkað um 5,3 prósent á einu ári.
Þeir sem eiga sparifé hagnast
Þeir sem eiga innstæður græða líka á ástandi sem þessu. Vaxtatekjur hafa aukist gríðarlega. Þær voru 32,5 milljarðar króna á fyrri hluta ársins 2022 en 52,1 milljarður króna á sama tímabili í ár. Það er aukning upp á 60,3 prósent. Það þarf að leita aftur til tímans fyrir bankahrun til að finna álíka hækkun á vaxtatekjum á einu ári.
Í lok árs í fyrra voru innlán heimila landsins alls 1.101 milljarður króna. Þar af áttu tekjuhæstu tíu prósent landsmanna 507,5 milljarða króna á bók, eða 46 prósent allra innlána í eigu einstaklinga. Þau 30 prósent landsmanna sem þénuðu mest áttu alls innlán upp á 816,1 milljarð króna um síðustu áramót, eða 74 prósent allra innlána. Því má ljóst vera að þorri vaxtatekna heimila lendir hjá tekjuhæstu hópum samfélagsins sem geta lagt mest fyrir.
Athugasemdir (1)