Manstu eftir Franciscu, kassadömunni í Bónus sem rataði í fréttirnar fyrir að taka alltaf brosandi á móti viðskiptavinum? Í samtali við Vísi lýsti eldri maður því að þótt röðin væri lengri á kassanum hjá henni færi hann alltaf þangað. Biðin væri þess virði: „Hún er alltaf svo glöð.“
Francisca kom frá Sambíu til Íslands til að vinna. Sagðist hún hefja hvern dag á samkomum með kaþólskum nunnum áður en hún færi til vinnu, þar sem hún einbeitti sér að hverjum kúnna fyrir sig og sá viðskiptavini sem vini.
Í dag er viðskiptavinum stórmarkaða beint að sjálfsafgreiðslukössum.
Annar öðlingur vakti nýlega athygli í viðtali við Kastljósið, einn af fáum bensínafgreiðslumönnum sem eftir eru, Sæmundur Jóhannesson. „Hann Sæmundur hefur alla tíð séð um bílinn minn, alltaf viðmótshlýr og með fallegt bros á vör,“ skrifaði einn, enda Sæmundur orðlagður „ljúflingur“ og „öðlingsmaður“. „Þeir eru fínir þarna á Ægisíðunni,“ skrifaði annar, „tveir á svipuðum aldri. Minna báðir á liðna tíma í þjónustulund og viðmóti.“
Í athugasemdum við deilingu á viðtalinu spratt upp umræða um gildi þjónustu, þar sem mennskan er í fyrrirúmi: „Því miður hefur þjónusta lagst af á mörgum bensínstöðvum, en ég minnist til dæmis starfsmanna á bensínstöðinni á Birkimel sem voru sérstaklega ljúfir og hjálpsamir.“
Nú eru nánast allar bensínafgreiðslustöðvar með sjálfsafgreiðslukassa. Á örfáum þeirra er enn að finna starfsmenn. Þetta er stétt sem er að deyja út.
„Það var stanslaust spjall og skemmtun í gamla Íslandsbankaútibúinu í Lækjargötu. Þetta voru fjölskylduvinir.“
Bankaútibú er varla að finna lengur, þar sem hægt var að koma við, fá sér kaffi og ræða stöðuna við starfsfólkið. „Sem gamall bankagjaldkeri, man ég þá tíð þegar maður átti gott spjall við marga viðskiptavini. Suma þekkti maður orðið ansi vel. Fólk hafði þörf fyrir að spjalla,“ skrifaði þátttakandi í umræðunum og annar tók undir: „Það var stanslaust spjall og skemmtun í gamla Íslandsbankaútibúinu í Lækjargötu. Þetta voru fjölskylduvinir.“
Ef þú þarft að eiga viðskipti við banka í dag fara þau að mestu fram í gegnum heimabankann, nema þú sért tilbúinn til að greiða sérstaklega fyrir símtalið, í takt við trendið í samfélaginu þar sem tæknin er að taka yfir félagsleg samskipti.
Á sama tíma herjar faraldur einmanaleika og félagslegrar einangrunar á heiminn.
Félagsleg einangrun
Niðurstöður bandarískrar rannsóknar voru kynntar með einföldum spurningum: Hvað ef eitthvað í daglegu lífi væri til þess fallið að umbreyta heilsu þinni og velferð? Hvað ef það gæti dregið umtalsvert úr líkum á því að þú þróir með þér eða versnir af; kvíða, þunglyndi, háum blóðþrýstingi, hjartasjúkdómum og sykursýki? Hvað ef þú vissir að skortur á því eykur líkur á ótímabæru dauðsfalli jafn mikið og ef þú reyktir fimmtán sígarettur á dag?
Þetta fyrirbæri er til: Félagsleg tengsl, forsenda heilsu og velferðar. Einmanaleiki og félagsleg einangrun getur skert lífaldur, aukið líkur á hjartasjúkdómum um 29 prósent, hjartaáföllum um 32 prósent og heilabilun á seinni hluta ævinnar um 50 prósent.
En félagsleg tengsl þarf að rækta og næra til að fólk blómstri. Þó að einstaklingar beri ábyrgð á sjálfum sér, er það hlutverk okkar allra, mitt, þitt og samfélagsins, að stuðla að heilbrigði, velmegun og þrautseigju samfélagsins með því að leggja okkar af mörkum.
Á undanförnum árum hefur þeim fjölgað sem búa einir í Bandaríkjunum, Bretlandi, Noregi, Danmörku og víðar, en þriðjungur Dana býr einn. Rannsóknir þar í landi sýndu að fólk sem býr eitt er óhamingjusamara og kvíðnara en fólk sem býr með öðrum. Hér á landi hafði árið 2019 fjölgað um 20 prósent frá árinu 2014 í hópnum sem bjó hvorki með maka né börnum. Þriðjungur þjóðarinnar taldist „tilheyra einstaklingsfjölskyldu“, eða tilheyra sjálfum sér, án þess að vitað væri fyrir víst hvort þetta fólk byggi eitt eða ekki. Í fréttaskýringu RÚV um málið reyndi blaðamaður að glöggva sig betur á stöðunni með því að rýna í tölur frá árinu 2011, þegar þriðja hvert heimili taldist „einmenningsheimili“.
Betra að eiga Bjarna
Einvera er ekki það sama og einmanaleiki. Einmanaleiki er mannleg þjáning þess sem er hluti af samfélagi en nær ekki að tengjast öðru fólki sterkum böndum. Á meðan sumir bregðast við einmanaleika með því að draga sig í hlé, geta aðrir orðið pirraðir og reiðir. Því hefur jafnvel verið haldið fram að málflutningur stjórnmálamanna sem ala á sundrungu í samfélaginu auki á einmanaleika. Til að spyrna gegn því sé mikilvægt að skapa menningu tengsla, jafnræðis og virðingar.
Lengi vel var talað um einmanaleika aldraðra, en einmanaleiki mælist einnig hár á meðal ungs fólks. Einstæðingar, fólk sem býr við fátækt, í leiguhúsnæði, tilheyrir minnihlutahópum, hefur ekki hlutverk í nærsamfélaginu og ber skert traust til umhverfsins er einnig í áhættuhópi. Fólk með geðsjúkdóma glímir gjarna við einmanaleika, auk þess sem einmanaleiki getur ýtt undir slíka sjúkdóma. Alveg eins og það er þekkt að veik félagsleg staða er áhættuþáttur þegar kemur að neyslu vímuefna og annarri sjálfskaðandi hegðun.
Rannsókn hagfræðings í Princeton sýndi fram á að skortur á félagslegu auðmagni og von, sem hvarf með glötuðum störfum á ákveðnu svæði í Bandaríkjunum á árunum 1999 til 2013, var meginorsök ofneyslu, lifrarsjúkdóma og sjálfsvíga á svæðinu. Talað var um dauða örvæntingarinnar, dauðsföll sem mátti rekja til einmanaleika, einangrunar og tilgangsleysis. Til að mæta því var gripið til aðgerða til að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu, fjölga störfum og virkja tengsl. En þannig getur einmanaleiki haft áhrif á heilu samfélögin.
„Einveran öskrar á mann“
Þegar og ef fólk hættir að reyna, fer að upplifa sig algjörlega utanveltu í samfélaginu, getur það endað í félagslegri einangrun. Félagsleg einangrun getur allt í senn verið viss léttir og þjáning fyrir fólk sem glímir við mikla erfiðleika, en er um leið hættulegt ástand, sem hefur áhrif á það hvernig fólk sér sig og annað fólk, hvernig það samsamar sig með öðru fólki og hversu mikla trú það hefur á sameiginlegum snertiflötum. Því lengur sem fólk er félagslega einangrað því erfiðara á það með að trúa því að aðrir hafi hagsmuni þess að leiðarljósi.
„Einveran öskrar á mann,“ sagði lögreglumaður sem rætt er við í Heimildinni í dag. Þar kemur meðal annars fram að íbúar í Hátúni 10 berjast sameiginlega við faraldur einmanaleikans og reyna að sinna nágrannavörslu til að gæta náungans. Ekki að ástæðulausu. Íbúar þar hafa þurft að takast á við mikla sorg vegna sjálfsvíga og ótímabærra fráfalla félaga sinna.
Fyrir nokkrum árum fjallaði RÚV um heimsóknarvini, úrræði á vegum Rauða krossins, þar sem sjálfboðaliðar heimsækja félagslega einangraða einstaklinga. Þar lýsti einn í þeim hópi þakklæti fyrir vikulegar heimsóknir sjálfboðaliðans: „Það er mikið betra að eiga Bjarna en engan vin.“
Lá látinn yfir jólin
Á aðfangadag lést ungur maður í herbergi sem hann hafði til leigu miðsvæðis í Reykjavík, án þess að nokkur yrði þess var. Allt í kring var fólk, sem klæddi sig upp í sitt fínasta púss, kom saman við borðhaldið klukkan sex og átti saman notalega kvöldstund. Nú eru um tíu ár liðin frá því að þetta gerðist, en yfir hátíðarnar liðu dagarnir, hver á eftir öðrum, óheyrilega langir og erfiðir fyrir fjölskyldu unga mannsins, sem var búsett erlendis og reyndi ítrekað að ná í hann, án árangurs. „Sonur minn er týndur og enginn veit hvar hann er,“ skrifaði faðir hans í minningargreininni, en sex dagar þurftu að líða þar til hægt var að tilkynna manninn týndan. Þann 30. desember fór lögreglan loks inn á heimilið og fann manninn. „Aldrei hefur klukkan gengið svona hægt. Aldrei hefur fjarlægðin frá Noregi heim til Íslands verið svo mikil. Aldrei áður hef ég verið svo hjálparlaus,“ skrifaði faðir hans.
„Er ekki örugglega einhver sem veit af honum?“
„Er ekki örugglega einhver sem veit af honum?“ skrifaði nágranni manns sem bjó í kjallara á nýlegu húsi í fjölskylduvænu hverfi í borginni. Maðurinn hafði varla stigið fæti út fyrir hússins dyr svo mánuðum skipti. Bréfið var sent á heilsugæsluna, en fjölskyldan hafði einnig samband við héraðslækni, félagsþjónustuna, lögregluna, slökkviliðið og heilbrigðiseftirlitið af ótta um afdrif mannsins. „Það bentu allir á einhvern annan.“ Í þrígang, svo vitað sé, kallaði maðurinn sjálfur eftir aðstoð, en án árangurs. Hann var þá orðinn veikur, hræddur og máttvana. Í síðasta skiptið sem nágranninn sá hann var þegar hann var borinn út af heimilinu í fangi lögreglumanns, tveimur dögum áður en hann lést. „Við höfum sífellt komið að lokuðum dyrum,“ stóð í bréfi sem fjölskylda nágrannans sendi á allar þessar stofnanir. Aðeins einn brást við bréfinu og baðst afsökunar, ekki sem fulltrúi sinnar stofnunar heldur sem einstaklingur. „Mér hefði aldrei dottið í hug að einhver gæti verið svona mikið einn,“ útskýrði nágranninn.
Í litlu rjóðri fyrir neðan Erluhóla í Breiðholti fannst fyrir nokkrum árum lík manns sem hafði legið þar látinn í nokkra mánuði. Tíma tók að finna út úr því hver hinn látni væri, þar sem ekki hafði verið tilkynnt um brotthvarf hans. Í ljós kom að um var að ræða 83 ára gamlan mann sem þótti orðheppinn og skemmtilegur, dóttir hans sagði hann hafa verið sér góður og nágranni hans sagði hann hafa verið indælismann og fyrirmyndarnágranna, rólyndismaður sem heilsaði og bauð góðan daginn. En enginn virðist hafa saknað hans þegar hann hvarf.
Engar opinberar tölur eru til yfir einmana dauða hér á landi, eins og það er kallað þegar fólk deyr eitt, liggur látið og finnst ekki fyrr en að einhverjum tíma liðnum. Í umfjöllun Heimildarinnar kemur í ljós að lögregla, lásasmiðir, ræstitæknar og útfararstjórar eru kallaðir út um það bil tvisvar sinnum í mánuði vegna fólks sem býr eitt, deyr eitt og enginn hefur saknað. Oft er það lyktin sem gerir nágrönnum viðvart. Og einmitt þar sem einmanaleikinn er sárastur skapast mesta hættan á að aldrei sé hægt að upplýsa um dánarorsök.
Faðir unga mannsins sem lést á aðfangadag velti því upp í minningargrein um son sinn hvort eitthvað hefði gerst í þjóðfélaginu sem væri ekki rétt. Það væri sem fólk væri búið að gleyma verðmætunum sem sköpuðu landið, „eigum við ekki að elska náungann?“ spurði hann. „Það eru svo ótrúlega margir sem ganga um göturnar á meðal okkar sem við viljum helst ekki sjá. Við reynum að líta í aðra átt þegar við mætum þeim og það sama gera þeir sem stjórna landinu okkar.“
Fólk þjáist, reynir að deyfa sársaukann, missir fótanna og er afskrifað af samfélaginu, sem það þarfnast svo sáran.
Stærsta ógn nándar?
Íslenskir grunnskólanemar svöruðu spurningum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands í Íslensku æskulýðsrannsókninni, þar sem fylgst er með lífsgæðum íslenskra ungmenna. Niðurstöðurnar eru áhyggjuefni, en helmingur nemenda í 10. bekk glímir við kvíða. Kvíði mælist meiri á meðal stúlkna en drengja, en alls sögðust 37 prósent stúlkna í 10. bekk hafa fengið sjálfsvígshugsanir.
Lokaritgerð sem unnin var í meistaranámi í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands árið 2020 sýndi fram á að aukin samfélagsmiðlanotkun unglingsstúlkna spái fyrir um aukin þunglyndis- og kvíðaeinkenni. Áhrifin virðast vera því meiri, því fyrr sem stúlkur byrja að nota samfélagsmiðla. Höfundur rannsóknarinnar velti upp þeirri spurningu hvort samfélagsmiðlanotkun hafi áhrif á samskiptahæfni á milli einstaklinga, en í því ljósi má nefna að 50 prósent nemenda í 10. bekk, og þar af 59 prósent stúlkna, hafa reynt að minnka tímann sem þeir verja á samfélagsmiðlum. Í viðtali við Heimildina lýsti ein úr þessum hópi því að hún hefði játað sig sigraða og væri hætt að reyna.
Á meðan lesa aðeins 36 prósent nemenda í 10. bekk sér til skemmtunar.
„Ætli síminn sé mögulega orðinn ein stærsta ógn nándar?“
Í erlendum rannsóknum er bent á áhættuþáttinn sem felst í því að samskiptamynstrið færist frá eiginlegum samverustundum yfir á samfélagsmiðla. Samkvæmt upplýsingum frá Bandaríkjunum ver fólk minni tíma með öðru fólki núna en fyrir tuttugu árum síðan, sem getur bæði orsakast af álagi og streitu, og valdið streitu. Í aldurshópnum 15 til 24 ára varði fólk allt að 70 prósent minni tíma með vinum sínum, en þess meiri tíma á samfélagsmiðlum. Þótt dæmi séu um að einmana fólk hafi fundið sitt samfélag í gegnum samfélagsmiðla, hafi fólk enn sömu þörf og áður fyrir nærveru og nánd.
Óformleg könnun sem Vísir lagði fyrir lesendur í fyrra var vísbending um það. Spurt var hvort samfélagsmiðlanotkun skapaði vandamál í ástarsamböndum. „Ætli síminn sé mögulega orðinn ein stærsta ógn nándar og innileika í ástarsamböndum?“ Alls svöruðu 12 prósent þátttakenda að samfélagsmiðlanotkun skapaði mikið vandamál í sambandinu, 23 sögðu vandamálið talsvert og 21 prósent sögðu samfélagsmiðlanotkun skapa vanda þótt lítill væri.
Til mikils að vinna
Eins er það hlutverk stjórnvalda að skapa umhverfi þar sem félagsleg tengsl myndast, þrífast og dafna. Enda hefur víða verið gripið til ráðstafana. Í Bretlandi var ráðherra einmanaleika skipaður árið 2018, þegar einn af hverjum sjö íbúum sagðist oftast eða alltaf vera einmana. Í rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum sagðist helmingur þátttakenda glíma við einmanaleika.
Sérfræðingar hafa hvatt stjórnvöld til að innleiða og framfylgja stefnu þar sem markvisst er stuðlað að félagslegum tengslum borgara. Margar leiðir eru til þess.
Félags-, velferðar- og heilbrigðiskerfi verða að geta tekið á móti og sinnt fólki sem þarf á því að halda. Það skiptir máli að fólk geti komið sér upp föstu húsnæði og búið við atvinnuöryggi, en það getur haft neikvæð áhrif að þurfa oft að flytja á milli staða og skipta oft um skóla eða vinnu, með þeim afleiðingum að félagsleg tengsl rofna.
Borgarskipulag getur haft mikil áhrif á lífsgæði íbúa og stuðlað að auknum tengslum, ef gengið er út frá því að samvera fólks sé í fyrirrúmi, gróður og iðandi mannlíf. Þar sem fólk getur nýtt almenningssamgöngur, gengið um og átt góðar stundir í almannarýminu.
Það er til mikils að vinna, því einmanaleiki dregur ekki aðeins úr trú einstaklingsins á sjálfum sér, eykur streitu og dregur úr svefngæðum, dettur fólk frekar úr námi, sækist síður eftir árangri á vinnumarkaði og skilar lélegra framlagi. Samfélagslegur kostnaður er því umtalsverður, þótt mannleg þjáning verði seint metin til fjár.
Eins og íbúi í Hátúni lýsti upplifun sinni af einmanaleika: „Þetta er sársaukafullt.“ Þá getur skipt máli að það taki einhver brosandi á móti þér í búðinni og spyrji einfaldlega hvernig þú hafir það, einhver sem kemur fram við viðskiptavini eins og vini.
Athugasemdir