Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Vill þyngri refsingar fyrir vændiskaup

Bryn­hild­ur Björns­dótt­ir, vara­þing­mað­ur Vinstri grænna, seg­ir það skjóta skökku við að vændis­kaup telj­ist til brota sem ljúka má með lög­reglu­stjóra­sekt. Hún tel­ur að nafn­leynd sem vændis­kaup­end­ur hafa not­ið í rétt­ar­kerf­inu gefa til kynna að dóm­stól­um þyki vændis­kaup al­var­legri og skamm­ar­legri glæp­ur en við­ur­lög­in gefi til kynna. Bryn­hild­ur vill að refsiramm­inn fyr­ir vændis­kaup verði end­ur­skoð­að­ur.

Vill þyngri refsingar fyrir vændiskaup
Leynd „Nafnleynd sú sem vændiskaupendur hafa notið í réttarkerfinu, gefur síðan til kynna að dómstólum þykir vændiskaup alvarlegri og skammarlegri glæpur en virði viðurlög kveða á um,“ sagði Brynhildur á Alþingi í dag. Mynd: Heiða Helgadóttir

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að það hafi ekki verið tekið til skoðunar að gera breytingar á refsirammanum um kaup á vændi. Hún útilokar þó ekki að það verði gert. 

Samkvæmt almennum hegningarlögum skal vændiskaupandi sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári en refsiramminn lengist í tvö ár ef um er að ræða endurgjald fyrir vændi barns sem er undir 18 ára aldri. 

Brynhildur Björnsdóttir, varaþingmaður Vinstri grænna, kallaði eftir því í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag að refsiramminn fyrir vændiskaup yrði endurskoðaður. 

Lenda aftast í röðinni

Brynhildur, sem sendi í fyrra frá sér bók um íslenskar konur sem hafa verið í vændi, sagði vændiskaup ein af alvarlegustu tegund kynferðisofbeldis ef litið er til afleiðinga fyrir brotaþola. Hún benti jafnframt á að rannsókn Stígamóta sem kynnt var í fyrra sýni að brotaþolar vændis séu mun líklegri til þess að þjást af áfallastreitu og þunglyndi og gera tilraun til sjálfsvígs en aðrir þolendur kynferðisofbeldis. 

„Það skýtur því skökku við, virðulegi forseti, að vændiskaup teljist til brota sem ljúka má með lögreglustjórasekt,“ sagði Brynhildur og benti á að stærstur hluti fólks sem verður fyrir vændi séu heimilislausar konur með þroskaskerðingu, konur í neyslu og fátækar konur sem eiga erfitt með að sjá sér og börnum sínum farborða. 

„Hópar sem samfélaginu ber að vernda gegn misnotkun í skjóli valda mismunar þessi léttvægu viðurlög verða til þess að vændiskaup mál lenda oftar en ekki aftast í forgangsröðinni þegar kemur að rannsóknum lögreglu,“ sagði Brynhildur sem telur að endurskoða þurfi refsingu fyrir vændiskaup. 

Útilokar ekkertGuðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir það ekki hafa komið til skoðunar að lengja refsirammann en útilokar ekki að það verði gert.

Hafa ekki skoðað að lengja refsirammann

Í viðtali við Heimildina í fyrra sagði Eva Dís Þórðardóttir, sem hefur opnað sig um sína reynslu af vændi, að refsiramminn ætti að vera þyngri. 

„Og gerendur ættu ekki að njóta nafnleyndar í lokuðu þinghaldi, frekar en nauðgarar eða morðingjar,“ sagði Eva þá. 

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra tók undir með Brynhildi um að vændiskaup séu alvarlegt brot. 

„Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um eða verið tekið til skoðunar hvort gera eigi breytingar á refsirammanum um kaup á vændi en ég útiloka alls ekki að það verði gert,“ sagði Guðrún. 

Kjósa
12
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Valgerður Magnúsdóttir skrifaði
    Það er svo sannarlega þarft að hreyfa við þessu málefni eins og Brynhildur Björnsdóttir gerði með fyrirspurn sinni til dómsmálaráðherra.
    1
  • Axel Axelsson skrifaði
    hver á líkama kvenna ? . .
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár