Stundum virðast þeir sem gefa sig út fyrir að aðhyllast frelsi einstaklingsins, skilgreina frelsi sem rétt þeirra sjálfra til þess að segja og gera hvað sem er, án tillits til annarra. Frelsi þeirra til að viðhalda völdum án afskipta af því sem þeir gera. Til að grafa undan þeim sem veita aðhald eða gagnrýna gjörðir þeirra. Stimpla þá sem hafa aðra sýn, önnur gildi og velja að lifa lífi sínu öðruvísi en þeir. Rétt þeirra til þess að tala með niðrandi hætti um aðra, gera lítið úr þeim, snúa út úr, taka hluti úr samhengi til þess að mála myndina sem þeim hentar hverju sinni og fara jafnvel fram með rangfærslur.
Negri í Þistilfirði
Á undanförnum árum hafa mismunandi hópar verið teknir fyrir með þessum hætti, jafnvel einstaklingar, stundum með alvarlegum afleiðingum. Fyrst voru það femínistar, svo múslimar, hælisleitendur og nú hinsegin fólk. Reyndar nær þessi saga mun lengra aftur. Það hefur aldrei verið auðvelt að falla ekki að normi þeirra sem hafa valdið, hvorki hér á landi né annars staðar. Því meiri sýnileiki, því öflugri réttindabarátta og sterkari samstaða, því andstyggilegri verður andstaðan. Það er eins og ákveðinn hópur fólks í samfélaginu þoli ekki að aðrir ögri valdi þeirra og gildismati.
Vinkona mín á tíræðisaldri rifjaði eitt sinn upp að þegar hún var lítil stelpa í Vík í Mýrdal voru tvær konur í þorpinu sem klæddu sig öðruvísi en aðrar og dirfðust að hafa sig í frammi á fundum. Fyrir vikið voru þær hafðar að háði og spotti. Krakkarnir gengu á eftir þeim og híuðu á þær.
Sjáðu negrann, var fyrirsögn á þýddu viðtali við mann sem hafði flust búferlum frá Kenía til Svíþjóðar árið 1970. Sex árum síðar birtist fyrirsögnin Negri í Þistilfirði í dagblaðinu Dagur frá Akureyri. Fréttin fjallaði um „Afríkunegra í snjó“.
„Þetta er maður mitt á meðal okkar hér á Íslandi, sem á við vægast sagt óvenjulegt vandamál að stríða“
„Hann vill verða kona!“ var forsíðufyrirsögnin á fyrsta tölublaði Pressunnar 1988. „Þetta er maður mitt á meðal okkar hér á Íslandi, sem á við vægast sagt óvenjulegt vandamál að stríða. Hann er á þrítugsaldri og lítur út eins og hver annar ungur maður, en í eigin huga er hann – og hefur alltaf verið – kvenkyns. Sjálfsímynd hans er af konu, sem er fangi í líkama karlmanns,“ sagði í inngangi að viðtali við trans konu, sem var nafnlaus af „tillitssemi við ættingja“.
Einn benti á annan
Áður hafði hún komið út úr skápnum sem hommi og þá tók það móður hennar tvö ár að sætta sig við það. „Ég varð að koma mér upp andlegri brynju í þeim tilgangi að þola allar augngoturnar,“ því það var mikið pískrað. „Ég er víst heilmikið á milli tannanna á fólki.“ Í fyrstu hafi hún tekið það óskaplega nærri sér.
Hún hafði einnig gerst svo djörf að klæðast kvenfötum á böllum með samkynhneigðum mönnum. Í hvert sinn leið henni eins og hún væri að gera „ofboðslegan skandal“.
Hún óttaðist því viðbrögð samfélagsins við því að hún léti leiðrétta kyn sitt og gerði allt eins ráð fyrir að þurfa að flytja af landi brott eftir aðgerðina. „Mér fyndist auðvitað andskoti hart að láta hrekja mig úr landi, en maður verður víst að horfast í augu við að það gæti gerst.“ Engu að síður var hún staðráðinn í að komast í aðgerð. „Það getur enginn trúað því hvað þetta er mikið sálarstríð, nema sá sem reynsluna hefur.“ Það var þó ekki auðsótt að hefja kynleiðréttingarferli og trans konan hafði gengið á milli lækna, án árangurs.
Fyrst þurfti hún nokkur ár til að safna kjarki til að ræða við heimilislækninn, sem varð klumsa, og vísaði henni á landlækni, sem vísaði henni á Landakot, þaðan sem henni var vísað á geðlækni, sem hófst strax handa við að reyna að lækna hana. Geðlæknirinn starði út um gluggann, sagði já og nei með reglulegu millibili og rakti úr henni garnirnar. „Tilgangurinn með meðferðinni virtist eiga að vera sá að gera mig að venjulegum borgara. Til þess þurfti ég að kafa óskaplega djúpt í fortíðina, fjölskyldulíf mitt og ýmislegt annað. Persónulega gat ég ekki séð að það kæmi þessu neitt við. Ég hélt að málið snerist um mínar tilfinningar og langanir – ekki einhverja fjölskylduharmleiki. En geðlæknirinn var að leita að sökudólgi. Sjálfur held ég að það sé ekki um neinn sökudólg að ræða. Mér hefur einfaldlega alltaf fundist ég vera kvenkyns. Það er staðreynd, sem ekkert fær breytt,“ sagði trans konan sem hafði enn ekki fengið þá heilbrigðisþjónustu sem hún óskaði eftir.
„Tilgangurinn með meðferðinni virtist eiga að vera sá að gera mig að venjulegum borgara“
Það var ekki fyrr en 2009 sem farið var að gera þessar aðgerðir á Íslandi. Árið 2012 voru fyrst sett lög um réttarstöðu fólks með kynama og þá um nóttina var trans maður laminn í Reykjavík. Loks voru lög um kynrænt sjálfræði samþykkt 2019. Lögin kveða á um rétt einstaklinga til að skilgreina sjálfir kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Fyrrverandi forsætisráðherra, alþingismaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagði að um væri að ræða „óhugnanlegasta þingmál sem ég man eftir í seinni tíð“. „Þingveturinn fer af stað með trukki þegar Sigmundur Davíð stekkur á anti-trans vagninn,“ skrifaði annar þingmaður. Seinna sagði Sigmundur Davíð að ef réttindabarátta væri farin að hafa áhrif á löggjöf væru stjórnmálamenn að gefa frá sér of mikið vald.
Áróður inn um lúguna
Þetta er gömul saga og ný. Eftir seinni heimsstyrjöldina voru samkynhneigðir menn í Bandaríkjunum stimplaðir sem „kynferðislegir öfuguggar“, fangelsaðir fyrir „glæpsamlega“ hegðun og árið 1950 réttaði öldungadeildin yfir samkynhneigðum starfsmönnum stjórnvalda og hrakti þá burt, með fordæmingu og skömm. Hert eftirlit lögreglu með þessum hópi varði fram á sjöunda áratuginn.
Á Íslandi voru þeir kallaðir „kynvillingar“. Fólk sem lifði þessa tíma lýsir því í Heimildinni í dag hversu óbærilegt það var að lifa við fordómana. Sveinn Kjartansson fór á ball og vegna þess að hann dansaði við karla beið lögreglan eftir honum, ók honum upp á Ártúnshöfða og skildi hann þar eftir í myrkrinu.
Fyrrverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hélt sambandinu leyndu í fimmtán ár af ótta við viðbrögð almennings og áhrif þess að koma út úr skápnum á pólitískan feril hennar. Hún bendir á að barátta hinsegin fólks kostaði „persónulegar fórnir, blóð, svita og tár“, og treystir á að samstaða þjóðarinnar haldi, þótt „lítill minnihlutahópur reyni að koma inn ranghugmyndum hjá fólki“.
Hún vísar þar til þess að undanfarna daga hefur áróður gegn hinsegin fólki skollið á samfélagsmiðlum, mótmælt var við Alþingishúsið og fulltrúi ríkisstyrktra samtaka sem hafna trans fólki mætti óboðinn í grunnskóla til að gera usla vegna hinsegin fræðslu.
„Fullorðið fólk sem slíkt geri „nýtir sér sakleysi óharnaðra ungmenna““
Í gær var þessum viðhorfum svo dreift inn um lúgur allra landsmanna, í boði Morgunblaðsins. Í Staksteinum var talað um „ágengni“ gagnvart börnum, „fagurgala“ um fjölbreytileika, að ráðist sé að „vammlausri og óreyndri æsku“ með „fávisku“ um að hægt sé að fæðast í röngu kyni. Fullorðið fólk sem slíkt geri „nýtir sér sakleysi óharnaðra ungmenna“. Um sé að ræða „óæskilega þróun þar sem börn séu leiksoppar í furðuveröld jaðarhóps fullorðinna“. Samtökin ‘78 eigi „ekkert erindi með sérviskuskoðanir um kyn og kynlíf inn í leik- og grunnskóla“.
Í Staksteinum var sömuleiðis ýjað að því að umdeild kennslubók í kynfræðslu sé á vegum Samtakanna ‘78, þrátt fyrir að búið sé að leiðrétta þá rangfærslu. Samtökin ‘78 standa ekki að kynlífsfræðslu í leik- og grunnskólum. „Þetta er kannski bara gott dæmi um það að hinsegin fólk er oft smættað niður í kynlífið sitt,“ sagði Daníel Arnarson, framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78.
Samtökin fara hins vegar inn í skóla með hinsegin fræðslu, meðal annars vegna þess að þriðjungur hinsegin nemenda hafa verið áreittir munnlega í skólanum og tólf prósent hinsegin nemenda hafa verið áreitt líkamlega vegna kynhneigðar sinnar. Hinsegin nemendur upplifa sig ekki jafn örugg í skólanum og önnur börn. Samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið á heilsu og líðan trans fólks er tíðni sjálfsvíga og sjálfsvígstilrauna hærri á meðal transfólks en annarra minnihlutahópa, sem er talið endurspegla bága lagalega og þjóðfélagsstöðu þeirra. Fyrir þennan hóp getur fræðsla og stuðningur skipt sköpum.
Fóður fyrir fordóma
Menntamálastofnun gefur kennslubókina út og hefur áréttað að mismunandi efni bókarinnar geti hentað börnum á mismunandi aldri og í mismunandi aðstæðum. Kennslubókinni virðist meðal annars ætlað að vera andsvar við aðgengi barna og ungmenna að óæskilegu efni á netinu. Í rannsókn sem Landlæknisembættið vísar til eiga 95 prósent barna í 4.–7. bekk farsíma.
Embætti landlæknis vann skýrslu um aðgengi og áhrif klámefnis á börn og ungmenni, og þar eru lagðar til aðgerðir. Ein af þeim felst í markvissri kennslu í kynjafræði og kynfræðslu sem inniheldur kynlífsfræðslu fyrir nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskóla. Fólk sem starfar með börnum þurfi að búa yfir lágmarksþekkingu á þessu efni. Þá þarf námsefni að vera til staðar fyrir börn með hegðunarraskanir, þroskaraskanir, hinsegin börn og aðra jaðarsetta hópa.
„Það er ekki réttlætanlegt að nota þessa bók sem fóður fyrir rangfærslur og fordóma gagnvart jaðarsettum hópi“
Samkvæmt menntastefnu Reykjavíkurborgar á yngsta stigi, fyrir sex til tíu ára börn, þarf að ræða við börn um að á netinu geti þau séð myndir og myndbönd sem innihalda nakið fólk og að það geti valdið börnum vanlíðan. „Börn eiga ekki að þurfa að sjá klám, en vegna ófullnægjandi varna gerist það þó stundum. Börn leita ekki bara að klámi, klám leitar jafnmikið að börnum, það poppar upp óbeðið í gegnum hinar ýmsu netsíður og sumt klám er sett fram í formi teiknimynda til að ná enn frekar til barna. Setjið því ekki skömm á barnið, hjálpið því frekar,“ segir í leiðbeiningum borgarinnar.
Mikilvægt sé að láta börnin vita að þau geti talað um það sem þau sjá, heyra og upplifa. Þau megi tala um líkama sinn og að það sé allt í lagi að upplifa alls konar tilfinningar. Börn eigi að vita að þau ein eiga rétt yfir líkama sínum. Þessi skilaboð koma skýrt fram í þessari kennslubók, sem er umdeild vegna þess að þar er að finna upplýsingar um sjálfsfróun, kynlíf og endaþarmsnæmi. Börn á yngsta stigi grunnskóla eru ekki kynverur, og því eðlilegt að foreldrum verði við og óski eftir nánari upplýsingum um tilgang og notkun bókarinnar. En það er ekki réttlætanlegt að nota þessa bók sem fóður fyrir rangfærslur og fordóma gagnvart jaðarsettum hópi í samfélaginu.
Sprengjuhótanir vegna auglýsinga
Allt í einu flæddi yfir samfélagsmiðla áróður um að nú þyrfti að vernda börnin, oft með tilvísun í hinsegin samfélagið, ekki síst í trans fólk. Mótmælendur mættu síðan fyrir utan Alþingishúsið með sömu skilaboð. „Það er ekkert grín að sitja undir því að við séum barnaníðingar,“ sagði Daníel. En það er heldur ekkert nýtt að samkynhneigðir menn séu sakaðir um barnaníð, eins og kemur fram í frásögnum eldra fólks. Orðræðan í dag er endurtekning frá því sem áður var.
Þessi þróun á sér stað víða um heim. Í Bandaríkjunum má sjá íhaldssöm öfl ráðast í herferðir til að skerða réttindi og þjónustu við trans einstaklinga, hindra aðgengi þeirra að heilbrigðisþjónustu og útiloka þá frá aðstöðu í takt við kyn. Fordómar og árásir á trans fólk hafa farið vaxandi þar í landi samhliða harkalegri gagnrýni íhaldsmanna á kynleiðréttingaraðgerðir.
Aldrei höfðu jafnmargir trans og kynsegin einstaklingar verið myrtir í Bandaríkjunum á einu ári og árið 2020. Þá voru þeir 37. Ári síðar var fjöldinn kominn upp í 50. Á meðal hinna látnu er ungt fólk, sem var uppfullt af ást og kærleika til heimsins og sárt saknað af ástvinum. Móðir 27 ára trans konu, sem var myrt á þakkargjörðarhátíðinni 2022, sagði um dóttur sína: „Ég vil að heimurinn viti að Diamond var kletturinn minn, öxlin mín, barnið mitt sem ég elska.“
„Þetta byrjaði á því að það var verið að gelta að trans konum til að ýja að því að þær séu ekki mennskar“
Ríki þar sem repúblikanar fara með völd hafa lagt bann á meðferðir fyrir trans börn, jafnvel fullorðna. Kennarar sem ræða við börn um kynhneigð og kyngervi hafa verið sakaðir um barnaníð. Og fjöldi hótana, meðal annars sprengjuhótana, bárust móðurfélagi Bud Light þegar trans áhrifavaldur var fenginn til að kynna drykkinn.
Ótti við vaxandi andúð
„Nú þarf að hlusta á okkur hinsegin fólkið þegar við segjum að bakslagið sé komið,“ sagði Hjalti Vigfússon þegar hryðjuverkaárás var gerð á hinsegin skemmtistað í Osló sumarið 2022, en árásarmaðurinn hafði boðað á samfélagsmiðlum að hann ætlaði að drepa samkynhneigða. Síðar á sama ári voru fimm skotnir til bana á hinsegin skemmtistað í Colorado.
Á undanförnum árum hafa hinsegin einstaklingar lýst ótta við vaxandi andúð, ekki síst trans einstaklingar. Í maí í fyrra greindi hópur hinsegin unglinga í Reykjavík frá því að þau verði daglega fyrir aðkasti. Vegna þess forðist þau jafnvel að fara ein út úr húsi. Þau hafi verið elt uppi, grýtt og hvött til að skaða sig eða svipta sig lífi. Á götum úti sé gelt á þau. „Þetta er eitthvert trend sem var á TikTok. Þetta byrjaði á því að það var verið að gelta að trans konum til að ýja að því að þær séu ekki mennskar, að þær séu bara hundar því þær tilheyra ekki staðlaðri fegurðarímynd. Krakkarnir eru að pikka þetta upp,“ útskýrði Arna Hrund Arnarsdóttir, móðir Iðunnar Birnu Þórisdóttur. Iðunn sagði meðal annars frá því þegar steinum var kastað í hana.
Fyrir nokkrum árum hvarflaði ekki að Mars M. Proppé að það gæti háð hán að vera trans. Í dag segist hán „hrætt við að fólk finni mig í fjöru“, af þeirri einföldu ástæðu að hán er trans.
Annað bakslag átti sér stað hér á landi í kringum 2006, og þá voru fleiri dæmi um alvarlegt ofbeldi gagnvart hommum og trans fólki en hafði sést í langan tíma. Sextán ára piltur fór sérstaklega inn á spjallrás fyrir homma, því hann „langaði til að prófa að drepa mann“, fjórir menn réðust á mann í Öskjuhlíð og börðu úr honum fjórar tennur eftir að hafa spurt hvort hann væri hommi og ung kona var nærri kyrkt til bana af manni, þegar hann komst að því að hún væri trans.
Það er því stutt í óttann þegar hinsegin samfélagið skynjar bakslag.
Frelsi fylgir ábyrgð
Vonandi hafa einhverjir þeirra sem hafa tjáð sig á síðustu dögum stigið inn í umræðuna á röngum forsendum og geta endurmetið afstöðu sína, þegar þeir átta sig á skaðanum sem vanhugsaðar athugasemdir geta valdið.
„Enn virðist ákveðið fólk þó líta svo á að það hafi ekki málfrelsi ef það má ekki útmála jaðarhópa“
Einhverjir óttast að aukinn sýnileiki, réttindi trans barna og fræðsla um tilvist þeirra, verði til þess að önnur börn ruglist í ríminu. En ef fólk hlustar á það sem trans börn hafa að segja þá er ekkert sem gerði þau að trans börnum, þau eru það bara. Ekki frekar en eitthvað gerir mann að homma, hann er það bara. Umræðan um samkynhneigða var eitt sinn á þessum slóðum, en nú vita flestir betur.
Enn virðist ákveðið fólk þó líta svo á að það hafi ekki málfrelsi ef það má ekki útmála jaðarhópa og efast um tilvist þeirra og tilvistarrétt, og telja að sér vegið ef slíkur málflutningur er gagnrýndur. En það er ekkert frelsi án ábyrgðar.
Raunverulegt frelsi felst í því að leyfa fólki að vera eins og það er, í friði frá áreiti, hatursorðræðu og ofbeldi.
Til þeirra sem hafa ekki fengið það er hér hvatning frá fyrrverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur: „Berðu höfuðið hátt og láttu engan troða á tilfinningum þínum.“
Athugasemdir (1)