Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Vinstri græn mælast með minnst fylgi allra flokka á Alþingi

Mið­flokk­ur­inn mæl­ist nú stærri en Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn sem hef­ur ekki mælst minni í þrjú ár. Rétt um þriðj­ung­ur lands­manna styð­ur rík­is­stjórn­ar­flokk­anna sem er ein­ung­is sex pró­sentu­stig­um meira en fylgi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar um þess­ar mund­ir. Rík­is­stjórn hef­ur því þing­vet­ur­inn í mik­illi brekku.

Vinstri græn, flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, mælist með 5,9 prósent fylgi í nýjustu skoðanakönnun Gallup sem RÚV birti í gærkvöldi. Bætt staða annarra flokka milli mánaða og fylgistap Vinstri grænna gerir það að verkum að flokkurinn er nú sá flokkur á Alþingi sem mælist með minnst fylgi. Það hefur ekki gerst síðan í desember 2015 að Vinstri græn vermi það sæti, en þá voru líka fimm flokkar á þingi. Í dag eru þeir átta. Eini flokkurinn sem mælist með fylgi í könnunni sem færri segjast ætla að kjósa er Sósíalistaflokkur Íslands, með 4,4 prósent fylgi, en hann náði ekki inn á þing í síðustu kosningum. 

Fylgi Vinstri grænna hefur nú verið undir tveggja stafa tölu síðan í maí í fyrra í könnunum Gallup og mælist í annað skipti í sögunni undir sex prósentustigum. Fyrra skiptið var í maí á þessu ári þegar Vinstri græn fengu verstu mælingu sína frá upphafi, en þá sögðust einungis 5,7 prósent aðspurðra ætla að kjósa flokkinn. Vinstri græn eru nú ansi nálægt fimm prósent markinu, en ef flokkar fara undir það þá fá þeir ekki uppbótarþingmenn þótt ekki sé útilokað að slíkt fylgi geti skilað kjördæmakjörnum þingmanni.

Staða hinna stjórnarflokkanna er heldur ekki beysin enda hefur sameiginlegt fylgi Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks aldrei mælst lægra síðan að þeir mynduðu ríkisstjórn haustið 2017. Í dag segjast 34,5 prósent landsmanna að þeir myndu kjósa þessa þrjá flokka ef kosið yrði í dag. Það 19,8 prósentustigum minna fylgi en þeir fengu samanlagt í kosningunum 2021. Stjórnarflokkarnir hafa því tapað 36 prósent af fylgi sínu á fyrstu tveimur árum kjörtímabilsins, sem er hálfnað síðar í þessum mánuði.

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nánast sá sami og sameiginlegt fylgi flokkanna sem hana mynda, eða 34 prósent. 

Ekki lengur best að kjósa Framsókn

Það þarf að leita þrjú ár aftur í tímann, til september 2020, til að finna jafn slaka mælingu á fylgi Framsóknarflokksins og í ágúst. Nú segjast 7,5 prósent aðspurðra ætla að kjósa flokkinn sem fékk 17,3 prósent atkvæða í síðustu kosningum. Það þýðir að hann hefur tapað 9,8 prósentustigum af fylgi það sem af er kjörtímabili. 

Annað sem vekur athygli er að fylgi Miðflokksins – flokks sem stofnaður var utan um Sigmund Davíð Gunnlaugsson fyrrverandi formann Framsóknarflokksins eftir að hann tapaði formannsslag þar – mælist nú meira en fylgið Framsóknar, eða 8,7 prósent. Það er mesta fylgi sem sá flokkur hefur mælst með síðan í desember 2020 sem var líka síðasta skiptið sem flokkur Sigmundar Davíðs mældist stærri en Framsóknarflokkurinn í könnun Gallup

Sjálfstæðisflokkurinn var að mælast í kringum kjörfylgi í fyrra haust, þegar kannanir Gallup sýndu hann enn stærsta flokk landsins með í kringum 24 prósent fylgi. Það hefur hins vegar dalað á þessu ári og nú mælist hann reglulega með 21-22 prósent fylgi hjá Gallup. Í nýjustu könnuninni var það 21,1 prósent. 

Samfylkingin stöðugt stærst

Áttunda mánuðinn í röð mælist Samfylkingin stærsti flokkur landsins. Fylgi hennar stendur nánast í stað milli mánaða og mælist 28,5 prósent. Fylgi flokks Kristrúnar Frostadóttur er nú meira en sameiginlegt fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna og nánast það sama og sameiginlegt fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Samfylkingin hefur bætt við sig 18,6 prósentustigum af fylgi á fyrri hluta kjörtímabilsins sem er litlu minna en það fylgi sem stjórnarflokkarnir hafa sameiginlega tapað á sama tíma. Önnur leið til að líta á stöðuna er að horfa á að Samfylkingin mælist nú með einungis sex prósentustigum minna fylgi en allir stjórnarflokkarnir þrír til samans.

Eini stjórnarandstöðuflokkurinn, utan áðurnefndra Miðflokks og Samfylkingar, sem mælist með meira fylgi í dag en hann fékk í síðustu kosningum eru Píratar. Sú aukning er þó lítið, flokkurinn fékk 8,6 prósent í kosningunum í septemberlok 2021 en mælist nú með 10,3 prósent. Miðflokkurinn, sem virðist sækja fylgisaukningu til kjósendahópa sem áður studdu Sjálfstæðisflokkinn, hefur hins vegar aukið fylgi sitt um rúmlega 60 prósent á tveimur árum. 

Viðreisn virðist nokkuð föst í 7-8 prósent fylgi – síðasta mæling skilar flokknum 7,2 prósentum – sem er undir kjörfylgi. Sá stjórnarandstöðuflokkur sem hefur tapað mestu fylgi á kjörtímabilinu, 2,5 prósentustigum, er Flokkur fólksins sem mælist nú með 6,3 prósent fylgi. Það er þó mesta fylgi sem flokkur Ingu Sæland hefur mælst með á þessu ári. 

Fjögurra flokka stjórn sennilegust

Frá byrjun tíunda áratugarins og fram til ársins 2016 voru allar ríkisstjórnir sem myndaðar voru á Íslandi tveggja flokka. Breytt pólitískt landslag á síðustu árum, sem leitt hefur af sér að flokkar á þingi eru nú átta, og einn til viðbótar mælist við þröskuld þess að bætast í hópinn, gerði það að verkum að eftir síðustu þrjár kosningar hafa þrír flokkar deilt með sér völdum. 

Ef síðasta könnun Gallup kæmi upp úr kjörkössunum þá væri fjögurra flokka stjórn í kortunum. Ríkisstjórn með svo mörgum flokkum hefur ekki verið mynduð síðan að stjórn Steingríms Hermannssonar sat að völdum seint á níunda áratugnum og í byrjun þess tíunda. Sú stjórn innihélt raunar um tíma fimm flokka. 

Næsta ríkisstjórn þyrfti alltaf að innihalda annað hvort Samfylkingu eða Sjálfstæðisflokk, tvo stærstu flokka landsins. Nær útilokað þykir að Samfylkingin myndi vilja mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og því þyrfti síðarnefndi flokkurinn að finna fjóra aðra samstarfsflokka til að ná meirihluta miðað við núverandi fylgi. Í ljósi þess að Píratar myndu aldrei leiða hugann að slíku ríkisstjórnarsamstarfi er sennilegasta leið Sjálfstæðisflokksins að völdum fimm flokka stjórn með Miðflokki, Viðreisn, Framsókn og annað hvort Flokki fólksins eða Vinstri grænum, með 50,4 til 50,8 prósent atkvæða á bakvið sig og mjög tæpan þingmeirihluta. Afar ósennilegt verður að teljast að slík stjórnarmyndun sé raunhæf. Því er, sem stendur, erfitt að sjá raunhæfa leið fyrir Sjálfstæðisflokkinn að völdum að nýju ef mið er tekið af stöðu mála í könnunum. 

Samfylkingin á fleiri möguleika í stöðunni. Ef hluti atkvæða myndi falla niður dauður, í þeim skilningi að þau yrðu greidd flokki sem næði ekki inn á þing, þá gæti flokkurinn sennilega myndað þriggja flokka stjórn með Pírötum og annað hvort Framsókn eða Viðreisn, en með minnihluta atkvæða á bakvið sig. Til að búa til sterkari meirihluta gæti Samfylkingin valið að vinna til vinstri í fjögurra flokka stjórn með Pírötum, Framsókn og Vinstri grænum eða til hægri með því að skipta Vinstri grænum út fyrir Viðreisn. Erfitt er að sjá að Samfylkingin muni leiða hugann að samstarfi með Flokki fólksins eða Miðflokknum.

Könnun Þjóðarpúls Gallup var framkvæmd á bilinu fyrsta til 31. ágúst og var netkönnun.

Kjósa
29
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (3)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • GEK
    Guðrún Emilía Karlsdóttir skrifaði
    Þurfum að losna við þessa auðlindaþjófa
    0
  • Björn Ólafsson skrifaði
    Eina í stöðunni er að XS styrkist enn. Núverandi stjórnarflokkar eiga ekki að koma nálægt næstu ríkisstjórn. Þessi stjórn er örugglega sú aumasta frá lýðveldisstofnun!
    1
  • AT
    Auður Traustadóttir skrifaði
    Jæja er ekki best að skila lyklunum?
    2
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár