Donald Trump fyrrum Bandaríkjaforseti vermir nú sviðsljósið vestanhafs vegna stöðu sinnar sem sakborningur í máli bandaríska ríkisins gegn honum. Jack Smith, sérstakur saksóknari, sem er skipaður af dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, lagði fram ákæruna og óskaði jafnframt eftir því að málið fengi forgangsmeðferð. „Ég hvet alla til þess að lesa ákæruna í heild,“ sagði Smith á fjölmiðlafundi og bætti við að árásin á þinghús Bandaríkjanna hefði að hluta til verið knúin áfram af lygum Trump.
Ákæran á hendur Trump er fjórþætt, og er hann meðal annars sakaður um að hafa vísvitandi haldið því fram að niðurstöður kosninganna 2020 væru rangar, þrátt fyrir að vita betur. Með því á hann að hafa veikt lýðræðislegar stoðir Bandaríkjanna. Trump er einnig kærður fyrir samsæri gegn réttindum almennings. Hefði honum tekist ætlunarverk sitt um að krukka í kosningunum, þá hefði hann brotið á réttindum fjölda ríkisborgara sem kusu Biden með löglegum hætti. Verði Trump dæmdur sekur gæti hann átt yfir höfði sér margra ára fangelsisvist.
Ágengni og áróður Trump, á meðan á kosningum stóð og þegar þeim var lokið, náði ekki eingöngu til almennra kjósenda heldur notaði hann stöðu sína til að þrýsta á embættismenn og starfsfólk stofnana. Til að mynda hringdi hann í ríkisstjóra Georgíufylkis, Brad Raffensperger, og bað hann að útvega sér eitt atkvæði í viðbót til þess að sigra Biden. Í símtalinu sagði hann: „Það sem ég vil gera er þetta. Ég vil bara finna 11.780 þúsund atkvæði.“ Einnig hélt þáverandi forseti því fram að 5.000 manns hefðu kosið í nafni látinna einstaklinga og taldi þeirra atkvæði þar með ógild. Þetta reyndist ekki vera rétt. Í samtalinu telur Trump upp mögulegar ástæður þess að telja þurfi atkvæði kosninganna aftur en þær ástæður standast ekki rök. Með þessu ætlaði Trump að tryggja sigur sinn á Biden og koma í veg fyrir að hann þyrfti að láta af völdum, en hann hélt því linnulaust fram að ekki væri að marka kosningarnar.
Biden og Trump hnífjafnir
„Lögleysan í þessum ákærum á hendur Trump Bandaríkjaforseta og fylgismanna hans minna á nasista Þýskalands á fjórða áratug síðustu aldar, fyrrum Sovétríkin og önnur einræðisríki,“ segir í tilkynningu frá kosningaskrifstofu Trumps. Þá segir einnig að Trump hafi ávallt fylgt lögum og virt stjórnarskrá Bandaríkjanna og þiggi ráð frá háttsettum lögfræðingum.
Forsetinn fyrrverandi hefur tvívegis verið ákærður til embættismissis af neðri deild bandaríska þingsins, fulltrúadeildinni, en í bæði skiptin var hann sýknaður af öldungadeildinni. Fyrri ákæran sneri að misbeitingu valds en sú síðari um hlut hans í árásinni á þinghús Bandaríkjanna 6. janúar 2021.
Donald Trump og Joe Biden hafa báðir tilkynnt að þeir bjóði sig fram til forseta árið 2024. Nýleg könnun Siena háskóla og The New York Times mældi fylgi þeirra hnífjafnt. Aðrar niðurstöður benda til að kjósendur vilji hvorugan þeirra í embætti forseta.
Athugasemdir (1)